Ostakaka eða búðingur? Allavega gott …

Bara í tilefni þess að áðan skein sólin og mig langar alltaf svo mikið í jarðarber á þessum árstíma og ég á einmitt jarðarber sem ég ætla að gera eitthvað með á eftir, þá er hér ein snögg uppskrift – þetta er einhvers konar sambland af ostaköku og búðingi. Ég gerði reyndar ekkert ósvipað fyrir fermingarveislu dóttursonarins um síðustu helgi en þá var kökubotn undir svo að ég gat kallað það ostaköku með góðri samvisku.

Og svo er þetta án viðbætts sykurs, náttúrlega. En með döðlum. Bara svo þið í döðluóvinafélaginu vitið það.

_MG_3954

Ég byrjaði á að steinhreinsa 100 g af döðlum (eða þær voru sko vigtaðar þegar ég var búin að taka steinana úr svo að þetta var eitthvað meira að steinunum meðtöldum), setja þær í matvinnsluvél og mauka þær.

_MG_3957

Svo setti ég 250 g af mjúkum mascarponeosti út í, ásamt 200 g af sýrðum rjóma (36%) og 100 ml af St. Dalfour-apríkósusultu, og hrærði vel saman. Ég nota St. Dalfour af því að hún er góð og sykurlaus – það er að segja, sætan í henni er eingöngu úr ávöxtum. En það má nota aðrar sultur, sykurlausar eða ekki.

_MG_3958

Bætti svo við tveimur kúfuðum matskeiðum af kakódufti og lét vélina ganga þar til blandan var orðin alveg slétt.

_MG_3963

Svo setti ég blönduna í form – ég notaði bökuform úr gleri en það má nota hvaða flatbotna form sem er, eða bara víða skál – og sléttaði yfirborðið.

_MG_3965

Ég tók til bæði bláber og jarðarber sem ég átti. Magnið er bara það sem maður á eða vill nota – ætli ég hafi ekki verið með svona 400 g af jarðarberjum og 250 g af bláberjum? Það þarf náttúrlega ekkert að gera við bláberin en ég sleit blöðin af jarðarberjunum og skar stilkinn burt með hnífsoddi. Einhvers staðar á ég sérstakt tól til þeirra nota en nennti ekki að leita. Svo skar ég hvert ber í tvennt.

_MG_3996

Svo raðaði ég jarðarberjahelmingunum í hringi ofan á og setti bláber á milli. Gott að kæla þetta svo í allavega klukkutíma. – Ég veit satt að segja ekki af hverju það gæti virst á myndinni að búðingurinn væri tvílitur, það var hann ekki, hann var allur með sama lit … Dularfullt.

_MG_4003

En þetta var allavega fínasti búðingur. Nema manni sé illa við döðlur, náttúrlega.

*

Búðingur með berjum

100 g döðlur

250 g mascarpone

200 g sýrður rjómi, 36%

100 ml apríkósusulta

2 kúfaðar msk kakó

jarðarber

bláber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s