Brennuvargurinn Nanna

Ég þarf verulega á því að halda að taka/rýma til í frystiskápnum og kanna hvað leynist í honum og nota eitthvað af því. Er reyndar byrjuð og þess vegna tók ég fyrr í vikunni út pakka með tveimur fasanabringum sem ég hafði einhverntíma keypt. Eins og ég hef áður sagt, einn af kostunum við að elda bara ofan í einn (eða tvo) er að maður getur stundum látið eftir sér ýmislegt góðgæti sem væri kannski dálítið dýrt að elda handa stórri fjölskyldu (eða nokkrum átvöglum). Ég man reyndar ekki hvað þessar bringur kostuðu en það var örugglega töluvert minna en ein pítsa.

Reyndar er ansi margt sem er ódýrara en ein pítsa ef út í það fer. Jafnvel fyrir stórar fjölskyldur.

Ég ætlaði upphaflega að gæða mér á þessu á sumardaginn fyrsta (hér skrifaði ég fyrst óvart sumardaginn frysta, það hefði nú átt betur við) en þegar til kom var ég bara ekkert svöng því fjölskyldan kom í rjómapönnukökur eins og venjulega – á þessum bæ er löng hefð fyrir því að bera fram pönnukökur á blárósóttum diski á fyrsta sumardag – og ég hafði borðað einar tvær þrjár og þurfti engan kvöldmat. Svo að ég eldaði bringurnar áðan fyrir mig og soninn – ef hann hefði ekki komið í mat hefði ég bara eldað aðra núna og hina svo allt öðruvísi einhverntíma um helgina. Kannski vafða í hráskinku með sveppum og gráfíkjum og púrtvíni … jæja, það bíður betri tíma.

Ég ákvað að hafa kartöflustöppu með fasanabringunum svo að ég flysjaði tvær bökunarkartöflur (um 500 g), skar þær í bita, setti í pott og sauð þær þar til þær voru meyrar.

_MG_5107

Á meðan tók ég bringurnar, sem voru búnar að þiðna í ísskápnum, og þerraði þær aðeins með eldhúspappír. Svo setti ég dálítið hveiti – svona 2 msk – á disk, kryddaði vel með pipar og salti og velti bringunum upp úr blöndunni.

_MG_5108

Hitaði 1 msk af olíu og 25 g af smjöri á pönnu, setti bringurnar á hana og brúnaði við meðalhita í svona 2 mínútur.

_MG_5112

Á meðan skar ég 8-10 þurrkaðar apríkósur (mjúkar, ef þær eru það ekki er best að leggja þær í bleyti smástund) í bita. Ég sneri svo bringunum og dreifði apríkósunum á pönnuna með þeim.

_MG_5114

Ég er dálítill brennuvargur og finnst gaman að eldsteikja (flambera) svo að ég ákvað að gera það núna (en það má alveg sleppa því sko). Svo að ég hellti 2 msk af Grand Marnier (má líka vera koníak eða eitthvert annað áfengi) í ausu og hitaði með því að halda henni á pönnunni þar til líkjörinn var orðinn heitur. Það má líka hita hann í potti og svo má auðvitað hella honum beint á pönnuna og kveikja svo í, en ég vildi hella honum yfir fasanabringurnar en láta þær bara sjóða í honum.

_MG_5117

Svo lyfti ég ausunni, teygði mig í kveikjarann og kveikti í líkjörnum …

_MG_5120

… og hellti honum svo logandi yfir fasanabringurnar.

_MG_5124

Þegar logarnir slokknuðu hellti ég svo 200 ml af heitu vatni yfir (ef apríkósurnar voru lagðar í bleyti er upplagt að nota vatnið af þeim), bætti við svolitlum villibráðarkrafti (eða kjúklingakrafti), setti lok yfir pönnuna og lét malla í 10 mínútur. Á meðan hellti ég vatninu af kartöflunum, sem voru akkúrat soðnar, stappaði þær með 50 g af smjöri, hrærði svo skvettu af rjóma (eða mjólk) saman við, kryddaði með pipar og salti og svo átti ég nokkur basilíkublöð sem lágu undir skemmdum svo ég saxaði þau og hrærði saman við stöppuna, en það er nú ekkert nauðsynlegt.

_MG_5128

Svo átti ég nokkra stöngla af dvergspergli (hafði keypt bakka til að nota í rétt fyrir myndatöku en ekki notað nema helminginn) svo að ég setti þá út í þegar bringurnar voru búnar að malla í 7 mínútur og lét þá sjóða með síðustu 3 mínúturnar. En það má sleppa þessu eða nota annað grænmeti – til dæmis mætti líka nota spergilkálskvisti en þeir þurfa þá aðeins fyrr á pönnuna. Svo tók ég hana af hitanum og lét standa í fáeinar mínútur. Ég bar þetta fram í pönnunni en það má líka setja þetta á fat og bera sósuna fram með í lítilli skál. Ég þykkti hana ekkert, fannst það ekki passa, en það má svosem hræra örlitlum sósujafnara saman við; hún á þó alls ekki að vera þykk.

_MG_5140

Ég bar svo bringurnar fram með apríkósunum, sperglinum, sósunni, kartöflustöppunni og grænu salati.

_MG_5146

Drengurinn var nú bara ekkert óhress með þetta ..

*

Fasanabringur með apríkósum 

2 fasanabringur

1-2 msk hveiti

pipar

salt

1 msk olía

25 g smjör

8-10 þurrkaðar apríkósur

2 msk Grand Marnier, koníak eða annað áfengi (má sleppa)

200 ml heitt vatn

1/2 tsk villibráðar- eða kjúklingakraftur

e.t.v. nokkrir stönglar dvergspergill, nokkrir spergilkálskvistir eða annað grænmeti

*

Kartöflustappa

500 g bökunarkartöflur

50 g smjör

50 ml rjómi eða mjólk, eða eftir þörfum

pipar

salt

e.t.v. nokkur basilíkublöð

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s