Það er víst kominn október og haustið skollið á; trjágróðurinn óðum að breyta um lit og mikið óskaplega var fallegt að aka um Borgarfjörðinn þegar við vorum að koma að norðan í gær; öll litbrigði haustsins og glóandi rautt sólarlag. Og úti á svölunum er ég að byrja að undirbúa veturinn, búin að taka rósmarínið og lárviðinn inn, aðrar kryddjurtir fá að standa áfram; sumar munu lifa veturinn af, aðrar ekki. Það eru svei mér þá enn að koma ber á jarðarberjaplönturnar en salatjurtirnar eru farnar að láta á sjá og ég var núna um helgina að hirða mestallt sem enn var nýtilegt af þeim.
Kvöldmaturinn bar líka svolítinn keim af því, fjölskyldan kom í mat og ég var með alls konar samtíning – nokkrar lambakótelettur, laxasúpu, kartöflustöppu, sellerísúpu úr sellerílaufinu sem ég var að rækta, steikt salat úr beðju- og rauðrófulaufi og tómötum (ég ætlaði að nota stönglana af beðjunni líka en þeir voru of trénaðir) og svo ristaði ég kryddaðar kjúklingabaunir og setti þær í salat með kirsiberjatómötum – sumum heimaræktuðum – og basilíku úr eldhúsglugganum. Og hér er uppskrift að ristuðu kjúklingabaununum, sem má auðvitað ekki síður nota einar sér (reyndar hvarf góður slatti af þeim á dularfullan hátt á meðan þær voru að kólna og komst aldrei í salatið).
En allavega, ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C og opna tvær dósir af kjúklingabaunum, hella þeim í sigti og láta renna af þeim.
Svo blandaði ég saman í skál 4 msk af ólífuolíu, 1 tsk af paprikudufti, 1 tsk af óreganói, 1/2 tsk af túrmeriki, cayennepipar á hnífsoddi, 1/2 tsk af salti og 1/2 tsk af pipar.
Hvolfdi baununum úr sigtinu út í og blandaði vel.
Svo setti ég bökunarpappírsörk á plötu (eða í ofnskúffu), hellti baununum á hana og dreifði vel úr þeim svo að þær væru bara í einföldu lagi. Setti plötuna í ofninn og bakaði baunirnar í 35-40 mínútur, eða þar til þær voru byrjaðar að verða stökkar. Hrærði einu sinni eða tvisvar í þeim á bökunartímanum.
Svo tók ég baunirnar út og lét þær kólna á plötunni. Síðan má bara hella þeim í skál og nota þær sem nart.
En ég blandaði þeim saman við kirsiberjatómata (léttsteikta í svolítilli ólífuolíu) og grófsaxaða basilíku og bar fram með lambakótelettum
*
Kryddristaðar kjúklingabaunir
2 dósir kjúklingabaunir
4 msk ólífuolía
1 tsk paprikuduft
1 tsk óreganó
1/2 tsk túrmerik
cayennepipar á hnífsoddi
1/2 tsk pipar
1/2 tsk salt
200°C, 35-40 mínútur.