Lambahakk og granateplafræ

Eins og ég sagði á dögunum var ég ekkert hætt í lambahakkinu, enda er hægt að gera ansi margt úr því. Og nú langaði mig að gera eitthvað annað en bollur eða buff eða eitthvað slíkt. Ég mundi eftir líbanskri böku sem ég hafði einhverntíma gert og ákvað að gera eitthvað á þeim nótum. Ég átti hakkið heima – tæp 500 g – en kom við í Nettó á heimleiðinni af því að mig vantaði pítsudeig og granatepli, annað þóttist ég viss um að ég ætti heima. Auðvitað hefði ég getað búið til pítsudeig en hafði ekki tíma til þess og svo vildi ég hafa bökubotninn frekar þunnan og þá er öruggast að nota keypt deig (ófrosið, upprúllað deig).

Granatepli, já. Þau eru satt að segja óttaleg klisja – hafa verið í tísku og fólk notar granateplafræ út í alla mögulega og ómögulega hluti. En hér eiga þau heima. Auðvitað má sleppa þeim í þessari böku en þau bæta við bragðið og áferðina og svo gera þau bökuna svo ósköp fallega og svolítið exótíska.

Í uppskriftinni sem ég hafði notað áður var líka svolítið granateplasíróp, sem ég hafði lengi dálæti og og hef satt að segja enn – en það er náttúrlega dísætt og ég sneiði hjá sykri. Svo að í staðinn kryddaði ég hakkið bara meira og það reyndist ekkert verra. Kannski er bakan ögn framandlegri (eða líbanskari) með sírópinu en hún var nú ágæt samt. Hér áður keypti ég gjarna flösku af granateplasírópi í London þegar ég átti leið þangað en nú held ég að það fáist hér, ef einhver vill prófa það í bökuna. Bara ekki nota mikið, kannski matskeið eða tvær í mesta lagi.

En allavega, þá byrjaði ég á að hita ofninn í 200°C. Svo skar ég tvo lauka smátt og saxaði tvo eða þrjá hvítlauksgeira. Hitaði 2 msk af olíu á pönnu, lét laukinn krauma í 2-3 mínútur og setti svo hvítlaukinn út í og lét krauma í 2-3 mínútur í viðbót. Hrærði öðru hverju.

Svo setti ég hakkið á pönnuna, losaði það dálítið í sundur með spaða, brúnaði það við nokkuð góðan hita og hélt áfram að hræra í því og losa það sundur með spaðanum þar til hvergi sást í rautt.

IMG_0544

Ég kryddaði svo hakkið með 1 tsk af kanel, 1/2 tsk af engifer, 1/4 tsk af múskati (má sleppa), 1 tsk af timjani, cayennepipar á hnífsoddi, 1/2 tsk af pipar og 1 tsk af salti. Hrærði kryddinu vel saman við hakkið og laukinn.

Ég hellti svo 50 ml af vatni á pönnuna og bætti við tvennu sem var örugglega ekki í líbönsku uppskriftinni sem ég hef áður gert – ég saxaði væna lófafylli af grænkáli og setti út í og svo notaði ég 2 msk af graskerfræjum í staðinn fyrir furuhneturnar sem ættu að vera en ég átti ekki til. Lét þetta sjóða þar til mestallur vökvinn var gufaður upp.

IMG_0551

Á meðan hafði ég tekið pítsudeigið  úr umbúðunum og sett það á bökunarplötu. Reyndar skar ég af því (nota afskurðinn í annað seinna) af því að ég vildi hafa bökuna ferkantaða og fyllinguna þykka en það má alveg eins nota allt deigið og hafa bökuna rétthyrnda. Ég semsagt dreifði fyllingunni á deigið, ekki alveg út á kantana þó. Setti svo bökuna í miðjan ofninn og bakaði hana í 15 mínútur.

Á meðan tók ég granateplið og byrjaði á að skera grunnan skurð allan hringinn, bara rétt í gegnum hýðið. Auðvitað má bara skera granateplið í tvennt en þá sker maður í gegnum mörg fræ og safinn fer til spillis. Svo að ég skar semsagt bara í gegnum hýðið og reif svo granateplið í tvennt með höndunum. Ég notaði bara annan helminginn svo að ég setti hinn í ísskápinn.

IMG_0557

Það eru til ýmsar aðferðir til að ná fræjum úr granatepli en það sem ég geri alltaf nú orðið er að halda á hálfu granatepli yfir skál eða djúpum diski og berja duglega í það, t.d. með bakkanum á þungum hníf, og snúa eplinu eftir þörfum. Fræin hrynja ofan í skálina en ljósa „frauðið“ sem þau sitja í verður eftir.

IMG_0560

Svona. Það eru eiginlega alveg rosalega mörg fræ í hálfu granatepli – ég notaði þau alls ekki öll (hin fara út í jógúrtina mína í fyrramálið).

Ég skaust líka út á svalir og náði í fáeinar greinar af steinselju og mintu – það má nota bara annaðhvort eða eitthvað annað grænt – og saxaði smátt. Svo tók ég bökuna út og stráði granateplafræjum og kryddjurtum yfir.

IMG_0598

Jú, þetta var nú aldeilis ljómandi.

*

Líbönsk hakkbaka

450-500 g lambahakk

2 laukar

2-3 hvítlauksgeirar

2 msk olía

1 tsk kanell

1/2 tsk engiferduft

1/4 tsk múskat (má sleppa)

1 tsk timjan, þurrkað

cayennepipar á hnífsoddi

1/2 tsk pipar

1 tsk salt

150 ml vatn

2-3 grænkálsblöð

2 msk graskersfræ (eða furuhnetur)

1 rúlla ófrosið pítsudeig (eða heimagert deig)

fræ úr 1/2 granatepli

steinselja og/eða minta

2 comments

  1. Uppskriftin lýtur vel út prófaði eimmit að gera forvera þessarra uppskriftar, rauð grænu hakkbökuna, þegar allir voru í verkfalli og litið annað að fá en lambakjöt.

    Eg ætlaði annars að spyrja þig hvar fæat granateplasíróp hér á landi ?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s