Sko, ég sagði að ég ætlaði ekki að elda neitt kjöt annað en lamba- eða kindakjöt í heilan mánuð (og töluvert af því) en það þýðir svosem ekki að ég eldi ekkert annað. Til dæmis er uppskerutími núna, allavega á svölunum hjá mér.
Ég hef aldrei, í öllum mínum búskap, haft góða aðstöðu til ræktunar og reyndar ekki haft sérlega mikinn áhuga heldur. Ég sé mig ekki fyrir mér að bogra við beð og reyta arfa og berjast við snigla og pöddur. Ég hef í mesta lagi myndast við að rækta kryddjurtir þegar ég hef verið með svalir sem henta til þess en þó aðallega í gluggakistum.
En fyrir rúmu ári flutti ég hingað í Fossvoginn og hér eru stórar og sólríkar suðursvalir. Ég talaði um það í fyrra að ég myndi nú kannski rækta einhverjar kryddjurtir í sumar en áður en ég vissi af var ég farin að rækta ansi margt fleira. Alls konar kryddjurtir, auðvitað, salat- og káljurtir, jarðarber, rabarbara, radísur, og svo setti ég meira að segja niður gulróta- og rauðrófufræ í vor, bara að gamni. Og viti menn, þetta spratt.
Gulræturnar voru dverggulrætur, ég sá á myndinni á pakkanum að þær yrðu litlar og hnubbóttar. Ég sáði þeim beint í 28 cm pott, nokkuð þétt, og ætlaði að grisja þær. En svo þegar laufið fór að spretta fannst mér það svo fallega grænt og skemmtilegt að ég tímdi ekki að grisja og einhvern veginn fórst það fyrir. Ég áttaði mig samt eiginlega ekki á að plönturnar væru svona margar …
En í dag fannst mér komið að uppskerutíma svo að ég tók pottinn og tók gulræturnar upp, eina af annarri.
Hmm, þær urðu einar sjötíu. Svolítið misstórar, en 500 g samtals. Og ótrúlega bragðgóðar.
Rauðrófurnar voru heldur færri og ég hafði líka grisjað þær – eða öllu heldur, ég færði nokkrar þeirra yfri í stóran pott en lét hinar vaxa áfram í pottinum þar sem ég sáði þeim upphaflega og hef verið að notað blöðin af þeim í allt sumar í salöt. En nú tók ég upp nokkrar af hinum – þær voru reyndar svipaðar að stærð og gulræturnar.
Ég þvoði og snyrti gulræturnar. Skar stilkana frá rétt ofan við gulrótina og aftur rétt neðan við laufin, henti stilkunum en geymdi laufin. Þau eru nefnilega vel æt, til dæmis í salöt, súpur og fleira (geta reyndar verið svolítið beisk, eða verða það með aldrinum, en þessi voru það ekki).
En ég ætlaði að útbúa pestó. Þetta voru 70 g af gulrótalaufi og ég setti það í matvinnsluvél ásamt 4-5 hvítlauksgeirum, 60 g af möndlum, safa úr hálfri sítrónu, pipar, salti ög örlitlum cayennepipar, og maukaði vel saman. Hellti svo 150 ml af ólífuolíu út í smátt og smátt og þeytti saman við.
Úr þessu varð ein krukka af fínasta pestói.
Ég hitaði svo ofninn í 200°C. Tók 150 g af gulrótunum og þessar örfáu rauðrófur sem ég hafði tekið upp, snyrti þær betur og skar þær stærri í tvennt (ein rauðrófan var reyndar það stór að ég skar hana í fjórðunga). Afganginn af gulrótunum setti ég í skál með ísköldu vatni og stakk í ísskápinn, þær ættu að haldast vel frískar næstu daga allavega.
Svo setti ég 2-3 msk af olíu og dálítið af pipar og salti í lítið, eldfast mót, setti grænmetið út i og hrærði vel, stakk mótinu í ofninn og bakaði grænmetið í um hálftíma, eða þar til það var vel meyrt. Hrærði í einu sinni eða tvisvar.
Á meðan sauð ég 150 g eða svo af pasta í saltvanti. Tók kúfaða matskeið af pestóinu og þynnti með 2-3 msk af olíu (reyndar notaði ég aðallega olíuna sem ég steikti grænmetið í). Hellti pastanu í sigti og hvolfdi því svo í skál og hrærði pestóinu saman við.
Svo hellti ég pastanu á disk og dreifði gulrótum og rauðrófum yfir. Skar svo smábita af pecorino romano (má vera parmesan eða einhver annar ostur) í flögur og dreifði yfir.
Þetta var alveg afbragð. Og ekki verra að hafa ræktað sumt af því sjálf hérna á svölunum. Og engin matarsóun fyrst ég nýtti gulrótalaufið (og rauðrófulaufið er í ísskápnum og verður sjálfsagt notað í eitthvað).
En auðvitað er líka hægt að nota gulrætur og rauðrófur úr búð (skornar smátt) – eða sleppa rauðrófunum – og eitthvert annað pestó.
Pasta með bökuðum dverggulrótum og rauðrófum og gulrótalaufspestói
(fyrir 2)
150 g litlar gulrætur
nokkrar pínulitlar rauðrófur (má sleppa)
2-3 msk olía
pipar
salt
150-200 g pasta, t.d. penne rigate
kúfuð matskeið pestó
2-3 msk olía (e.t.v. af grænmetinu)
pecorino romano eða annar ostur
*
Gulrótalaufspestó
70 g gulrótalauf (eða eftir því sem til er)
60 g möndlur
4-5 hvítlauksgeirar
safi úr 1/2 sítrónu, eða eftir smekk
pipar
salt
150 ml ólífuolía
[…] setti kúfaða matskeið af pestói í bolla (krukkupestói þess vegna, en ég var reyndar með gulrótablaðapestó sem ég sagði frá hér um daginn) og bætti við 2 msk af ólífuolíu, fínrifnum berki af 1/2 […]