Notalegheit á haustdegi

Ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þetta – kannski falskan héra en það situr dálítið fast í mér að heimatilbúinn falskur héri sé vafinn í beikon, eða allavega að beikonsneiðar séu lagðar yfir hann, og hér er ekkert beikon. Enska heitið er meatloaf svo að kannski ég kalli þetta bara kjöthleif. Lambakjötshleif, auðvitað. Ekki bara vegna þess að ég er að elda úr lambakjöti þessa dagana, heldur vegna þess að lambahakk hendar afskaplega vel í þennan rétt. Líklega hefði samt hentað best af öllu að hafa blöndu af lamba- og kálfahakki en ég átti ekkert kálfahakk.

Ástæðan til þess er að kálfahakk inniheldur svo mikið af bandvef – kollageni, sem sumir halda að sé hið versta mál en er það nú hreint ekki – og það heldur því betur í sér safa en annað hakk og fyrir vikið verður það sem gert er úr því síður þurrt. Hins vegar er kálfahakkið bragðlítið og þar kemur að hlutverki lambahakksins. Hakkið á heldur ekki að vera mjög magurt, þá verður það sem gert er úr því líka þurrt, og lambahakk sem er allt að 15% feitt er best í allt svona.

En ég var semsagt bara með lambahakk og það er nú í góðu lagi. Kjöthleifur á að vera meyr og mjúkur og safaríkur, ekki þéttur og þurr en þó ekki þannig að hann molni allur í sundur og vonlaust sé að skera hann í sneiðar. Þessi hér var kannski ekki alveg nógu þéttur, ég hefði kannski átt að setja nokkrar matskeiðar af brauðmylsnu saman við svo að auðveldara væri að skera hann, en sneiðarnar héldust samt alveg saman.

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C.

IMG_1947

Ég byrjaði á að opna litla dós af tómatkrafti (paste) og setja tvær vel kúfaðar matskeiðar í skál. Svo tók ég þrjá eða fjóra vorlauka, skar efsta hlutann af grænu blöðunum af og geymdi en saxaði hitt smátt og setti í skálina. Bætti svo við 1 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1 tsk af papriku, 1/2 tsk af kanel, 1/2 tsk af pipar og 1 tsk af salti. Ég blandaði þessu saman og hrærði svo einu eggi saman við.

Svo setti ég 600 g af lambahakki út í, ásamt 3 msk af grófsöxuðum pistasíuhnetum. Það má alveg sleppa hnetunum eða nota einhverjar aðrar hnetur. Eða eitthvað allt annað, t.d. sólþurrkaða tómata, smátt saxað beikon eða það sem manni dettur í hug …

IMG_1952

Ég blandaði tómat-krydd-eggjablöndunni vel saman við hakkið (best að gera það bara með höndunum) og grófsaxaði svo það sem eftir var af vorlauksblöðunum og blandaði saman við. Það má alveg setja allan vorlaukinn saman við strax í upphafi ef maður vill síður hafa stóra vorlauksbita.

IMG_1956

Svo smurði ég form með smjöri – þetta er reyndar patéform úr steypujárni en það má nota lítið jólakökuform. Og svo má líka klæða ofnskúffu með bökunarpappír, móta hakkblönduna í aflangt brauð og baka það án forms. Þó er best að setja það ekki á slétta bökunarplötu því líklega rennur dálítið af fitu og safa úr hleifnum á meðan hann bakast og maður vill ekki að það leki núr á botninn á ofninum.

Ég bakaði hleifinn í um 35 mínútur. Þá tók ég hann út, hækkaði ofnhitann í 220°C, losaði hleifinn gætilega úr forminu (ef hann er í formi), sneri honum við, þannig að botninn sneri upp, setti hann á bökunarplötu og aftur í ofninn í um 10 mínútur til að hann brúnaðist. Það má líka setja hann aftur í formið (á hvolfi) en þá er best að hella öllum vökva úr því fyrst.

Vökvann úr forminu má nota í sósu, fleyta þá e.t.v. fitu ofan af, bæta við dálitlu vatni og lambakrafti, sjóða smástund og þykkja með sósujafnara. En það er líka hægt að hafa t.d. kalda kryddjurta-jógúrtsósu með hleifnum, eða einhverja aðra sósu.

IMG_1970

Ég var búin að búa til kartöflustöppu sem ég dreifði á fat. Svo tók ég kjöthleifinn og setti á bretti, skar hann gætilega í nokkrar þykkar sneiðar og lagði þær ofan á stöppuna og dreifði svo salatblöðum yfir. En auðvitað má líka bera kjöthleifinn fram heilan og hafa stöppuna og salatið bara til hliðar. Eða hafa bara soðnar kartöflur og grænmeti, eða eitthvert allt annað meðlæti, til dæmis kúskús, soðið bygg eða hrísgrjón. (Athugið að myndirnar sýna ekki alveg réttan lit á kjötinu, það var ekki eins rauðbrúnt og það virðist.)

Við vorum sammála um það, ég og sonurinn að þetta væri sannur notalegheitamatur sem ætti sérlega vel við í svona veðri. Sonurinn fékk meira að segja að borða það sem eftir var beint af fatinu í lokin, eins og hann væri orðinn sjö ára aftur.

*

Lambakjötshleifur

600 g lambahakk

2 kúfaðar msk tómatkraftur (paste)

3-4 vorlaukar

1 tsk kummin

1 tsk kóríanderduft

1 tsk paprikuduft

1/2 tsk pipar

1 tsk salt

1 egg

3 msk grófsaxaðar pistasíuhnetur (má sleppa)

smjör til að smyrja formið

One comment

  1. Eldaði þennan á þriðjudaginn….. algjört lostæti 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s