Súkkulaði, ber og Royal

Litla krúttið (alveg að verða einn og áttatíu) og frjálsíþróttakappinn (bestur í sínum aldursflokki í Reykjavík, já, ömmur mega alveg monta sig svolítið) hann dóttursonur minner orðinn unglingur og í gær fermdist hann borgaralega. Og ég tók að mér að sjá um veitingar í veislunni að mestu. Fyrir utan perutertu sem barnabörnin pöntuðu hjá hinni ömmunni, mér er sko sannarlega ekki treyst fyrir hverju sem er.

Svo tiltók fermingardrengurinn sérstaklega að hann vildi síður að fermingartertan yrði sykurlaus. Ég lét það náttúrlega eftir honum. En að þessum tveimur tertum frátöldum voru allar veitingar í veislunni sykurlausar, enda bæði ég og móðir drengsins hættar öllu sykuráti. Brauðtertur, heitur brauðréttur með hangikjöti og osti og grænmeti (og svo átti að vera aspas en dósahnífurinn fannst ekki svo að hún var bara aspaslaus), skinkuhorn, brauð (ókei, það var frá Jóa Fel, eldra barnabarnið er rekstarstjóri í einu bakaríinu), ostar (nei, ég gerði þá reyndar ekki heldur), ídýfur og svo auðvitað kökur, allar sykurlausar og flestar úr nýju bókinni minni sem er væntanleg um mánaðamótin og er hér fremst:

_MG_4402

Reyndar voru svo skinkuhornin gerð eftir uppskriftinni í Ömmumat og brauðterturnar meira og minna lika, svo það má segja að ég hafi ekki leitað langt eftir uppskriftum.

Ég held kannski að sumum gestunum hafi ekki alveg litist á blikuna þegar þeir fréttu af sykurleysinu en þeir jöfnuðu sig á því, ég held að enginn hafi farið svangur heim og margir fóru margar ferðir að borðinu. En kannski var það nú vegna þess hvað kökudiskarnir sem fylgdu salnum voru litlir … Allavega voru ekkert miklir afgangar. Og ekki ein einasta marensterta, einhver sagði við mig ,,ég sem hélt að það væri ekki hægt að halda marenslausa tertuveislu“. Það er vel hægt.

En ég var beðin um uppskrift að fermingartertunni og skal reyna að verða við því. Hún var gerð samkvæmt því sem ég vissi að myndi falla fermingardrengnum í geð, súkkulaðikaka með þunnum svampbotni efst, Royal súkkulaðbúðingskremi og súkkulaðihjúpi með fullt af ávöxtum. Botnarnir voru bakaðir í steikarformi sem er um 30×40 cm og tertan dugði vel fyrir 60 gesti.

_MG_4497

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 175°C og klæða formið innan með bökunarpappír. Svo setti ég 250 g af smjöri og 200 g af suðusúkkulaði, brotnu í bita, í pott og bræddi þetta saman við vægan hiita. Hrærði oft þar til súkkulaðið var bráðið og samlagað og þá tók ég potitnn af hitanum og lét kólna aðeins. Á meðan þeytti ég 5 egg og 350 g af sykri mjög vel saman og þeytti svo súkkulaði – smjörblöndunni saman við.

_MG_4507

Svo blandaði ég saman annars vegar 300 ml af hreinni jógúrt, 200 g (1 dós) af sýrðum rjóma, 36% (það má svosem alveg nota 18% og reyndar má líka nota bara 500 ml af súrmjólk í staðinn fyrir bæði jógúrtina og sýrða rjómann en mér finnst þessi blanda gefa betri útkomu) og 2 msk af vanilluessens – og hins vegar 400 g af heilhveiti (má vera hvítt hveiti), 60 g af kakódufti, 3 tsk af lyftidufti, 2 tsk af matarsóda og 1 tsk af salti. Hrærði þessu svo til skiptis (í þremur skömmtum eins og ég lærði fyrir óralöngu og situr dálítið fast í mér) saman við deigið. Best að hræra rólega og ekki meira en þarf; hrærivélarskálin verður líklega næstum alveg full.

_MG_4508

Svo hellti ég deiginu í formið, sléttaði yfirborðið með sleikju og gætti þess að það færi vel út í öll hornin, og bakaði svo botninn neðarlega í ofni í svona 25 mínútur, eða þar til kakan var svampkennd og aðeins farin að losna frá börmunum.

_MG_4524

Lét hana kólna aðeins í forminu og hvolfdi henni svo á grind og klæddi formið aftur með bökunarpappír því það var komið að ljósa botninum. Ég tók engar myndir, enda var þetta bara afskaplega hefðbundinn svampbotn – 3 egg, 125 g sykur og 1 tsk vanilluessens þeytt mjög vel saman, 100 g hveiti, 25 g kartöflumjöl og 1 tsk lyftiduft sigtað yfir, blandað gætilega saman við með sleikju, hellt í formið og bakað strax í miðjum ofni í svona 15 mínútur. Svo hvolfdi ég botninum á grind og lét báða botnana kólna alveg.

_MG_4601

Það var eiginlega engin spurning hvað færi á milli botnanna. Royal er standardinn sem ég þarf að keppa við hjá barnabörnunum og er yfirleitt léttvæg fundin. Ég hef búið til rosalega góða súkkulaðibúðinga úr fínum hráefnum sem fólk hefur stunið af unaði yfir; barnabörnin segja í mesta lagi ,,þetta er eiginlega alveg eins og Royal“ en oftar þó ,,æ, má ég ekki frekar fá Royal?“ (þau vita að ég á eiginlega alltaf neyðarbirgðir af Royalbúðingsdufti).

Svo að ég tók þrjá pakka af súkkulaðibúðingi, setti innihaldið í skál með 750 ml af rjóma og 450 ml af mjólk og þeytti saman.

_MG_4603

Smurði svo kreminu jafnt yfir súkkulaðibotninn …

_MG_4608

… setti ljósa botninn ofan á …

_MG_4612

… og snyrti brúnirnar með beittum hníf. (Og hafði nægan viljastyrk til að borða ekki afskurðinn, því hefði ég nú ekki trúað fyrir ekki svo löngu síðan.)

_MG_4614

Svo setti ég 75 ml af rjóma og 450 g af suðusúkkulaði í pott, bræddi við vægan hita og hrærði stöðugt þar til súkkulaðið var bráðið og allt vel samlagað. Tók þá pottin strax af hitanum og lét kólna aðeins en hellti súkkulaðinu svo á kökuna og smurði því jafnt yfir hana alla og á hliðarnar.

Ég hafði kökuna á grind en ekki á fati svo að súkkulaðið sem læki af henni myndi renna niður á marmaraplötuna (mætti bara vera bökunarpappír) sem ég hafði undir og ég gæti þá skafið það upp og sett aftur á kökuna; vildi heldur ekki hjúpa kökuna á fati til að fá ekki súkkulaðipolla allt í kringum hana. Ég gleymdi bara að hugsa út í eitt smáatriði:

_MG_4616

Það er að segja, hvernig átti svo að koma kökunni yfir á fatið?

Á endanum brá ég á það ráð að renna bökunarplötu undir kökuna á grindinni, lyfta svo kökunni á plötunni og renna henni svo aftur af plötunni yfir á fatið. Ég segi ekki að ég hafi unnið verkfræðilegt afrek en þetta tókst – stórslysalaust.

_MG_4639

Ég er engin kökuskreytingamanneskja svo að þegar ég var búin að skrifa nafn fermingardrengsins og dagsetningu á kökuna tók ég bara fullt af berjum (jarðarber, bláber, brómber, hindber, blæjuber) og raðaði í kring og dreifði svo meiri berjum á fatið allt í kringum kökuna (svo að það hefði svosem ekki skipt nokkru máli þótt eitthvað af súkkulaðihjúpnum hefði lekið þar niður, man það næst.

_MG_4646

Skrautskriftarhæfileikar mínir eru nú ekkert sérstakir heldur en til allrar hamingju heitir drengurinn bara einu stuttu nafni (það var meira vesen þegar ég gerði tertu fyrir systur hans, hún heitir þremur nöfnum). En ég gerði glassúr úr flórsykri, Royal vanillubúðingsdufti (til að fá hann stífari) og svolitlu heitu vatni og sprautaði á tertuna með mjóum rjómasprautustút.

Fermingardrengurinn var alveg sáttur, held ég. En ég verð að hafa orð annarra fyrir því að kakan hafi verið góð, ég smakkaði hana ekki.

*

Súkkulaðibotn

5 egg

350 g sykur

250 g smjör

200 g súkkulaði

2 msk vanilluessens

300 ml hrein jógúrt

200 ml sýrður rjómi, 36%

400 g heilhveiti

60 g kakóduft

3 tsk lyftiduft

2 tsk matarsódi

1 tsk salt

*

Svampbotn

3 egg

125 g sykur

1 tsk vanilluessens

100 g hveiti

25 g kartöflumjöl

1 tsk lyftiduft

*

Súkkulaðikrem

3 pakkar Royal súkkulaðibúðingur

700 ml rjómi

400 ml mjólk

*

Súkkulaðihjúpur og skraut

450 g suðusúkkulaði

80 ml rjómi

fullt af berjum (ég notaði 750 g jarðarber, 200 g bláber, 125 g hindber, 125 g brómber og nokkur blæjuber)

*

Glassúr

75 g flórsykur

3 msk Royal vanillubúðingsduft

heitt vatn eftir þörfum, bætt við smátt og smátt þar til kominn er stífur og þykkur en sléttur glassúr

4 comments

  1. Var að enda við að baka þessa fyrir fertugsafmæli og hún er geggjuð! Fullkomin uppskrift þar sem allt gengur upp. Þúsund þakkir 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s