Jæja, nú hef ég ekki eldað annað kjöt en lambakjöt í heilan mánuð og er búin að birta hér einar fimmtán uppskriftir (með þessari sem kemur hér á eftir) svo að ég hef gert mitt til að breyta lambakjötsfjallinu í þúfu … Á þessum tíma (án þess að ég ætli nú að halda því fram að það sé samhengi þar á milli) finnst mér framboð af lambakjöti í hentugum og aðlandi pakkningum hafa aukist töluvert. Vonandi er það ekki bara tímabundið. Og munið að þetta hangir saman; því meira sem framboðið er af kjöti sem hentar nútímaneytendum, þeim mun meira kaupa þeir – og því meira sem fólk kaupir af þessu tagi, þeim mun meiri líkur eru á að framboðið haldist gott.
En áður en lengra er haldið ætla ég að plögga svolítið. Fyrir nítján árum sendi ég frá mér fyrstu matarbókina mína, það var alfræðiritið Matarást. Sem var ekki hugsuð sem uppskriftabók þótt í henni væru fleiri uppskriftir en í nokkurri matreiðslubók sem áður hafði komið út. Henni var afskaplega vel tekið, hún (og þar með ég) fékk ýmsar viðurkenningar og verðlaun og hún seldist upp, var endurprentuð og seldist upp aftur. Síðan eru sirka tólf ár og hún hefur verið ófáanleg síðan og mikið spurt eftir henni. En nú er búið að endurprenta hana og hún kemur fljótlega í búðir. Bara svo þið vitið af því.
Þetta var plöggið, nú kemur uppskriftin. Lambakjöt alltsvo. Kannski síðasta uppskriftin í bili en sennilega samt ekki, ég er enn með kollinn fullan af hugmyndum.
Þetta er semsagt ein af nýju pakkningunum sem ég hef verið að prófa að undanförnu í þetta sinn mjaðmasteik, sem kallast sirloin steak á ensku og er oftar en ekki kölluð sirloinsteik í íslenskum verslunum, sem mér finnst nú óþarfi. Tveir bitar, samtals 260 grömm.
Ég tók bitana úr umbúðum, þerraði þá með eldhúspappír og kryddaði þá með salti, grófmöluðum pipar og grófsteyttum sinnepsfræjum (mustarðskornum). Í staðinn fyrir sinnepsfræin má líka nota t.d. meiri pipar.
Ég hitaði svo 1 msk af olíu á lítilli pönnu (steypujárn, nema hvað) og steikti kjötið í um 3 mínútur á annarri hliðinni.
Þá sneri ég kjötbitunum við og steikti þá álíka lengi á hinni hliðinni. Tók þá svo af pönnunni og lét þá bíða á bretti í nokkrar mínútur.
Á meðan skaust ég út á svalir og náði í salat, sem enn sprettur ágætlega þar – aðallega lambasalat en líka blaðbeðju og sellerílauf – en ef ég hefði ekki átt það hefði ég bara notað salatblöndu úr búð.
Svo var það sósan: ég setti kúfaða matskeið af pestói í bolla (krukkupestói þess vegna, en ég var reyndar með gulrótablaðapestó sem ég sagði frá hér um daginn) og bætti við 2 msk af ólífuolíu, fínrifnum berki af 1/2 sítrónu og ögn af sítrónusafa og hrærði þetta saman.
Svo tók ég kjötið og skar það niður í þunnar sneiðar. Síðan dreifði ég salatblöðunum á disk, raðaði kjötsneiðum ofan á og dreypti svolitlu af sósunni yfir.
Ég átti bæði bláber og hindber og dreifði svolitlu af þeim yfir en það mætti líka nota önnur ber eða niðurskorna ávexti, t.d. perur, ferskjur, kíví og fleira. Og svo setti ég rauðrófuspírur í miðjuna af því að ég átti þær til.
Og svo bar ég afganginn af sósunni fram með. Dugir vel handa mér í kvöldmatinn og í nesti á morgun; gæti dugað í nesti fyrir tvo með nógu af góðu brauði.
*
Lambakjötssalat með berjum
250-300 g meyrt lambakjöt
pipar
salt
1/4 tsk sinnepsfræ (má sleppa)
1 msk olía
væn lúka af salatblöðum
1 kúfuð msk pestó, heimagert eða keypt
2 msk ólífuolía
fínrifinn börkur af 1/2 sítrónu
svolítill sítrónusafi
ber, t.d. bláber og hindber, eða ávextir
rauðrófuspírur (má sleppa)