Nesti eða kvöldmatur

Ég veit ekki með ykkur en þegar ég er að fara til útlanda tek ég oftar en ekki með mér nesti til að borða í flugvélinni. Heimatilbúna samloku eða eitthvað. Samlokurnar og annað sem boðið er upp á í flugferðum er nú sjaldan mjög spennandi og ef það er eitthvað sem lítur heldur betur út en annað á matseðlinum er það gjarna búið þegar röðin kemur að mér. Kannski er ég bara svona óheppin.

Ég ætla að skreppa til Belgíu í fyrramálið í nokkra daga og þegar ég kom heim áðan og var ekkert sérstaklega svöng datt mér í hug að slá tvær flugur í einu höggi og útbúa mér kvöldmat og nesti samtímis. Og merkilegt nokk, þá varð lambakjöt fyrir valinu …

Það sem ég hef náttúrlega mest verið að tala um að vanti á markaðinn (að ógleymdu lambahakkinu) er lambakjöt í litlum skömmtum, fyrir einn eða tvo, ófrosið, snyrt og girnilega umbúið – sem sagt, eitthvað sem freistar manns til að grípa með sér á heimleiðinni. Auðvitað er kostur að það sé ódýrt en maður lætur nú frekar eftir sér að borga aðeins hærra kílóverð þegar maður er bara að elda fyrir sjálfan sig en þegar verið er að elda ofan í fjóra eða sex …

En allavega: Nú eru svona bitar komnir á markaðinn og mér finnst það frábært. Fimm mismunandi pakkar með vöðvum úr læri, fallega útbúnir og í stærðum sem henta fyrir einn eða tvo. Ég veit ekki verðið því að ég fékk þetta gefins. Umbúðir með upplýsingum og uppskrift (reyndar ruglandi á pakkanum sem ég var að prófa en úr því verður vonandi bætt). Það er bara einn galli …

IMG_0880

… sem ætti nú að vera augljós.

Ég skil alveg af hverju textinn er allur á ensku (þetta er markaðssett fyrir erlena ferðamenn og peningarnir í þetta koma úr verkefni sem er eyrnamerkt til þess). Það sem ég skil hins vegar ekki er af hverju a) er ekki búið að gera þetta fyrir löngu og b) af hverju ekki er hægt að gera þetta á íslensku jafnhliða – það hljóta að finnast markaðspeningar í það líka. Auðvitað geta allir keypt þetta í þeim verslunum þar sem það fæst en það er ferlega pirrandi að sjá þetta svona og virkar á mann eins og hluti af enskuvæðingu þjóðfélagsins. Svo að vonandi sjáum við svona ágæta vöru merkta á íslensku mjög fljótlega. Það skiptir máli.

Þetta var nöldrið, nú kemur hitt.

Þetta voru sem sagt tvær sneiðar úr lærvöðva, samtals 232 grömm. Eldunartími 5 mínútur, stendur á umbúðunum. Í uppskriftinni á pakkanum er byrjað á að marínera kjötið en ég sá ekki ástæðu til, heldur kryddaði það bara með nýmöluðum pipar, flögusalti og dálitlu þurrkuðu timjani.

IMG_0882

Ég lét kjötið liggja á meðan ég hitaði pönnu (steypujárn, nema hvað) vel og setti lófafylli af basilíku, nokkra mislita kirsiberjatómata, pipar og salt í kvörn og saxaði það gróft saman.

IMG_0886

Bætti svo við 6-8 pekanhnetum, 1 msk af ólífuolíu og 1/2 tsk af balsamediki og hakkaði það saman við. Gróft, þetta á ekkert að vera eins og pestó.

IMG_0888

Pannan var orðin heit og ég hellti 1 msk af olíu á hana og steikti svo kjötið við háan hita í tvær mínútur á hvorri hlið. Þrjár fyrir þá sem vilja það meira steikt. Tók það svo af pönnunni og lét það jafna sig í 2-3 mínútur.

IMG_0891

Svo skar ég fjórar sneiðar af súrdeigsbrauði (eða öðru góðu brauði, smurði þrjár af þeim (já, ég veit að það eru bara tvær þarna) með svolitlu smjöri, setti salatblöð ofan á og dreifði svo 1-2 msk af tómat-basilíkumaukinu yfir.

IMG_0905.jpg

Ég skar svo kjötið í frekar þunnar sneiðar á ská. Raðaði kjötsneiðum ofan á salatið, setti ögn meiri tómat-basilíkublöndu yfir kjötið, lagði brauðsneið ofan á og pakkaði þessu svo frekar þétt inn og stakk í ísskápinn. Svo man ég vonandi eftir að grípa samlokuna með mér áður en ég legg af stað út á völl í nótt …

IMG_0928.jpg

Ég ákvað að fá mér ekki samloku í kvöldmatinn, heldur tvær brauðsneiðar – en ég fór alveg eins að við þær, nema ég skreytti með basilíkublöðum og setti auðvitað ekkert brauð ofan á.

Alveg hreint ljómandi gott og ég er viss um að nestissamlokan verður það líka. Undirbúningurinn tók kannski fimm mínútur, steikingin fjórar og svo samsetningin kannski aðrar fimm.  Þannig að það er frábært að geta keypt passlegan skammt af kjöti og eldað hann á svipstundu. Vonandi verður framhald á þessu.

En á íslensku, takk.

*

Lambasamlokur með tómat-basilíkumauki

2 sneiðar úr lambalærvöðva, 200-250 g

þurrkað timjan

grófmalaður pipar

salt

1 msk olía

súrdeigsbrauð eða annað gott brauð

smjör

salatblöð

*

Tómat-basilíkumauk

lófafylli af basilíkublöðum

6-8 kirsiberjatómatar, gjarna marglitir

pipar

salt

6-8 pekanhnetur (eða valhnetur, möndlur eða annað)

1 msk ólífuolía

1/2 tsk balsamedik

 

 

 

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s