Janúarsalat

Gleðilegt nýtt ár, öllsömul, og þakka ykkur fyrir samfylgdina.

Í dag er semsagt fyrsti dagur ársins 2018. Fyrsti janúar, sem fyrir sumum er veganúar, mánuður grænkeranna; eingöngu matur úr jurtaríkinu. Sem er líka eðlilegt í upphafi nýs árs þegar fók er mest að hugsa um að vinna gegn áhrifum jóla- og áramótasukksins; kjöt- og sykurvímunnar. Nema kannski fyrir alla þá sem fengu sous vide-tæki í jólagjöf og þurfa náttúrlega að prófa sig áfram með græjuna sína því að þótt auðvitað sé hægt að elda grænmeti og grænmetisrétti af ýmsu tagi í slíku tæki hef ég vel rökstuddan grun um að þau séu fyrst og fremst notuð til að elda kjöt. Og ekkert að því.

Sjálf reikna ég með að elda töluvert af grænnetisréttum þennan mánuðinn, þó ekki endilega vegan og alls ekki eingöngu. Kannski ekki svo mikið af rauðu kjöti samt. En í dag ætla ég vissulega að elda gæs handa fjölskyldunni. Ég á ekki von á að það verði afgangur – ég þekki mitt heimafólk – nema kannski af meðlætinu. Svo að það getur þá vel verið að það verði síðasta kjötið sem ég borða þennan mánuðinn, sé til með það. Nema ef ég ákveð að gera eitthvað fyrir MAN sem inniheldur kjöt – maður verður jú að smakka.

Vel á minnst, ég verð eingöngu með vegan-uppskriftir í janúarblaði MAN, sem kemur út í fyrstu viku ársins, svo að ef þið ætlið að taka upp veganúar-konseptið (eða kunnið að meta grænmetisrétti) getið þið vonandi fundið þar eitthvað nothæft. Uppskriftin sem ég ætla að setja hér er aftur á móti úr janúarblaðinu í fyrra – eða var það í hitteðfyrra? Ég ruglast alltaf í svoleiðis um áramót. Hún hentar allavega fyrir grænkera og þetta var bara alveg hreint ljómandi gott. (NB: þetta er annað árið í röð sem ég byrja með kínóauppskrift – ég þarf að muna að gera það ekki næsta ár, þetta á ekkert að verða að hefð.)

Butternutgraskerið er ekki rótargrænmeti en það er vetrarkúrbítur, þétt og hart þegar það er hrátt og mjúkt og ljúffengt þegar það er bakað, rétt eins og margar rótargrænmetistegundir. Ég nota kínóa með því í þessu salati, sem hentar ágætlega sem aðalréttur, en það mætti líka hafa t.d. soðin hrísgrjón, bygg eða kúskús.

_MG_8971

Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C. Svo tók ég hálft nokkuð vænt butternutgrasker – svona 500 g – flysjaði það, fræhreinsaði og skar það svo í teninga, um 2 cm á kant. Ég setti svo 1 msk af ólífuolíu í eldfast mót, velti teningunum upp úr henni, kryddaði með pipar og salti og bakaði í um hálftíma, eða þar til butternutgraskerið var orðið meyrt.

_MG_8968

Á meðan setti ég 100 g af kínóa í fínt sigti og skolaði það vel undir kalda krananum. Setti það svo í pott ásamt 400 ml af vatni og sauðí 15-18 mínútur, eða þar til kínóað var rétt meyrt og allt vatnið hafði gufað upp. Það má bæta við svolitlu vatni ef þarf svo að það brenni ekki við.

_MG_9045

Svo setti ég það í skál og blandaði butternutgraskerinu saman við, þegar það var orðið meyrt, ásamt olíunni úr fatinu (ef einhver er). Þá saxaði ég grænu blöðin af 2-3 vorlaukum og blandaði saman við, ásamt 3 msk af þurrkuðum trönuberjum, 3 msk af graskersfræjum og 30 g af grófsöxuðum pekan- eða valhnetum.

_MG_9053

Síðan hristi ég saman 3 msk af ólífuolíu, 1 msk af balsamediki og 1 tsk af dijon-sinnepi, ásamt dálitlum pipar og salti, hellti yfir salatið og blandaði vel.

Butternut- og kínóasalat

Að síðustu blandaði ég vænni lófafylli af klettasalati (nú, eða einhverjum öðrum grænum salatjurtum) saman við rétt áður en salatið var borið fram. Ég var með það volgt en það má líka vera kalt. Þetta er nú ágætlega janúarlegt og girnilegt, er það ekki? Fínn aðalréttur með brauði en gæti líka alveg verið meðlæti.

*

Volgt butternut- og kínóasalat

½ butternutgrasker, um 500 g

4 msk ólífuolía

pipar

salt

100 g kínóa

400 ml vatn

grænu blöðin af 2-3 vorlaukum, söxuð

3 msk þurrkuð trönuber

3 msk graskersfræ

30 g pekan- eða valhnetur, grófmuldar

1 msk balsamedik

1 tsk dijonsinnep

væn lófafylli af klettasalati

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s