Skinka og egg í brauði

Það fer kannski ekki framhjá neinum (nema þeim sem ekki hafa heimsótt bloggið áður) að ég var að breyta um útlit á blogginu. Var orðin leið á því gamla … Ef ykkur finnst eitthvað hafa versnað til muna má gjarna láta vita af því.

Ég hef frekar lítið nennt að elda fyrir sjálfa mig að undanförnu – það koma svoleiðis tímabil stundum – en ég var reyndar að klára þátt fyrir MAN og baka fyrir fermingarveislu og skrifa grein fyrir tékkneskt blað og eitthvað fleira svo að það hefur svosem verið nóg að gera. Og eftir fermingarveisluna um helgina var ég voða áhugalítil um mat. Í heila tvo daga. En það lagaðist nú aftur.

Allavega, hér er litríkur og góður brauðréttur sem einfalt er að útbúa. Það er hægt að gera hann fyrirfram að hluta og geyma en setja svo eggin og kotasæluna í brauðin rétt áður en þetta fer í ofninn. – Ég átti sykurbaunir (af einhverri ástæðu á ég oftast sykurbaunir þessa dagana) og notaði þær en það má nota ýmislegt annað grænmeti, t.d. smátt skorna papriku eða saxaða tómata.

Ég hef nokkrum sinnum áður verið með uppskrift þar sem egg eru bökuð í einhvers konar bollum eða formum – hér og hér og hér og kannski víðar – en ég held að ég hafi aldrei sett inn uppskrift þar sem þau eru í brauðbollum eins og hér.

_MG_0697

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C. Svo tók ég tvö smábrauð (má nota bollur eða rúnnstykki, helst gróf), skar lok ofan af þeim og holaði þau að innan. Innmatinn má til dæmis nota til að gera rasp.

_MG_0698

Svo klæddi ég brauðin að innan með hráskinku, þannig að  brúnirnar á skinkunni stóðu alls staðar vel upp úr brauðinu og mynduðu skál. Ég var með litlar hráskinkusneiðar svo að ég notaði þrjár í hvort brauð en ef þær eru mjög stórar mætti komast af með eina. Jæja, eða kannski tvær – það getur verið gott að hafa tvöfalt lag af skinku ef sneiðarnar eru mjög þunnar. Ég setti nokkur basilíkublöð á botninn á hvorri skál. Saxaði 25 g af sykurbaunum (en það má semsagt nota ýmislegt annað grænmeti sem þarf litla eldun) og vorlauk og dreifði yfir en hafði laut í miðjunni. Kryddaði þetta með svolitlum pipar og salti.

_MG_0756

Ég braut svo eggin og setti eitt í hvort brauð.

_MG_0759

Ég dreifði svo kotasælu í kringum rauðuna – einni eða tveimur matskeiðum í hvort brauð og dreyptu örlítilli tabascosósu yfir. Raðaðu brauðunum á bökunarplötu og bakaði þau í ofni í um 10 mínútur, eða þar til eggjahvítan var stíf og kotasælan e.t.v. aðeins farin að taka lit.

_MG_0780

Svo er bara að bera brauðin fram heit eða volg með grænu salati.

_MG_0800

Skinka og egg í brauðbollum

2 smábrauð, bollur eða rúnnstykki, helst gróf

2-6 sneiðar af hráskinku, eftir stærð

nokkur basilíkublöð

25 g sykurbaunir (eða annað grænmeti)

grænu blöðin af 1 vorlauk

pipar

salt

2 egg

3-4 msk kotasæla

smáskvetta af tabascosósu eða annarri chilisósu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s