Blöðin og stilkarnir

Það er eitthvað mjög dularfullt í gangi með þetta kjötfjall, sem er víst bara þúfa eða jafnvel hola. En hvað sem því líður held ég að öll sú umræða sem hefur farið í gang gæti haft jákvæð áhrif að ýmsu leyti. Að minnsta kosti ef hún verður til þess að einhverju leyti að afurðastöðvar, kjötvinnslur og verslanir færist aðeins nær nútímanum (já, ég veit, sumir hafa staðið sig nokkuð vel í því) og líka að neytendur taki við sér, kaupi meira lambakjöt, prófi nýja rétti og ekki síst að þeir geri auknar kröfur um hvernig þeir vilja fá kjötið en taki ekki bara við því sem að þeim er rétt – eða hætti að kaupa lambakjöt, sem því miður hefur orðið raunin hjá sumum.

Í framhaldi af þessu ætti náttúrlega að koma lambakjötsuppskrift og ég eldaði mér einmitt alveg ágætar pistasíu-rósmarínþaktar lambakótelettur áðan (þær voru nokkuð þykkar og vænar og voru þó ekki úr Costco) en ég geymi þær aðeins, sú uppskrift kemur seinna. Í staðinn er hér uppskrift að súpu sem ég eldaði í gær og er kjötlaus með öllu.

IMG_0668

Ég var nefnilega að taka upp um helgina nokkrar rauðrófur sem ég ræktaði í stórum potti á svölunum. Rauðrófurnar sjálfar voru nú heldur litlar og vesældarlegar (en ljómandi góðar á bragðið, ef maður kann að meta rauðrófur sem ekki allir í minni fjölskyldu kunna reyndar). En þær voru blaðríkar og blöðin sátu á löngu, hárauðum stilkum og mér fannst ótækt að henda öllum þessum blöðum og stilkum. Ég er svo nýtin … eða hagsýn húsmóðir eða eitthvað.

Ég hef reyndar notað (ung) rauðrófulauf út í salat í allt sumar en þessi lauf voru flest orðin svo þykk og seig að þau hentuðu ekki til slíks brúks. Svo að ég ákvað að gera súpu. (Og nóta bene, ef þið eruð ekkert í rauðrófurækt mætti líka nota til dæmis grænkál. Bragðið verður náttúrlega ekki eins en súpan verður ágæt samt.)

IMG_0745

En ég byrjaði á að skola rófurnar vel og svo skar ég stilkinn af þeim svona sentimeter ofan við rófuna og skar svo stilka og blöð í sundur.

IMG_0789

Ég tók svona helminginn af blöðunum og stilkunum (vafði hitt í eldhúspappír og setti í poka og í kæli, ásamt rófunum) og grófsaxaði þetta. Ég vigtaði þetta ekki en það er ekkert svo nauið með magnið.

Svo skar ég tvo lauka, tvær gulrætur og einn sellerístöngul niður. Hitaði 2 msk af oliu í potti og lét þetta krauma í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var farinn að mýkjast.

IMG_0790

Þá setti ég rauðrófublöðin og -stilkan út í, hrærði vel og lét krauma í eina eða tvær mínútur.

Svo hellti ég 600 ml af vatni í pottinn, bætti við 1 kúfaðri msk af chilipestói ( eða einhverri chilitómatsósu, en ég hafði keypt þetta chilipestó óvart og þurfti að nota það og það var bara fínt hér) og kryddaði með pipar og salti. Lét malla í svona 10 mínútur.

Þá opnaði ég dós af hvítum baunum, lét renna af þeim í sigti, setti þær svo út í súpuna og sauð í svona 10 mínútur í viðbót. Tók þá pottinn af hitanum og lét súpuna kólna í nokkrar mínútur. Hellti henni svo í matvinnsluvél og maukaði hana (það má líka nota töfrasprota).

IMG_0811

Svo smakkaði ég súpuna, bragðbætti hana aðeins með pipar og salti, hellti henn í súputarínu (eða bara aftur í pottinn) og af því að það er nú basilíka í gluggakistunni skreytti ég hana með nokkrum basilíkublöðum.

IMG_0815

Og svo bara gott brauð með.  – Það er ekkert rauðrófubragð af súpunni svo að jafnvel rauðrófuhatarinn í fjölskyldunni var bara sáttur. Og hinir líka.

*

Rauðrófublaðasúpa

stilkar og blöð af nokkrum rauðrófum

2 laukar

2 gulrætur

1 sellerístöngull

1 msk olía

600 ml vatn

1 kúfuð msk rautt chilipestó eða sterk chilitómatsósa eftir smekk

pipar

salt

1 dós hvítar baunir

e.t.v. basilíka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s