Gulrætur og gljái

Lífið er nú ekki bara lambakjöt, það er til dæmis gulrótakökur líka og hér er uppskrift að einni slíkri. Enda ætti einmitt allt að vera fullt af gómsætum nýuppteknum gulrótum núna. Helst íslenskum, auðvitað, en það er svosem ekki skilyrði …

Ég gerði þessa köku fyrir MAN einhverntíma snemma í vor þegar ég var með rótargrænmetisþátt í blaðinu. Hún er alls ekki sykurlaus, langt frá því, svo að ég borðaði ekkert af henni sjálf en mér var sagt að hún væri góð og ég tók það bara alveg trúanlegt.

_MG_3355

Allavega, ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 170°C. Svo vigtaði ég 300 g af gulrótum (snyrtum og flysjuðum) og reif þær frekar fínt. Auðvitað er hægt að gera það bara á rifjárni en þegar magnið er þetta mikið er ég vön að nota matvinnsluvélina mína.

Svo vigtaði ég 325 g af hveiti og blandaði saman við það 2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 2 tsk af kanel og 1 tsk af engiferdufti.

_MG_3359

Ég braut svo þrjú egg í hrærivélarskálina, bætti við 200 ml af matarolíu, 150 g af sykri og 2 tsk af vanilludropum og þeytti þetta saman. Hrærði svo hveitiblöndunni saman við.

Síðan blandaði ég rifnu gulrótunum saman við með sleikju.

_MG_3364

Svo setti ég deigið í smurt og pappírsklætt jólakökuform, meðalstórt, og bakaði kökuna neðst í ofni í um 1 klst., eða þar til prjónn sem stungið er í hana kom hreinn út.

_MG_3370

Ég lét kökuna hálfkólna á grind og losaði hana svo úr forminu og lét hana kólna alveg. Það má alveg borða kökuna svona, annaðhvort eins og hún er eða með smjöri.

En mig langaði að gera aðeins meira við hana og ákvað að útbúa sítrónugljáa. Svo að ég setti 150 g af flórsykri í skál, hrærði safa úr 1/2 sítrónu saman við og þynnti eftir þörfum með ögn af appelsínusafa (vildi ekki nota meiri sítrónusafa svo að gljáinn yrði ekki of súr). Þetta á að vera frekar þykkfljótandi, eða allavega ekki mjög þunnt. Svo setti ég kökuna á fat og dreypti gljánum yfir og lét hann leka niður eftir kökunni. Er það ekki einmitt svo trendí?

 

_MG_3626

*

Gulrótarkaka með sítrónugljáa

300 g gulrætur

3 egg

200 ml olía

150 g sykur

2 tsk vanilla

325 g hveiti

2 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

2 tsk kanell

1 tsk engiferduft

 Sítrónugljái

150 g flórsykur

safi úr 1/2 sítrónu

appelsínusafi eftir þörfum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s