Lamb í wok

Ég er komin heim aftur eftir að hafa átt nokkra góða daga í Belgíu – Brugge og Brussel – og borðað fullt af góðum mat af ýmsu tagi, á býsna ólíkum veitingahúsum. Reyndar eru Belgar ekki síst þekktir fyrir bjór og súkkulaði; ég er ekki mikil bjórmanneskja þótt ég fengi mér þrjá eða fjóra bjóra (samtals í ferðinni). En ef ég væri ekki hætt að borða súkkulaði hefði ég líklega þurft að kaupa aukafarangursheimild og sérstaka tösku til að komast heim. Það eru yfir fimmtíu súkkulaðibúðir í miðbæ Brugge, sem er nú engin stórborg, og erfitt að standast sumar freistingarnar sem ég sá þar.

En ég fékk dúfur og grísapottrétti og gæsalifur og andasalat og nautamerg og allskonar. Ekki slæmt. En ég fékk ekkert lambakjöt – eða pantaði mér það ekki, það var á matseðli á að minnsta kosti tveimur veitingahúsum en ég ákvað að sleppa því. Íslenska lambakjötið dugir mér ágætlega.

Já, mánuðurinn þar sem ég ætlaði ekki að elda neitt kjöt nema lambakjöt er ekki enn liðinn og ég hef nú alveg staðið við það (eldaði ekki neitt í Belgíu þótt ég væri reyndar með eldunaraðstöðu á báðum gististöðunum). En ég kom til landsins núna seinnipartinn í dag, vissi að ég yrði svöng um kvöldmatarleytið en vissi líka að ég ætti lambakjöt í ísskápnum – í lofttæmdum umbúðum og enn í fínu lagi – og sennilega væri eitthvað annað til þar líka. Sem reyndist rétt.

IMG_1797

Ég var með pakka af kjötinu sem ég sagði frá um daginn, nema í þetta skipti var það pakki sem merktur var stir-fry (kannski skiljanlegt að þar sé enska notuð því það hefur aldrei komið fram þýðing á stir-fry sem náð hefur útbreiðslu; ég hef notast við „veltisteikt“ því maður veltir jú matnum fram og aftur á wokpönnunni um leið og hann steikist – það er allavega skárra en „hræristeikt“). En það var reyndar rangnefni því að bitarnir voru of stórir fyrir slíka matreiðslu. Svo að ég byrjaði á að skera hvern bita um sig í þunnar, litlar sneiðar. – Þetta voru svona 250 g, meyrt kjöt úr læri; það má nota aðra bita ef þeir eru ekki mjög seigir, t.d. henta lambaleggir ekki vel, sama hve smátt þeir eru skornir.

Ég lagði kjötið til hliðar en skar dálítinn bita af engifer smátt, svo og tvo hvítlauksgeira og hvíta og ljósgræna hlutann af tveimur vorlaukum. Hitaði 1 msk af olíu í wokpönnu (eða stórri steikarpönnu), setti engifer, hvítlauk og vorlauk út í þegar pannan var vel heit, steikti í svona 1 mínútu og hrærði oft á meðan. Tók þetta svo af pönnunni með gataspaða og setti á disk.

IMG_1803

Svo setti ég kjötið á pönnuna – ekki allt í einu þó – og veltisteikti það í svona 2 mínútur, þar til það hafði allt tekið lit. Þá tók ég það af pönnunni með gataspaðanum og setti á diskinn með laukblöndunni.

Ég var búin að skera niður grænmeti – ég var með nokkrar heimaræktaðar dverggulrætur  og 2-3 dvergpaprikur (nei, þetta er ekki chili en það má nota chili ef maður vill sterkt). En það mætti nota 1-2 gulrætur og kannski 1/4-1/2 venjulega papriku. Ég skar gulræturnar mjög þunnt svo að þær næðu að verða meyrar. Bætti svo 1 msk af olíu á pönnuna og veltisteikti grænmetið í 2-3 mínútur.

Ég skar niður eitt eða tvö grænkálsblöð og þrjá stóra sveppi, bætti á pönnuna og veltisteikti í 2-3 mínútur í viðbót. En það er rétt að hafa í huga að ég var bara að nota grænmetið sem ég átti til í skápnum – það má nota ýmislegt annað: kúrbít, tómata, gúrku, kínakál, spergilkál, dvergmaís – bara það sem maður á.

IMG_1811

Svo setti ég kjötið og laukblönduna aftur á pönnuna, ásamt grænum blöðunum af vorlauknum, smátt skornum, og lúkufylli af salatblöðum sem ég hafði sótt út á svalir (já, það er enn eitthvað eftir af sumarræktuninni, svei mér þá) en það má sleppa því eða nota eitthvert keypt salat …

IMG_1813

… og hellti svo 2 msk af sojasósu og 2 msk af hoisinsósu yfir, ásamt 2 msk af vatni. Það mætti líka setja 1/2-1 tsk af hunangi; mér finnst ekki þörf á því en sumir vilja hafa sósuna ögn sætari.

Ég lét þetta sjóða í 1-2 mínútur og hrærði oft á meðan.

IMG_1832

Og þá var bara að bera þetta fram með hrísgrjónunum sem ég var búin að sjóða (matreiðslan tekur álíka langan tíma og hrísgrjónin þurfa). Skammturinn getur dugað fyrir tvo – fer eftir grænmetismagninu – eða í kvöldmatinn fyrir eina konu og nesti daginn eftir (af því að grænmetið var ekki það mikið).

IMG_1843

Veltisteikt lambakjöt í hoisinsósu

250-300 g smátt skorið lambakjöt

3-4 cm biti af engifer

2 -3 hvítlauksgeirar

2 vorlaukar

2 msk olía

1-2 gulrætur

1/4-1/2 paprika (og chili ef vill)

1-2 grænkálsblöð

75-100 g sveppir

(eða bara það grænmeti sem til er)

lúkufylli af salatblöðum

2 msk sojasósa

2 msk hoisinsósa

2 msk vatn

(e.t.v. 1/2-1 tsk hunang)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s