Hjörtum lambanna svipar saman …

Frændi minn ágætur kom við hjá mér um helgina og færði mér matreiðslubók frá Georgíu, en hann er nýkominn þaðan. Það gladdi mitt safnarahjarta töluvert og mér hefur alltaf þótt það góður siður hjá fólki sem á leið til fjarlægra landa að færa mér matreiðslubækur … Ég átti reyndar eina matreiðslubók frá Georgíu fyrir en hún er gefin út í Bandaríkjunum og uppskriftirnar gerðar fyrir Bandaríkjamenn og kannski ekki eins „ekta“, að minnsta kosti töluvert fágaðri en þessi, sem er miklu skemmtilegri. Þetta eru einfaldar uppskriftir, bragðmikil hráefni sem er ekki mikið verið að dúlla við – ekta sveitamatur. Sumt gæti að vísu verið erfitt að finna hér, til dæmis styrju eða feita rolludindla, en flest má nú fá.

Ég er býsna áhugasöm um matargerð Kákasuslanda, ekki síst eftir mikla armensk-tyrkneska veislu sem ég sat í Oxford í sumar, og það er ýmislegt í þessari bók sem ég á eftir að prófa – sumt kannki eins og það er í bókinni, annað með tilbrigðum eða ég nota það sem hugmyndir til að spinna út frá. Og kvöldmaturinn var einmitt í þeim dúr. Ég átti þrjú lambahjörtu – hafði eiginlega ætlað að snöggsteikja þau en datt svo í hug að styðjast við uppskrift úr bókinni.

Þetta er eitthvað sem heitir Qawurma – lambahjörtu og lifur, laukur, óreganó, kóríander og chili. Og nefnt að það sé nú ekki verra að skella dálitlu hvítvíni út í svo að ég gerði það nú. Hins vegar sleppti ég lifrinni og notaði bara hjörtu og bætti svo við kirsiberjatómötum sem ég átti.

IMG_2106

En ég byrjaði á að taka þrjú lambahjörtu, sem ég hafði keypt um helgina fyrir næstum því ekki neitt, skola þau og þerra og skera svo sneið ofan af þeim og fjarlægja mestalla fituna. Svo skar ég þau í tvennt og síðan í ræmur og aftur í bita, svona 1 1/2-2 cm á kant.

IMG_2109

Ég hitaði svo 2 1/2 msk af olíu á pönnu (eða í þykkbotna potti), setti hjörtun á hana, kryddaði með salti og grófmöluðum pipar og brúnaði þau í nokkrar mínútur við góðan hita. Hrærði oft á meðan.

IMG_2111

Á meðan skar ég niður tvo lauka og setti þá svo á pönnuna ásamt 1 1/2 tsk af óreganói. Lækkaði hitann dálítið og lét laukinn krauma í nokkrar mínútur.

IMG_2112

Svo skar ég eitt chilialdin smátt og bætti því á pönnuna. Það má nota minna eða jafnvel sleppa því alveg en þá er betra að bæta við meiri pipar. Ég lét þetta krauma áfram þar til laukurinn var mjúkur og hrærði oft.

IMG_2115

Svo saxaði ég hálft knippi af kóríander og setti á pönnuna og hellti svo 200 ml af þurru hvítvíni og 100 ml af vatni yfir. Setti svo lok á pönnuna (hún er ekki með loki en ég notaði bara lok af potti) og lét þetta malla á vægum hita í svona 20 mínútur, eða þar til hjörtun voru meyr. Ef uppgufun er mikil má bæta við svolitlu vatni.

IMG_2120

Fram að þessu var þetta meira og minna gert eftir georgísku uppskriftinni en nú bætti ég svona 150 g af kirsiberjatómötum á pönnuna (marglitir eru flottir en þeir mega vera einlitir og það má líka bara nota niðurskorna venjulega tómata). Og af því að ég átti grænu blöðin af nokkrum vorlaukum, sem höfðu gengið af hjá mér um helgina, saxaði ég þau og setti út á líka. En því má alveg sleppa. Lét þetta malla í nokkrar mínútur.

IMG_2121

Ég smakkaði svo soðið, bætti við ögn af pipar og salti, tók pönnuna af hitanum og stráði meiri kóríanderlaufi yfir.

IMG_2151.jpg

Og svo bar ég þetta fram með kartöflustöppu, sem er nú líklega ekki mjög georgískt.

En þetta var alveg ágætt. Takk, Maggi!

*

Georgísk hjörtu

3-4 lambahjörtu

2 1/2 msk olía

pipar

salt

2 laukar

1 1/2 tsk óreganó

3/4 knippi kóríanderlauf

1 chilialdin, eða eftir smekk

300 ml vatn, eða 200 ml hvítvín og 100 ml vatn

150 g kirsiberjatómatar

e.t.v. vorlaukur

2 comments

  1. Þetta er frábær uppskrift. Átti ekki koriander og notaði rósmarín og 2 hvítlauksrif í staðinn. Það sem gerði svo útslagið var döðluchutney frá Dóru í Culina með kanil, negul, karfi ömmum, kóríander o.sfrv. Stefni á að setja það í sósuna næst! Þannig verður þetta svolítið meira marokkóskt en georgískt – með viðkomu á Ítalíu!

    • Hljómar vel. Mig rámar einmitt í að hafa einhverntíma eldað norðurafríska útgáfu af hjörtum með marokkóskri kryddblöndu og – ja, sennilega apríkósum frekar en döðlum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s