Ef ég væri hjátrúarfull mundi ég óska þess að kólnaði heldur með kvöldinu því samkvæmt veðurspánni er óvíst að vetur og sumar frjósi saman hér í Reykjavík og ef það gerist ekki er ekki von á góðu sumri. En ég er ekkert hjátrúarfull svo að mér er nú nokk sama.
En það var fallegt gluggaveður i dag og reyndar bara frekar hlýtt stundum á pallinum á Forlaginu; segi ekki að maður hefði getað farið í sólbað samt. Það er þó ólíklegt að það verði sólbaðsveður á morgun en gæti orðið sól seinnipartinn og þá ætla ég að baka pönnukökur og bera fram á blárósóttum diski eins og ég geri alltaf á sumardaginn fyrsta. Þjóðlegra gerist það ekki og það finnst mér gott. Og er ég þó enginn framsóknarmaður.
Ég er hins vegar ekkert búin að ákveða hvað ég ætla að hafa í sumardagsmatinn. Líklega ætti það að vera lambakjöt en maður getur nú ekki alltaf verið þjóðegur og svo er ég búin að elda svo oft lamb að undanförnu. Hér kemur til dæmis uppskrift að lambasteik sem ég eldaði rétt fyrir páska, þegar tengdadóttirin var á landinu. Litirnir gera það að verkum að þetta er næstum því sumarlegt …
Við vorum bara þrjú í mat og mig langaði að elda lambalæri en fannst það fullstórt; að vísu hægt að nýta afganga á ýmsan hátt og gera úr þeim mjög ólíka rétti þrjá eða fjóra daga í röð ef því er að skipta en þetta var rétt fyrir páska og mig langaði ekkert að lifa á afgöngum alla páskana. En svo fann ég lítið, þverskorið læri í Bónus, það var ekki nema 1,4 kg, sem er bara nokkurn veginn passlegt. Afgangar bara einu sinn í matinn eða svo.
Ég kveikti á ofninum og stillti hann á 215°C. Svo tók ég nokkuð stórt, eldfast fat, dreypti 1 msk af ólífuolíu á botninn, grófsaxaði 4-5 hvítlauksgeira og setti í miðjuna og lagði svo 2-3 rósmaríngreinar ofan á.
Ég kryddaði svo lærið með nýmöluðum pipar og flögusalti á öllum hliðum og setti ofan á hvítlaukinn og rósmarínið.
Svo skar ég 3 mandarínur (eða reyndar voru það líklega klementínur) í fremur þykkar sneiðar. (Reyndar er yfirleitt best að flysja þær fyrst en þessar voru svo lausar í berkinum að þær nánast duttu úr því og mér fannst best að skera þær með berkinum, þær losnuðu þá síður sundur í lauf).
Ég setti 2-3 rósmaríngreinar í viðbót ofan á lærið, tók endana af mandarínunum og kreisti safann úr þeim yfir og raðaði svo miðjusneiðunum ofan á lærið.
Svo tók ég svona 400 g af kartöflum og skar í báta. Flysjaði nokkrar gulrætur og 3-4 nípur (má nota ýmislegt annað rótargrænmeti), flysjaði og skar gulræturnar í bita og nípurnar í fjórðunga eftir endilöngu. Dreifði öllu grænmetinu jafnt í kringum lærið og svo dreypti ég 1-2 msk af ólífuolíu yfir og kryddaði með pipar og salti.
Ég setti lærið í ofninn og steikti það við 215°C í um hálftíma. Þá tók ég það út, lækkaði ofnhitann í 160°C, hrærði aðeins í grænmetinu og breiddi svo álpappír lauslega yfir fatið, setti það aftur í ofninn og steikti í um 40 mínútur í viðbót.
Þá tók ég það úr ofninum en lét það standa með grænmetinu undir yfirbreiðslunni á hlýjum stað í um 15 mínútur í viðbót. Skreytti það svo með ögn af steinselju (af því að ég átti hana til) og bar fram …
… ásamt grænmetinu og mandarínunum, grænu salati og lárperu-spínat-basilíkusósu. Æjá, það þarf víst að vera uppskrift að henni líka:
Ég tók eina litla, vel þroskaða lárperu, flysjaði hana, fjaræægði steininn og setti hana í matvinnsluvél með 100 g af spínati, svona þriðjungi af basilíkuknippi, lófafylli af steinselju (má sleppa), 2 söxuðum hvítlauksgeirum, smáklípu af chiliflögum, pipar og salti. Lét ganga þar til allt var komið í mauk og bætti svo við ólífuolíu smátt og smátt (og lét vélina ganga á meðan), þar til sósan var orðin hæfilega þykk – hún má alveg vera þynnri en sú á myndinni, það er smekksatriði. Smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.
*
Mandarínu-lambalæri
1,4 kg lambalæri
2 msk ólífuolía
4-5 hvítlauksgeirar
nokkrar rósmaríngreinar
nýmalaður pipar
salt
3 mandarínur (eða klementínur)
400-500 g bökunarkartöflur
3 nípur
nokkrar gulrætur
215°C í 30 mínútur, svo 160°C í 40 mínútur, 15 mínútna bið
*
Lárperu-spínat-basilíkusósa
1 vel þroskuð lítil lárpera
100 g spínat
1/3 knippi basilíka
steinselja
2 hvítlauksgeirar
smáklípa af chiliflögum
pipar
salt
ólífuolía