Fljótlegur dukkah-lax

Það er líklega orðið dálítið síðan ég var síðast með fiskuppskrift hér, veit ekki af hverju því ekki hef ég verið að elda neitt minna af fiski en ég er vön – hef bara ekki tekið myndir af honum eða skrifað uppskriftirnar hjá mér.

Nei, ég tek ekki myndir af öllu sem ég elda. Til dæmis tók ég enga mynd af kvöldmatnum í gær. Barnabörnin komu í mat og ég hafði spurt þau hvort það væru einhverjar óskir. Átti svosem ekki von á sameiginlegri niðurstöðu, enda kom á daginn að annað stakk upp á að það yrðu andabringur í matinn, hitt vildi helst kálböggla með búðakjötfarsi (ekki heimatilbúnu, var sérstaklega tekið fram). Ég trakteraði fjölskylduna á andabringum um síðustu helgi og er nýbúin að gefa út bók með uppskrift að kálbögglum með heimatilbúnu kjötfarsi svo að ég móðgaðist og beitti neitunarvaldi á báðar tillögurnar. Reyndi svo að rifja upp hvað þau kynnu bæði að meta en endaði á að útbúa brunch handa þeim, þótt þetta væri kvöldmatur. Beikon, amerískar pönnukökur, spælegg, steiktar kartöflur, hlynsíróp (fyrir Úlf), mangójógúrt, spínat, ávextir og ostur (fyrir mig). Þetta féll í góðan jarðveg og á endanum lýsti Úlfur sig saddan, sem gerist nú ekki oft, og það þótt væri enn svolítið eftir af pönnukökum og beikoni. Mér fannst reyndar nóg um atganginn þegar hann var að ryðja í sig og reyndi að sannfæra hann um að ef hann gengi svona að mat sínum þegar við verðum tvö saman í Róm um næstu helgi myndir ítalska matarlöggan tugta hann til og dæma í fjársektir eða þaðan af verra. Hann trúði mér ekki alveg en lofaði að reyna að vera prúðmannlegur við matarborðið. Við sjáum nú til.

En það var fiskurinn.

Fyrr í vikunni átti ég von á syninum í mat og langaði í fisk. Ég þurfti að koma við  í Víði á leiðinni heim úr vinnunni og var að flýta mér svo ég ákvað að kaupa bara fisk þar. En það var ekkert til nema lax og ég keypti hann þá bara. Stirtlustykki, rúm 400 grömm. Keypti ekkert til að hafa með honum því ég var ekki ákveðin í hvað ég ætlaði að gera við hann en þóttist viss um að ég ætti eitthvað heima sem ég gæti notað.

Ég leit í skápana þegar heim kom. Byrjaði svo á að setja hrísgrjón í hrísgrjónapottinn og sjóða þau.

Í einum skápnum var krukka með dukkah-blöndu sem ég ákvað að nota á fiskinn. Dukkah eða duqqa er egypsk hnetu- og kryddblanda sem aðallega er notuð sem ídýfa fyrir brauð og grænmeti en það er hægt að nota hana í ýmislegt fleira. Þessi var keypt en það er ekkrt mál að gera svona blöndur, þetta er bara hnetur/möndlur, sesamfræ og krydd. Það mætti t.d. taka lófafylli af möndlum og hálfan lófa af pistasíum eða öðrum hnetum og lófafylli af sesamfræi, setja á pönnu, e.t.v. með einhverju kryddi, svo sem kóriander og kummini og e.t.v. fennikufræi, þurrkaðri mintu eða timjani o.fl., og léttrista (ekki láta brenna, hræra stöðugt í) og setja svo í matvinnsluvél ásamt pipar og salti og mala. Þetta á að vera frekar fínt en þó ekki of, ef vélin er látin ganga of lengi gæti þetta orðið að mauki og það er ekki meiningin (en ef það gerist má alveg nota maukið líka sem kryddað hnetu/möndlusmjör).

_MG_5037

Ég semsagt roðfletti laxinn og skar hann í stykki. Setti dálítið af dukkah-blöndunni á disk, velti laxabitunum upp úr blöndunni og þrýsti þeim vel niður í hana. Ef blandan sem er notuð er ekki mikið krydduð er ágætt að byrja á að krydda laxinn með pipar og salti, áður en honum er velt upp úr henni.

_MG_5038

Svo hitaði ég pönnu, setti dálitla olíu á hana og steikti fiskinn við ríflega meðalhita í 2-3 mínútur …

_MG_5040

… sneri stykkjunum svo gætilega með spaða og steikti á hinni hliðinni í svona 2 mínútur, eða þar til laxinn var rétt tæplega steiktur í gegn.

_MG_5041

Hrísgrjónin voru soðin og ég dreifði úr þeim á fati. Skar nokkra vel þroskaða tómata í báta og dreifði í kring, ásamt lófafylli af grófsaxaðri basilíku (það má sleppa henni og nota t.d. söxuð salatblöð).

_MG_5044

Svo lagði ég laxastykkin ofan á hrísgrjónin og dreifði klettasalati yfir.

_MG_5048

Þetta er mjög fljótlegur réttur, öll eldamennskan tekur þann tíma sem fer í að sjóða hrísgrjónin.

Ef einhverjum finnst skrítinn litur á tómötunum er það alveg rétt, þetta eru nefnilega svartir tómatar. En það má að sjálfsögðu nota venjulega.

*

Dukkah-lax með hrísgrjónum og tómötum

hrísgrjón

400-500 g laxaflak

4-5 msk dukkah-blanda, keypt eða heimatilbúin

e.t.v. pipar og salt

1-2 msk olía

nokkrir vel þroskaðir tómatar

lófafylli af basilíkublöðum (má sleppa)

klettasalat

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s