Ég er að hlusta á kosningaumræður með öðru eyranu en samt aðallega að liggja á meltunni eftir góðan kvöldverð og láta mér líða ósköp vel … Ég var með fjölskylduna í mat og bauð þeim upp á steikt andalæri með kartöflugratíni, linsubaunum, steiktum sveppum og salati, sem var barasta alveg ljómandi gott allt saman. Ég gæti svosem sett uppskriftir að þessu öllu saman hér en ætla nú að láta kartöflugratínið nægja í þetta sinn.
Ég veit ekki hvernig á því stendur en hjá mér koma kartöflugratínstímabil og önnur sem eru bara alveg kartöflugratínlaus. Og ég er eiginlega búin að vera á slíku tímabili nokkuð lengi, það rann upp fyrir mér í dag þegar ég var velta fyrir mér hvað ég ætti að hafa með andalærunum, að ég hef ekki gert kartöflugratín í óratíma og ég ákvað að bæta úr því snarlega, enda átti ég það sem til þurfti.
Kartöflugratín eru misholl eins og gengur og gerist og þetta er vissulega ekki í hollari kantinum. Rjómi og ostur … En gott er það.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C. Svo tók ég 1 kg af bökunarkartöflum og skar þær í sneiðar. Ég var ekkert að flysja þær, finnst þess sjaldnast þurfa, en auðvitað má gera það – ég skar bara af þeim bláendana og notaði það ekki. Ég hafði sneiðarnar 2-3 mm þykkar; ef ég hefði viljað hafa þær þynnri eða ef kartöflumagnið hefði verið meira hefði ég kannski notað mandólínið mitt til að skera þær niður en mér fannst ekki taka því og notaði bara vel beittan hníf.
Svo tók ég 100 g af pecorino-osti (má líka vera parmesan) og reif hann fínt niður.
Ég setti svona tvo þriðju af ostinum í skál ásamt 500 ml af rjóma, 1 stórum vorlauk, sem ég var búin að saxa, 2 smátt söxuðum hvítlauksgeirum, 1/2 tsk af pipar og 3/4 tsk af salti. Hrærði þetta saman.
Svo tók ég eldfast mót (eða reyndar steypujárnspott), smurði það innan með smjörklípu og raðaði þriðjunginum af kartöflunum á botninn. Hellti 1/3 af rjómablöndunni yfir, svo kom annað lag af kartöflum, meiri rjómablanda …
… og svo afgangurinn af kartöflunum og rjómablandinu.
Svo stráði ég afganginum af pecorino-ostinum yfir, setti lok á formið (það má líka bara breiða álpappír yfir), setti þetta í ofninn og lét standa óhreyft í klukkutíma.
Þá tók ég formið út, fjarlægði lokið, hækkaði hitann í 225°C, setti formið aftur í ofninn og bakaði í um 25 mínútur í viðbót.
Og þá var þetta bara tilbúið og bragðaðist alveg ljómandi vel.
*
Kartöflugratín með pecorino
1 kg bökunarkartöflur
100 g pecorino- eða parmesanostur
500 ml rjómi
1-2 vorlaukar
2 hvítlauksgeirar
1/2 tsk hvítur pipar
3/4 tsk salt
smjör til að smyrja formið