Mér finnst svolítið skrítið að það virðist enginn vita hvers konar kjöt er í þessu lambakjötsfjalli (og eiginlega ekki hvað það er stórt heldur). Eru þetta læri? Frampartar? Skankar? Slög? Hausar og innmatur? Mér þætti til dæmis betra að vita það til að geta komið með uppskriftir að þeim hlutum fremur en öðrum.
Eitt þykist ég þó nokkuð viss um: að í blessuðu fjallinu, hve stórt eða smátt sem það kann að vera, sé töluvert af kjöti af fullorðnu. Sem er alveg ágætis kjöt, eða getur verið þar, og mun ódýrara en lambakjöt. Maður gengur þó ekki alltaf að því vísu hvorki ófrosnu né frosnu.
En ég var í Krónunni á Granda á dögunum að kaupa inn fyrir lambakjötsréttinn (auðvitað) sem ég gaf fólki að smakka í Eymundsson í Smáralind í dag í tilefni af útkomu nýju bókarinnar minnar, Pottur, panna og Nanna (já, þetta er plögg, ég má það nú) – ég bauð upp á marokkóskan lambapottrétt og reyndar líka papriku-tómatsúpu – og þá var þar til kindavöðvi á góðu verði. Kindasirloin, var það kallað. Ég hefði nú viljað sjá íslenskt heiti á þessu sosum. En 1499 krónur kílóið og selt í um 400 g bitum, það er nú alveg ágætt svo ég læt nafnið eiga sig.
Ég eldaði mér svona bita áðan (það var enginn afgangur af pottréttinum). Byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 120°C. Svo setti ég eldfast steypujárnsmót á helluna (en það má alveg eins nota pönnu eða pott eða bara eitthvað sem bæði getur farið á helluna og í ofninn) og hitaði það. Kryddaði kjötið með pipar, salti og timjani, hitaði 1 msk af olíu í mótinu, setti kjötið í það og brúnaði við góðan hita.
Svo sneri ég kjötinu við. Ég var búin að saxa einn vorlauk og flysja tvær litlar perur, skera i fjórðunga og kjarnhreinsa, og setti þetta á pönnuna í kring. Þegar kjötið hafði brúnast á hinni hliðinni hrærði ég í lauknum og perunum og setti þetta svo í ofninn.
Kjötið þarf aðeins lengri tíma en lambakjöt, 20-25 mínútur við 120°C, eftir því hvað bitinn er þykkur og hvað maður vill hafa það mikið steikt – en um að gera að steikja ekki of lengi, þá verður þetta þurrt og seigt. Gott er að hræra einu sinni eða tvisvar í perunum og lauknum.
Ég lét kjötið bíða í nokkrar mínútur og skar það svo í fremur þunnar sneiðar, þvert á vöðvaþræðina, og setti á disk ásamt perum, lauk og salati (klettasalat með bláberjum). Svo jós ég safanum úr fatinu yfir.
Þetta var alveg ágætt. Ekki eins meyrt og lambakjöt hefði verið en alls ekki seigt og nokkuð safaríkt. Það má hafa kartöflur og annað grænmeti með, ásamt perunum eða í staðinn fyrir þær. Og svo mætti hafa epli í staðinn fyrir perurnar.
Kindavöðvi með perum og rauðlauk
(fyrir 2)
400 g kindavöðvi (sirloin)
1/2 tsk þurrkað timjan
pipar
salt
1 msk olía
2 perur, litlar
1 rauðlaukur
klettasalat og bláber (eða annað salat)