Þegar ég er ein í mat …

Ég var í búð áðan að velta fyrir mér hvað ég ætti að hafa í matinn; eins og margsinnis hefur komið fram ér ég ekki sú manngerð sem fer í búð með matseðil næstu viku í vasanum og kaupi inn allt sem þarf. Ég kaupi frekar í kvöldmatinn og ákveð svo hvað ég ætla að elda. Í búðinni, í strætó á heimleiðinni eða bara þegar ég byrja að elda. Ekki alltaf, auðvitað, það kemur fyrir að ég er aðeins skipulagðari. En það er mér samt ekki eiginlegt. Í þetta skipti var samt á hreinu að það yrði eitthvað með sveppum því ég átti sveppi sem lágu undir skemmdum.

Allavega, ég var þarna í Hagkaup í Skeifunni  og þar var áletrun á gólfinu: „Boðið meiri fisk“ og ör sem benti á þann (litla) hluta kæliborðsins þar sem fisk er að finna og mér fannst þetta góð hugmynd og fór þangað. En þar var einn bakki með nokkrum ýsubitum og tveir eða þrír með laxi. Og einhverjir með hálftilbúnum fiskréttum eða einhverju slíku. En mér fannst þetta ekkert voða freistandi svo að ég ákvað að fresta fiskinum og fara frekar í fiskbúð á morgun og kaupa eitthvað alminlegt. En svo sá ég að skammt frá fiskinum voru pakkar með lambalifur, ófrosinni. Það er jú sláturtíð.  Og allt í einu langaði mig svo í lifur.

Það sem meira er, ég var ein í mat svo ég gat haft lifur. Og meiraðsegja sveppi líka. Ég á nefnilega fjölskyldu sem er að stórum hluta lifrar- og sveppahatarar. Svo að ég keypti lifrina. Hálft kíló á 200 krónur. Maður fær nú ekki mikið ódýrari mat.

Mér þykir nefnilega lifur býna góð en ég veit að hún er ekki allra. Lambalifur er afbragð en reyndar þykir mér kálfalifur enn betri; hana fæ ég þó aðallega á veitingahúsum í útlöndum. Ég man þegar mér var einu sinni boðið í bissniss-hádegisverð á veitingahúsi í City í London; ég sá grillaða kálfalifur á matseðlinum og pantaði hana samstundis. Þegar hún kom og ég kastaði mér yfir hana af áfergju sá ég að maðurinn sem hafði boðið mér í mat var eitthvað skrítinn á svipinn og hafði litla lyst á sínum mat; það var ekki fyrr en ég var búin að háma í mig hverja örðu af lifrinni sem ég komst að þvi að hann var nýkominn úr ferð til einhverra fjarlægra landa þar sem hann hafði fengið slæma magakveisu sem hann var rétt að jafna sig á og leið víst ekkert vel að horfa á mig gúffa í mig blóðuga lifrina. (Ég hafði ekkert samviskubit, lifrin var býsna góð.)

IMG_1985

Ég byrjaði á að hreinsa lifrina og skera hana á ská í þunnar sneiðar (svona 1 cm, helst ekki meira).

Svo skar ég tvo litla rauðlauka (eða einn stærri) í tvennt og svo í sneiðar. Hitaði 1 msk af olíu á pönnu og lét laukinn krauma við meðalhita þar til hann var að byrja aðeins að brúnast. Hrærði oft í á meðan.

IMG_1981

Ég var búin að skera sveppina í sneiðar, þetta voru sirka 200 grömm, og bætti þeim á pönnuna, ásamt 1 msk af smjöri og dálitlu timjani, pipar og salti. Lét þetta krauma áfram þar til sveppirnir voru farnir að brúnast og allt orðið mjúkt og hrærði oft í.

IMG_1988

Ég hellti svo 1 msk af worchestersósu og 2-3 msk af vatni á pönnuna með sveppunum og lét malla rólega á meðan ég steikti lifrina.

Ég blandaði svo 3 sléttfullum matskeiðum af heilhveiti, 1 tsk af paprikudufti, 1/2 tsk af timjani, pipar og salti saman á diski. Ásamt svolitlum cayennepipar – það má sleppa honum eða nota aðeins meira en svolítið, það er gott líka. Svo setti ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á aðra pönnu og hitaði.

IMG_1996

Svo velti ég lifrarsneiðunum upp úr hveitiblöndunni og setti þær á pönnuna. Steikti þær við góðan hita í 1 1/2-2 mínútur á hvorri hlið. Svo tók ég þær af pönnunni og setti á disk og hellti dálítilli skvettu af hvítvíni (nú, eða vatni) á pönnuna og lét sjóða aðeins niður. Svona sem sósu.

IMG_2008

Bar þetta svo fram með sveppa-rauðlauksblöndunni og salati og jós svolitlu af soðinu yfir.

Ekki slæmt. Það er að segja ef maður kann að meta lifur.

*

Lambalifur með sveppum og rauðlauk

500 g lambalifur

3 msk heilhveiti

1 tsk paprikuduft

1/2 tsk timjan

cayennepipar á hnífsoddi

pipar

salt

1 msk olía

1 msk smjör

3-4 msk hvítvín eða vatn

 

Steiktir sveppir og rauðlaukur

2 litlir rauðlaukar eða 1 stærri

1 msk olía

200-250 g sveppir

1/2 tsk þurrkað timjan

pipar

salt

1 msk smjör

1 msk worchestersósa

2-3 msk vatn

 

 

2 comments

  1. Til hamingju með nýju bókina hún er dásamleg! Hvenær kemur bókin um innmat, nýru, lifur, hjörtu, lappir, maga, tungur og allt hitt! just saying;)

  2. Steypijárnsbókin er dúnduræði!

    Fleiri doðranta frá Nönnu…ég hef reyndar oftast jafngaman af textanum og uppskriftinni. Frekar en að skrifa bók um innmat (myndi samt alveg kaupa hana) þá væri ég til í ævisögu þína sem matgæðings. Hvaða matur segir ævisögu þína, en þetts er kannski alltof ,,prívat“ bón….

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s