Ég á óbirtar nokkrar vorlegar/sumarlegar uppskriftir. Það er ekki grundvöllur fyrir þeim þessa stundina. Bara hreint ekki.
Til allrar hamingju á ég góðan slatta af vetrarlegum uppskriftum líka. Mér finnst til dæmis falskur héri/svikinn héri/kjöthleifur vera vetrarlegur matur, ég veit samt ekki alveg af hverju en ég mundi aldrei elda hann að sumri til. Ekki nema veðrið væri kalt og leiðinlegt, allavega. Þetta er fyrir mér dálítill notalegheitamatur, saðsamur, nærandi og vermandi, gamaldags og ömmulegur.
Ekki samt vegna þess að ég sé alin upp við falskan héra, ég man ekki eftir að mamma hafi eldað hann en ég lærði líklega að gera einhverja útgáfu af honum í matreiðslu. Og svo man ég eftir héra í mötuneyti MA en hann var gerður úr kjötfarsi og bakaður í stórum málmbökkum og var með undarlegri, harðri skorpu. Ég hef reyndar alltaf hneigst til að gera dálítinn greinarmun á héra og kjöthleif – mér finnst héri fremur vera úr kjötfarsi en kjöthleifur úr grófara hakki og oft gljáður með tómat- eða barbecuesósu – en það er líklega bara minn skilningur. Mér finnst þetta sem uppskrift kemur að hér á eftir allavega vera kjöthleifur fremur en héri, þótt það sé engin tómatsósa eða annar gljái. Bara beikon.
En af hverju annars falskur/svikinn héri? Ja, í eldri uppskriftum er oft talað um að móta farsið/hakkið ,,sem líkast héra“ (ég veit reyndar ekki hvað það hefur sagt venjulegum íslenskum húsmæðrum, sem aldrei höfðu séð héra, hvorki lifandi né dauðan) og hafa beikonræmur inni í því og utan um, eins og oft er gert við magra villibráð. Hér áður fyrr var algengt að kenna uppskriftir við eitthvert annað dýr en var svo notað í þær – ég á uppskriftir að fölskum hérum, öndum, gæsum og fleiri skepnum og svo má nefna beinlausa fugla, sem höfðu akkúrat ekkert með fuglakjöt að gera, og skjaldbökubróður (eða fortapaða skelpöddu, eins og Magnús Stephensen kallaði réttinn), sem auðvitað inniheldur ekkert skjaldbökukjöt.
Forloren hare eða svikinn héri var algengur réttur í Danmörku fyrr á tíð og þekkist þar enn og þaðan barst hann til Íslands. Danir bera hann gjarna fram með brúnuðum kartöflum en það held ég að ekki hafi verið algengt hér, ég hef allavega miklu oftar fengið kartöflustöppu með. Það eru kannski amerísk áhrif, stappa er mjög oft höfð með amerískum kjöthleif.
Ég var mjög oft með hakk í matinn hér áður fyrr og notaði það á mjög marga vegu – ég hef stundum tautað etthvað um að ég ætti að taka mig til og skrifa bókina 365 hakkréttir – en af því hefur nú aldrei orðið og núna er ég miklu sjaldnar með hakk en áður, reynar líklega aðallega vegna þess að núna sér maður varla hakk nema í bökkum, 500-600 g eða svo, og þótt það henti vel fyrir fjölskyldur er það ekki góð stærð fyrir einbúa – ég þyrfti þá að elda hakkrétti tvo daga í röð að minnsta kosti og ég reyni nú alltaf að nota hakk sama dag og það er keypt, það er ekki mikil geymsluvara. Af hverju ekki? Jú, af því að bakteríur eru fyrst og fremst á yfirborði kjötstykkja, sem er sá hluti kjötsins sem er eldað mest og rækilegast og því er ólíklegt að þær lifi það af eða valdi sýkingu. En þegar kjötið er hakkað blandast þær rækilega saman við allt og fá skilyrði til að fjölga sér. Þess vegna er hætt við að hakk skemmist hraðar en heil stykki og best að geyma það sem styst.
En nóg um það. Hakk er fínt, það þarf bara að passa betur upp á það en ýmislegt annað. Og sonurinn var að koma í mat svo að ég keypti 500 g af svínahakki í Bónus. Ég veit að mörgum finnst lítið í svínahakk varið en það getur verið fínasti matur og er miklu ódýrara en nautahakk. Það má alveg nota nautahakk í þennan kjöthleif en mér finnst svínahakkið reyndar betra.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C. Svo tók ég þrjár brauðsneiðar (helst grófar, ég var með Lífskorn eða hvað það nú heitir frá Myllunni, en það má nota hvaða brauð sem er), reif þær niður og setti þær í matvinnsluvélina ásamt 1 grófsöxuðum lauk, 2-3 hvítlauksgeirum, blöðum af nokkrum timjangreinum, svolítinni steinselju af því að ég átti hana, 75 g af muldum fetaosti, 1 tsk af paprikudufti, ½ tsk af pipar og 1 tsk af salti.
Ég lét vélina ganga þar til komin var grófgerð mylsna.
Þá setti ég hakkið út í, ásamt einu eggi, og lét vélina ganga (best að nota púlshnappinn) þar til þetta var allt vel blandað saman – en ekki of lengi, þetta á ekki að verða að fínu farsi.
Ég smurði svo meðalstórt jólakökuform með dálitlu smjöri. Tók pakka af beikoni (ég var með stórar og þykkar, fitulitlar beikonsneiðar, pakkinn var ein 275 g og það voru átta sneiðar í honum, en það má líka nota annars konar beikon) og raðaði helmingnum af sneiðunum á botninn á forminu og lét þær ná upp með börmunum – eða upp fyrir þá, ef þær eru langar. Það má reyndar líka sleppa að hafa beikon undir hleifnum og hafa það bara ofan á.
Ég setti svo hakkblönduna í formið og sléttaði úr henni. Lagði svo afganginn af beikonsneiðunum yfir og stakk endunum niður með hliðunum (ýtti á eftir þeim með hnífsblaði).
Svo setti ég hleifinn í ofninn og bakaði hann í 35-40 mínútur (bökunartíminn fer svolítið eftir lögun og stærð formsins, þ.e. eftir því hvað hleifurinn er þykkur).
Það var dálítið soð í forminu og ég hellti því í litla skál og bar það fram með sem sósu. Svo renndi ég hnífsblaði meðfram hleifnum til að losa hann og hvolfdi honum á fat – eða reyndar hvolfdi ég honum fyrst á bretti og svo aftur á fat, til að hafa hann á réttum kil á fatinu. Puntaði upp á hann með dálítilli steinselju.
Með þessu hafði ég græn salatblöð og steiktar kartöflur – eða reyndar var þetta afgangur af kartöflum sem ég hafði eldað daginn áður, sauð þær fyrst þar til þær voru meyrar og brúnaði þær svo í olíu, og núna hafði ég sett þær í lítið eldfast fat sem ég setti í ofninn við hliðina á kjöthleifsforminu í svona 20 mínútur.
Jú, þetta var alveg ágætlega notalegur notalegheitamatur. Vetrarmatur.
*
Kjöthleifur með beikoni
500 g svínahakk (eða annað hakk)
3 brauðsneiðar
1 laukur
2-3 hvítlauksgeirar
nokkrar timjangreinar (eða 1/2-1 tsk þurrkað timjan
dálítil steinselja (má sleppa)
75 g fetaostur
1 tsk papikuduft
½ tsk pipar
1 tsk salt
1 egg
200-300 g beikonsneiðar
*
200°C, 35-40 mínútur
[…] gerði ég til dæmis núna á dögunum þegar ég gerði falskan héra. Ég hef áður verið með uppskrift að slíkum rétti – töluvert öðruvísi þó – og skrifaði þá dálítið um þennan rétt og aðra […]