Perunostalgía

Í svona veðri fer ég oft að hugsa um notalegheitamat af ýmsu tagi, eitthvað heimilislegt, kannski pínulítið gamaldags og kunnuglegt (en stundum í nýrri útfærslu). Mér finnst það einhvernveginn passa þegar vindurinn gnauðar úti og mann langar eiginlega mest af öllu að hreiðra um sig undir sæng. Eða bara undir teppi í stofusófanum …

Ég var í gær með uppskrift að fölskum héra, sem er einmitt þannig réttur, en nú er kannski kominn tími á eitthvert sætmeti, sem er líka dálítið retró.  „Þetta minnir á perutertuna hennar ömmu“ sögðu sumir smakkararnir og lygndu aftur augunum í sæluvímu. Og það má kannski segja að þetta sé nútímaútgáfa af henni … Auðvitað má nota dósaperur (amma gerði það) en þessar eru nú betri.

Þetta er nú kannski frekar sparilegur réttur, reyndar gerði ég þessa uppskrift fyrir þátt um jólaeftirrétti sem ég var með í MAN í fyrra. Hann er samt hvorki sérlega dýr né flókinn. Og alveg ljómandi hreint góður, er mér sagt.

_MG_9002

En ég notaði semsagt perur. Best er að þær séu ekki mjög stórar og hvorki grjótharðar né sérlega linar. Þrjár til fjórar eftir stærð, ég var með þrjár, sem ég flysjaði og skar stilkana af. Svo skar ég perurnar í tvennt og fjarlægði kjarnann. Það er best að nota kúlujárn (melónujárn) ef maður á það til en annars bara teskeið eða hnífsodd.

_MG_9007

Ég setti svo 250 g af sykri, 300 ml af vatni, 1 tsk af vanillusessens (eða vanillusykri og svolítinn sítrónusafa í pott, hitaði að suðu, setti perurnar út í og lét sjóða í 8 mínútur; sneri þeim einu sinni eða svo. Svo tók ég pottinn af hitanum og lét perurnar kólna í sírópinu.

_MG_9102

Svo setti ég 250 g af mascarponeosti í matvinnsluvélina (það má líka nota hrærivél eða þeytara), ásamt 150 g af Nutella, og hrærði þetta vel saman þar til blandan var alveg slétt.

Síðan stífþeytti ég 200 ml af rjóma í annarri skál og blandaði svo Nutellablöndunni gætilega saman við með sleikju.

_MG_9175

Síðan tók ég svamptertubotn (ég var með heimabakaðan en það má líka kaupa hann í búð), reif hann niður og setti í glerskál. Flottast er að nota alvöru trifliskál, glerskál á fæti með (nokkurn veginn) sléttum hliðum, eins og þá sem er á myndinni, en hvaða falleg skál sem er gengur. Jájá, auðvitað á ég trifliskál. Fleiri en eina og fleiri en tvær. Svo mældi ég 200 ml af perusírópinu (soðinu) í könnu og hellti jafnt yfir. Það er ekki víst að nota þurfi allt sírópið, bara eins og þarf til að bleyta í kökubitunum – kannski duga 150 ml.

_MG_9176

Raðaði svo peruhelmingunum ofan á. Svo setti ég Nutellablönduna þar ofan á og sléttaði gætilega úr henni með sleikju.

Að seinustu tók ég svona 25 g af heslihnetum, grófsaxaði þær og stráði yfir. Það mætti líka nota t.d. rifið súkkulaði til skreytingar.

Nutellatrifli3

Nutella- og perutrifli

3-4 perur, fremur litlar

250 g sykur

300 ml vatn

1 tsk vanilluessens eða vanillusykur

1-2 tsk sítrónusafi

250 g mascarponeostur, mjúkur

150 g Nutella

200 ml rjómi

1 svampkökubotn, heimabakaður eða keyptur

200 ml perusíróp

grófsaxaðar heslihnetur eða annað til skreytingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s