Þykkar, safaríkar og bragðmiklar

Ekkert hakk núna (það kemur þó), enda skilst mér að Krónan fái lítið af því og það seljist upp um leið og það komi. Eða kannski er hakkavélin í kjötvinnslunni biluð. Eða kannski er bara ekkert lambakjötsfjall af því að það er búið að forkrydda allt kjötið og þarf bara að selja það sem grillkjöt. Hvað veit ég …

En þið fáið samt lambakjötsuppskrift, ég á sko lager. Nú eru það kótelettur. Eitt af því sem ég er búin að vera að tuða yfir árum eða líklega frekar áratugum saman (það mætti halda að ég væri hinn mesti tuðari en ég er það nú eiginlega ekki) er að hérlendis hafa þær verið sagaðar svo þunnt.

_MG_2189

Þessar hér, sem ég grillaði fyrr í sumar, voru um einn og hálfur sentimetri á þykkt og svona með þeim þykkari, sumar eru bara sentimetri. Þetta eru samt alveg þokkalegar kótelettur, sumar hverjar, en ég hefði gjarna viljað hafa meira samræmi – allar kóteletturnar í pakkanum svipaðar hvað varðar holdfyllingu, lund og annað. Þær eru það ólíkar að í raun henta þær ekkert endilega allar í sama réttinn.

Það eru alveg til uppskriftir þar sem hentar best að nota kótelettur sem eru bara eins til eins og hálfs sentimeters þykkar en yfirleitt er nú samt best að þær séu að minnsta kosti tveir sentimetrar á þykkt. Tveir og hálfur til þrír er enn betra. Líklega hafa kóteletturnar úr kjötborðinu í Nóatúni verið með þeim skástu að undanförnu hvað þetta varðar en þær eru þó misjafnar.

IMG_0304

Ég keypti þessari í Costco um daginn, þið sjáið muninn. Verðið var nokkurn veginn það sama, um 2500 krónur kílóið. Pakkinn úr Costco var ekki nema rétt rúmt kíló (óvenju lítið þar á bæ) og í honum voru 9 kótelettur, sem sagt rúmlega 100 g að meðaltali. Ég var ein í mat og steikti þrjár – tvær til að hafa í kvöldmatinn, eina í nestið daginn eftir.

En ég byrjaði á að taka þrjár eða fjórar kartöflur (nýuppteknar, frá Lómatjörn) og skera í litla teninga. Engin þörf á að afhýða þær. Ég skar líka niður vorlauk og tvær pínulitlar paprikur (eða hálfa stóra).

IMG_0180

Svo hitaði ég 2 msk af olíu á þykkbotna pönnu, setti kartöfluteningana á hana og lét þá krauma við nokkuð góðan hita í fáeinar mínútur og hrærði oft á meðan. Setti svo vorlaukinn og paprikurnar á pönnuna, kryddaði með pipar og salti, lækkaði hitann og lét krauma áfram þar til grænmetið var orðið meyrt. Hrærði öðru hverju.

IMG_0182

Á meðan hitaði ég grillpönnu vel. Það má líka nota venjulega, þykkbotna pönnu en grillpannan er samt betri hér ef maður á svoleiðis. Ég kryddaði svo kóteletturnar með nýmöluðum pipar, salti og dálitlu söxuðu rósmaríni (það má líka sleppa því, pipar og salt dugir alveg), setti þær á pönnnuna og steikti þær við góðan hita í 3-4 mínútur.

Þá sneri ég þeim við og steikti þær í 3-4 mínútur á hinni hliðinni. Dreypti svo dálitlu balsamediki yfir – kannski svona hálfri teskeið á hveja kótelettu …

IMG_0190

… sneri þeim strax við aftur, dreypti aðeins meira balsamediki á hina hliðina og tók þær svo af pönnunni.

IMG_0206

Svo setti ég þær (eða sko þessar tvær sem ég hafði í kvöldmatinn) á disk ásamt steikta grænmetinu og grænu salati.

IMG_0220

Mjúkar, safaríkar, fljótlegar og auðvitað bara ansi hreint góðar.

*

Grillsteiktar lambakótelettur með kartöfluteningum

(fyrir 1-2)

2-4 kótelettur, þykkt skornar

pipar

salt

rósmarín

3-4 kartöflur, meðalstórar

2 vorlaukar

2 litlar paprikur eða 1/2-1 stór

2 msk olía

1-1 1/2 msk balsamedik

salatblöð

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s