Og ekki gleyma hinu …

Þótt lambakjöt sé eina kjötið sem ég elda þennan mánuðinn elda ég nú ýmislegt annað líka. Ég get til dæmis alls ekki sleppt því að borða fisk, helst nokkrum sinnum í viku, og í gær grillaði ég hreint afbragðsgóða lúðu (ætlaði reyndar ekkert að grila hana, heldur steikja, en gasið á eldavélinni kláraðist akkúrat þegar ég var að byrja – grillkúturinn gegnir hlutverki varakúts og ég hefði auðvitað getað tengt hann en það var nú ágætis veður svo að ég grillaði lúðuna bara). Hafði með henni gulrótalaufspestóið sem ég sagði frá fyrr í vikunni.

Og á morgun verður steinbítur sem ég á í ísskápnum. En ég á líka þetta ljómandi fína lambahakk sem ég fékk í kjötborðinu í Nóatúni, mér til heilmikillar ánægju. Ef vel viðrar grilla ég kannski lambaborgara – einhverjir bestu hamborgarar sem ég hef fengið voru reyndar lambaborgarar. Eða kannski geri ég kjöthleif með rósmaríni og sólþurrkuðum tómötum. Eða pastarétt með lambakjöts-tómatsósu og kryddjurtum. Eða fjárhirðaböku. Eða eitthvað allt annað …

En semsagt, ekkert lambakjöt núna. Ekki fiskur heldur. Nei, hér er uppskrift að grænmetisrétti sem tikkar í öll hollustuboxin (eða hvað? ég ruglast stundum í hvað er talið hollt hverju sinni) – allavega, hann er glútenlaus og kolvetnasnauður og sykurlaus og mjólkurvörulaus og ég veit ekki hvað. En þar fyrir utan er hann bara þó nokkuð góður, sem er nú aðalatriðið.

Þetta er réttur sem hentar hvort heldur er sem aðalréttur eða sem meðlæti með ýmsum réttum.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C (nei, þetta er ekki hráfæðisréttur, hugsaði ekki út í það, svo að þar er allavega eitt box sem ekki er tikkað í). Svo tók ég blómkálshöfuð, 700-800 g eða svo, fjarlægði stilkinn og skar kálið í grófa bita. Setti svo blómkálið í matvinnsluvél …

_MG_1893

… og notaði púlshnappinn til að saxa það þar til það minnti á kúskús – vélin má ekki ganga of lengi, þetta á ekki að verða að mauki. Ef enginn púlshnappur er á vélinni er best að láta hana bara ganga mjög stutt í einu. Svo setti ég blómkálskurlið í skál.

_MG_1897

Svo hrærði ég 3 msk af ólífuolíu, 1 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1/4 tsk af kanel, svolitlum cayennepipar, pipar og salti saman í skál og hellti því síðan yfir blómkálskurlið og blandaði vel.

_MG_1899

Svo dreifði ég kurlinu á pappírsklædda bökunarplötu og bakaði það í 5-6 mínútur, hrærði þá í því og bakaði það svo í 5-6 mínútur í viðbót. Svo tók ég plötuna út og lét kurlið kólna.

_MG_1997

Ég tók svo 250 g af kirsiberjatómötum (nú, eða venjulegum, vel þroskuðum) og eina litla gúrku, skar tómatana í bita og gúrkuna í litla teninga og setti í skál með blómkálskurlinu.

_MG_2000

Svo tók ég knippi af fjallasteinselju og lófafylli af mintulaufi, saxaði þetta og blandaði saman við grænmetið og kurlið. Að lokum dreypti ég safa úr 1/2 sítrónu (eða eftir smekk) yfir.

_MG_2013

Setti svo salatið á fat og skreytti með kryddjurtum.

*

Blómkálskúskús með tómötum og gúrkum

(fyrir 4 sem aðalréttur)

 

1 blómkálshöfuð, 700-800 g

3 msk ólífuolía

1 tsk kummin

1 tsk kóríanderduft

1/4 tsk kanell

cayennepipar á hnífsoddi

pipar og salt

250 g tómatar eða kirsiberjatómatar

1 lítil gúrka

1 knippi fjallasteinselja

lófafylli af mintulaufi

safi úr 1/2 sítrónu, eða eftir smekk

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s