Linsur frá Líbanon

Nei, vorið ætlar eitthvað að láta standa á sér svo að ég er horfin frá berjum og svoleiðis í bili og hér er uppskrift sem á vel við á öllum árstímum þótt hún sé reyndar ættuð frá öllu suðlægari slóðum, það er að segja sunnan og austan frá Líbanon. Eða þetta er reyndar samsuða úr nokkrum uppskriftum en þær eru allar af þeim slóðum – frá Líbanon, Sýrlandi, kannski Tyrklandi. En þetta er nú allt náskylt.

Ég gerði þetta reyndar fyrir þáttinn sem ég var með í febrúarblaði MAN, en af því að þetta er nú eiginlega mín uppáhaldsmatargerð fór ég offari og gerði fleir rétti en pláss var fyrir í blaðinu og þessi komst því ekki með í pakkann og uppskriftin hefur ekki birst áður. Ekki vegna þess að hún væri eitthvað síðri en hinar, öðru nær, það stóð bara svona á. Og mér finnst hún ekki passa annarsstaðar inn svo hún kemur bara hér.

Linsubaunasalöt eru gjarna einföld, seðjandi en frískleg um leið og þetta hér er þar engin undantekning. Einfaldleikinn er þó ekki ástæða þess hve myndirnar af matartilbúningnum eru fáar – ég var að gera marga hluti í einu þennan dag svo að myndatökur af matseldinni sátu dálítið á hakanum. En ég notaði 150 g af grænum linsubaunum, sem ég setti í pott ásamt um hálfum lítra af vatni og svolitlu salti, hitaði að suðu og lét malla þar til baunirnar voru meyrar en þó enn svolítið stinnar og halda vel lögun – ætli það hafi ekki tekið svona 25 mínútur. Hellti svo vatninu af þeim (ef eitthvað er eftir) og lét þær kólna. Setti þær í stóra skál.

_MG_6942

Á meðan hitaði ég 50 ml af ólífuolíu á pönnu. Saxaði 1 rauðlauk og 4 hvítlauksgeira og lét krauma í olíunni í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Svo hellti ég öllu af pönnunni í skálina með baununum og blandaði og saxaði síðan eitt knippi af steinselju (fjallasteinselju) og svona hálft knippi af mintu og blandaði saman við.

_MG_6943

Svo tók ég einn stóran, vel þroskaðan og knallrauðan tómat (mætti vera tveir minni) og saxaði hann. Setti hann í skálina ásamt safa úr einni sítrónu, 1 tsk af kummini og ¼ tsk af kanel og blandaði vel. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.

_MG_7101

Ég setti svo salatið í skálina sem ég ætlaði að bera það fram í og tók 100 g af fetaosti (kubbi) og grófmuldi yfir. Bar þetta fram með pítubrauði.

*

Líbanskt linsubaunasalat

150 g grænar linsubaunir

um ½ l vatn

salt

50 ml ólífuolía

1 rauðlaukur

4 hvítlauksgeirar

1 stór tómatur, vel þroskaður

1 knippi steinselja

½ knippi minta

safi úr 1 sítrónu

1 tsk kummin

¼ tsk kanell

pipar

100 g fetaostur (helst kubbur)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s