Héri bakaradrengsins

Búin að vera á kafi í öðru að undanförnu … Og eins og þeir vita sem til þekkja er ég oftast mun óduglegri að blogga á veturna því að ég nota svo til eingöngu dagsbirtu við myndatökur og þar er ekkert mjög mikið af henni á þessum árstíma, ég mynda að vísu mikið um helgar en það er þá oft fyrir önnur verkefni sem ganga fyrir.

En stundum tek ég nú samt myndir þar sem ég notast við lýsinguna í eldhúsinu og borðstofunni (aldrei flass) og það gerði ég til dæmis núna á dögunum þegar ég gerði falskan héra. Ég hef áður verið með uppskrift að slíkum rétti – töluvert öðruvísi þó – og skrifaði þá dálítið um þennan rétt og aðra áþekka og er ekkert að endurtaka það. Yfirleitt er þetta afar einföld matreiðsla, það er bara að búa til farsið, setja það í form, þekja með beikoni (oftast nær) og stinga í ofninn. Og svo bara sest maður og þarf ekki að gera meira, eins og bakaradrengurinn hefði sagt (nema hann var sjálfur héri svo að kannski hefði hann ekki verið með héra í ofninum).

Ég átti 500 g af lambahakki og notaði það, nema hvað? Það er hægt að nota aðrar tegundir af hakki en hér fannst mér lambahakkið passa sérlega vel. En ef það fæst ekki eða þið viljið ekki nota það er gott að nota blöndu af svína- og nautahakki.

IMG_3323

Ég kveikti á ofninum og stillti hann á 160°C. Svo tók e´g einn frekar lítinn blaðlauk (hvíta og ljósgræna hlutann), skar hann í bita og saxaði hann smátt í matvinnsluvél. Nú, eða með hníf ef slík græja er ekki til. Svo bætti ég við 1 tsk af salti, 1/2 tsk af pipar, 1 tsk af þurrkuðu timjani, 1 tsk af kóríanderdufti, 1/4 tsk af kanel, 1/4 tsk af engiferdufti og vænum hnífsoddi af cayennepipar. (Eða bara það krydd sem manni finnst góð hugmynd að nota þá stundina.)  Þeytti þessu létt saman við laukinn, ásamt svona 50 g af hafragrjónum – ég var með tröllhafra en það má nota venjulega – og hrærði að lokum einu eggi saman við.

IMG_3325

Svo setti ég 500 g af lambahakki út í og hrærði því saman við. Ekki láta vélina ganga of lengi svo að farsið verði ekki of fínt. Auðvitað má líka setja allt saman í skál og hræra með sleif eða höndunum.  Ef maður er ekki viss með kryddunina má búa til litla bollu eða buff, steikja á lítilli pönnu og smakka.

IMG_3326

Ég tók svo jólakökuform, ekki mjög stórt, smurði það og setti farsið í það. Tók svo svona 200 g af beikoni (helst þykkt skornu en það er þó ekki skylda) …

IMG_3329

… raðaði sneiðunum ofan á hérann og notaði tréspaða til að stinga endunum niður með hliðunum og rúnna hérann dálítið í leiðinni. Svo stakk ég forminu í ofninn og lét það vera þar í svona 50 mínútur.

IMG_3332

Og þá var hérinn tilbúinn. Ef maður vill hafa beikonið aðeins stökkara má hækka hitann síðustu 10 mínúturnar eða svo. Ég bar hann fram heilan í forminu af því að það er úr leir og fer vel á borði en það má líka lyfta honum upp og setja á fat. Eða skera hann í sneiðar og bera fram þannig.

IMG_3346

Ég hafði kartöflustöppu með þessu og líka grænt salat með pekanhnetum og fetaosti. Sonur minn, sem var í mat, tilkynnti að svoleiðis pjatt væri óþarfi, það þyrfti ekkert annað með alminlegum meatloaf en góða kartöflustöppu. Og það er nú kannski rétt hjá honum en mér finnst samt betra að hafa salat.

IMG_3348

Þetta var bara alveg ágætt.

IMG_3362.jpg

Og hann er ágætur kaldur líka.

*

Lambahéri

500 g lambahakk (eða annað hakk, t.d. blanda af nauta- og svínahakki)

1 lítill blaðlaukur (hvíti og ljósgræni hlutinn)

1 tsk salt

1/2 tsk pipar

1 tsk timjan

1 tsk kóríanderduft

1/4 tsk kanell

1/4 tsk engiferduft

cayennepipar á hnífsoddi, eða eftir smekk

50 g hafragrjón

1 egg

smjör til að smyrja formið

200 g beikon, gjarna þykkt skorið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s