Sætsúr sítrónubaka

Er ekki kominn tími á eitthvert sætmeti? Kökur og kruðerí alltsvo. Ég er reyndar ekki að útbúa neitt slíkt um þessar mundir (en það fer að líða að því, ég þarf að fara að undirbúa einhverja jólaþætti hvað úr hverju) en ég á nú ýmislegt á lager, þar á meðal kökur og ábætisrétti … Svo að þótt ég hafi eldað mér afbragðsgóða grillaða lambalifur í kvöldmatinn ætla ég að hlífa ykkur við uppskrift að henni í bili, öllu má nú ofgera.

Þannig að það er sætmeti. Eða eiginlega súr-sætmeti því að sítrónubökur eru jú bæði súrar og sætar. Þessi er frískleg og einföld, því að ég notaði smjördeig. Yfirleitt er notað bökudeig en mér finnst smjördeigsbotn góður líka og þá er deigið næstum tilbúið, sem gerir bökuna enn einfaldari.

Ég gerði hana upphaflega fyrir MAN og uppskriftin birtist þar fyrir tæpu ári. En hér er hún semsagt:

_MG_9268

Ég var með pakka af ófrosnu, upprúlluðu smjördeigi sem stundum er hægt að fá en það má líka nota frosnar smjördeigsplötur úr pakka. Deigplatan var reyndar rétthyrnd og passaði ekki alveg í mótið en ég skar annan endann af og lagði svo deigið yfir bökumót. Það náði ekki alveg yfir mótið svo að ég tók endann sem ég skar af, lagði hann yfir þar sem vantaði og þrýsti brúnunum saman með fingurgómunum. Snyrti svo brúnirnar svo að þær stæðu ekki út fyrir formið.

Ef maður er með frosið deig er byrjað á að láta það þiðna og svo eru plöturnar settar á vinnuborð, brúnunum klesst saman með fingurgómunum og deigið svo flatt fremur þunnt út.

Ég setti deigið svo í kæli og hitaði ofninn í 190°C.

_MG_9269

Ég tók svo formið með deiginu út, lagði bökunarpappírsörk yfir, setti farg ofan á til að bökuskelin héldi lögun í ofninum  (ég á sérstaklar leirkúlur til þeirra nota en það má nota t.d. þurrkaðar baunir eða hrísgrjón) og bakaði þetta í um 15 mínútur. Þá tók ég formið út, fjarlægði pappírinn með farginu og bakaðu skelina í um 5 mínútur í viðbót. Þá tók ég hana út (þrýsta botninum niður ef hann hefur blásið út) og lækkaði ofnhitann í 170°C.

 

_MG_9267

 

Á meðan bökuskelin var í ofninum tók ég tvær sítrónur og reif gula börkinn af þeim fínt í skál. Best er að sem minnst af hvíta berkinum fylgi með. Setti skálina til hliðar.

_MG_9274

Svo pressaði ég 200 ml af safa úr sítrónunum, setti safann í pott ásamt 100 g af sykri og 150 g af smjöri og hitaði þetta þar til smjörið er bráðið og sykurinn uppleystur.

_MG_9281

Svo tók ég 3 heil egg og 4 eggjarauður, setti allt saman í skál og þeytti létt. Svo þeytti ég heitri safa-/smjörblöndunni smátt og smátt saman við.

_MG_9286

Ég hellti svo blöndunni aftur í pottinn, hafði hitann mjög vægan og hrærði stöðugt þar til blandan þykknar. Það tekur aðeins örfáar mínútur en hún má alls ekki sjóða. Hún er mátulega þykk þegar maður getur dýft sleif í hana og strokið svo fingrinum eftir sleifarbakinu og farið eftir fingurinn rennur ekki strax saman, eins og sést hér á myndinni.

_MG_9293

Muniði eftir skálinni með rifna sítrónuberkinum? Nú setti ég sigti yfir hana og hellti eggjablöndunni í gegnum það. Blandaði berkinum saman við með sleikju …

_MG_9298

… og hellti þessu í bökuskelina og bakaði í 7-10 mínútur, þar til fyllingin var farin að stífna.

_MG_9356

Þá tók ég bökuna út og lét hana kólna alveg á grind.

Sítrónubaka1

Svo losaði ég hana úr forminu og setti á fat, grófsaxðaði slatta af pistasíuhnetum og stráði yfir.  Það má líka skreyta með berjum.

Sítrónubaka4

 

Sítrónubaka með pistasíum

Fyrir 8

1 pakki/rúlla af smjördeigi

börkur af 2 sítrónum

200 ml nýkreistur sítrónusafi

150 g smjör

100 g sykur

3 egg

4 eggjarauður

40 g pistasíuhnetur

e.t.v. ber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s