Gáð í skápana

Þá fáu daga að undanförnu sem ég hef ekki eldað lambakjöt hefur oftast verið fiskur á borðum. Svo að það má segja að ég hafi verið frekar þjóðleg í eldamennskunni, það er að segja hvað hráefnið áhrærir, þótt krydd og meðlæti hafi komið úr ýmsum áttum. Og svo hef ég verið óvenju sjálfbjarga með matinn – ég er reyndar ekki með sauðfjárrækt í bakgarðinum og hef ekkert verið að róa til fiskjar en salatið og kryddjurtirnar hefur allt komið af svölunum og jafnvel svolítið af grænmetinu líka. Ekki mikið reyndar, kannski reyni ég meira fyrir mér næsta sumar  – en ég held ég hafi ekki keypt salat eða ferskar kryddjurtir síðan í júní.

En nú fer þetta bráðum að verða búið, ég er búin að taka upp gulræturnar, tek líklega afganginn af rauðrófunum um helgina og sumar salatjurtirnar eru farnar að spretta verulega úr sér eða sölna. Einhver uppskera er samt eftir, að minnsta kosti ef ekki fara að koma næturfrost. En þeim er nú ekkert spáð á næstunni svosem.

En ég ætlaði annars ekkert að tala um það, ég ætlaði að segja frá steinbítnum sem ég eldaði í kvöld. Þetta var svona „hvað-er-til-í-skápnum“-réttur, ég fór ekkert í búð því að ég fór úr vinnunni í viðtali í Síðdegisútvarpinu og svo bara heim. Auðvitað stóð alltaf til að hafa steinbít í matinn, ég meina fiskur er ekki eitthvað sem maður kaupir og geymir dögum saman þar til maður nennir að elda hann. Þessi var keyptur í gær og átti upphaflega að fara í annað, sem ekkert varð svo úr. En ég vissi að ég myndi eiga eitthvað sem ég gæti notað með fiskinum, það má þó alltaf fara í jarðskjálftabirgðirnar (þ.e. niðursuðudósasafnið mitt).

Þetta var steinbítsflak alltsvo, um 400 g (við vorum tvö í mat), keypt í Fiskbúð Hólmgeirs. Ég skar það í bita og kryddaði þá vel með pipar, salti og þurrkuðu óreganói, hitaði 40 g af smjöri á pönnu, setti svo fiskinn á pönnuna og steikti hann í svona 2 mínútur á annarri hliðinni við ríflega meðalhita.

IMG_0642

Oftast nær á ég nokkra tómata á eldhúsbekknum (aldrei í ísskáp) og ég skar 3-4 vel þroskaða tómata í fjórðunga og dreifði þeim á pönnuna á milli fiskstykkjanna. Sneri svo fiskinum við (og tómötunum reyndar líka) og steikti áfram í 2-3 mínútur.

Ég á alltaf til niðursoðnar baunir af ýmsu tagi, það er svo þægilegt að grípa til þeirra. Þegar ég var búin að snúa fiskinum opnaði ég dós af hvítum baunum (navy, en mega líka vera t.d. cannellinibaunir eða bara kjúklingabaunir), hellti leginum af þeim í sigti og dreifði svo á pönuna á milli fiskbitanna.

IMG_0648

Svo hellti ég 125 ml af rjóma á pönnuna og hleypti upp suðu á honum. Þá ættu baunirnar líka að vera heitar í gegn og fiskurinn tilbúinn.

Að lokum saxaði ég nokkur basilíkublöð (eða aðrar kryddjurtir, en ég á venjulega basilíku í potti í eldhúsglugganum) og dreifði yfir. Bar þetta svo fram á pönnunni.

IMG_0664

Ég var líka búin að gera kartöflu-sætkartöflustöppu (2 bökunarkartöflur, 1 sæt kartafla, flysjaðar, skornar í bita og soðnar í sama potti, vatninu svo hellt af þeim og þær stappaðar saman við 50 g af smjöri, þynnt með mjólkurskvettu og pipar, salti, nokkrum söxuðum basilíkublöðum og kummini eftir smekk hrært saman við).

Og svo hafði ég náð í salatblöð á svalirnar og þá var þetta barasta alveg ágætt.

IMG_0660

Steinbítur með tómötum og baunum

(fyrir 2)

400 g steinbítsflök

pipar

salt

1/2 tsk þurrkað óreganó

40 g smjör

3-4 tómatar, vel þroskaðir

1 dós hvítar baunir

125 ml rjómi

basilíka eða aðrar kryddjurtir

*

Kartöflu-sætkartöflustappa

2 bökunarkartöflur, meðalstórar

1 sæt kartafla, meðalstór

50 g smjör

skvetta af mjólk

1/2-1 tsk kummin

nokkur basilíkublöð

pipar og salt

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s