Áfram með smjörið – nei, hakkið var það víst. Því að ég er svo ánægð með að ófrosið lambahakk skuli núna vera auðfengið og ég vil endilega að það verði framhald á því og þá vantar kannski uppskriftir og hugmyndir. Ég held nefnilega að það sé töluvert til í því sem maður hefur heyrt hjá sumum framleiðendum og verslunum að lambahakk hafi meðal annars horfið úr sölu vegna þess að það seldist ekki nóg. Og það gæti þá verið vegna þess að fólk gerði sér ekki grein fyrir möguleikunum, áttaði sig ekki á því hvað lambahakk hentar í marga og ólíka rétti.
En í millitíðinni hefur ýmislegt breyst og eitt af því er að við erum farin að líta miklu víðar eftir áhrifum og straumum í matargerð, þar á meðal til Norður-Afríku, Miðausturlanda, Tyrklands, Grikklands … Þetta eru allt svæði þar sem löng og mikil hefð er fyrir lamba- og kindakjöti (og geitakjöti) og hagnýtingu þess, miklu fremur en í flestum löndum Norður-Evrópu, og þarna má finna svo margar skemmtilegar uppskriftir og hugmyndir til að leika sér með.
Þetta gildir meðal annars um uppskrift dagsins. Ég kom við í Nóatúni í gær – þar er nefnilega kjötborð – og keypti meðal annars 400 g af lambahakki. Reyndar sá ég ekki fyrr en ég var búin að kaupa það að þarna var líka hægt að fá hakk úr lambaþindum, sem kostaði næstum ekki neitt – ég hefði kannski keypt það ef ég hefði ekki verið komin með hitt í körfuna. En vonandi verður það til næst þegar ég kem í Nóatún.
Já, og svo ætla ég annars að hrósa Nóatúni sérstaklega fyrir umhverfisvænleika. Hakkinu var nefnilega pakkað inn í pappír, ekkert plast.
Ég hafði ekkert sérstakt í huga þegar ég keypti hakkið en í strætó á leiðinni heim fór ég að hugleiða hvað ég ætlaði að gera úr því og fékk ýmsar hugmyndir en þegar ég renndi í huganum yfir það sem ég mundi eftir að eiga í ísskápnum staðnæmdist ég þegar ég kom að halloumi-ostinum. Auðvitað!
En ég byrjaði á, þegar heim var komið, að taka dálítið timjan úr gluggakistunni (plantan er dálítið farin að slappast en timjanið í fínu lagi samt) ásamt tveimur hvítlauksgeirum og saxa hvort tveggja smátt.
Svo setti ég það í skál ásamt 1 tsk af þurrkuðu óreganói, 1/2 tsk af nýmöluðum pipar og 1/2 tsk af salti. Eða eftir smekk. Síðan blandaði ég hakkinu vel saman við með höndunum.
Ég skipti hakkinu svo í 3 álíka stóra bita (ef ég hefði verið að elda fyrir tvo hefði ég haft þá 4 en þetta var fyrir mig og í nesti á morgun) og mótaði hvern um sig í svona 2 cm þykkt, kringlótt buff. Gerði svo dálitla laut í miðjuna á hverju buffi – það er til að þau bungi síður út um miðjuna við steikinguna og í þessu tilviki vildi ég hafa þau flöt.
Ég tók svo halloumi-ost úr ísskápnum – þessi fékkst í Costco en aðrar tegundir fást annars staðar. Halloumi er frá Kýpur og hefur þann kost að það er hægt að steikja hann eða grilla án þess að hann bráðni (eða auðvitað gerir hann það samt á endanum en hann þolir þetta allavega mun betur en aðrir ostar). Ég skar af honum 6 sneiðar, svona 6-7 mm hverja.
Ég átti líka kúrbít, bæði grænan og gulan (grænn dugir) og skar nokkrar sneiðar af hvorum, svona 1 cm þykkar.
Ég tók svo grillpönnu, penslaði hana með olíu og hitaði hana vel. Það má nota venjulega pönnu en grillpannan er samt mun betri í þetta. Já, og svo mætti nota útigrill og það viðraði svosem alveg til þess áðan en gaskúturinn á mínu er tómur …
Ég setti buffin á pönnuna og raðaði kúrbítssneiðum í kring (eða á milli). Grillsteikti þetta svo við góðan hita í um 4 mínútur.
Þá sneri ég buffunum og kúrbítnum og steikti í um 4 mínútur í viðbót. Tók kúrbítssneiðarnar af pönnunni jafnóðum og mér þóttu þær hæfilega steiktar og setti halloumi-sneiðar í staðinn; það er hæfilegt að steikja þær í svona 1 1/2–2 mínútur á hvorri hlið og fylgjast með þeim svo að þær bráðni ekki of mikið.
Á meðan gerði ég tzatziki-sósu – svona 150 ml af grískri jógúrt, 8 cm biti af gúrku, grófrifinni, 1-2 msk saxað mintulauf, 1/2 hvítlauksgeiri, pressaður, 2 msk ólífuolía, pipar og salt. Hrært vel saman.
Þegar buffin voru steikt í gegn og halloumi-sneiðarnar fallega gullinbrúnar og mjúkar setti ég tvær sneiðar ofan á hvert buff og bar þær fram með kúrbítnum, spínati og tzatziki.
Þar sem buffin voru stór fannst mér ekki þurfa annað grænmeti með en soðnar kartöflur hefðu annars verið fínar.
Grísk lambabuff með halloumi
400 g lambahakk
1 msk ferskt timjan, saxað, eða 1 tsk þurrkað
2 hvítlauksgeirar
1 tsk óreganó, þurrkað
1/2 tsk nýmalaður pipar
1/2 tsk salt
olía til að pensla pönnuna
um 175 g halloumi-ostur
1/2 grænn og 1/2 gulur kúrbítur (eða 1 grænn)
*
Tzatziki
150 ml grísk jógúrt
8-10 cm biti af gúrku
1-2 msk mintulauf, saxað
1/2 hvítlauksgeiri
2 msk ólífuolía
pipar og salt
[…] mér köfte og hugsanlega kebab og í kvöld verður eldað upp úr blogginu hennar Nönnu – hakk og halloumi. Svo langar mig í eitthvað langeldað marokkóskt. Við erum bara tveir í kotinu, feðgarnir, en […]