Salat fyrir einbúa

Það er ekki alltaf auðvelt að elda fyrir einn – eða jú, það er nú reyndar yfirleitt ekkert mál að elda en það getur stundum verið vesen að kaupa inn. Og verður enn meira vesen eftir því sem kjöt- og fiskborðum og fiskbúðum fækkar, allavega fyrir bíllausar eftirlegukindur eins og mig sem nenna sjaldnast. Þá koma litlu mínútusteikurnar frá Kjarnafæði, sem hægt er að fá frosnar, sér vel og ég á gjarna nokkrar svoleiðis í frysti og gríp til þeirra – þær þiðna á nokkrum klukkutímum og hægt að gera ansi fjölbreytta, fljóteldaða rétti úr þeim (nei, ég er ekki með kostunarsamning við Kjarnafæði, ég er bara ánægð með að þeir skuli muna eftir okkur einbúunum).

Bitarnir eru um 85 g og það er yfirleitt mátulegt fyrir mig eina en það er líka alveg hægt að kaupa tvo á mann – eða fleiri. Uppskriftin hér á eftir er miðuð við einn en það er ekkert mál að tvö- eða margfalda hana. Þessi uppskrift birtist fyrst í 2. tölublaði Stundarinnar.

_MG_1646

Ég var semsagt með eina svona mínútusteik sem ég hafði látið þiðna í kæli en tók svo út smástund áður en ég fór að elda – en auðivtað má nota sneið af einhverju öðru meyru nautakjöti. Ég kryddaði kjötið með pipar og salti og stráði ögn af söxuðu rósmaríni á það (en því má sleppa). Hitaði svo 1 msk af olíu vel á lítilli pönnu og steikti kjötið við góðan hita í 1½ -2 mínútur.

_MG_1656

Sneri henni svo og steikti hana álíka lengi á hinni hliðinni (eða eftir smekk). Svo tók ég það af pönnunni, setti á bretti og lét standa í nokkrar mínútur.

_MG_1660

Á meðan kjötið brúnaðist hafði ég skorið 50-75 g af sykurbaunum í bita og saxað einn vel þroskaðan tómati smátt. Þegar ég var búin að taka kjötið af pönnunni setti ég baunirnar á hana ásamt smáskvettu af vatni og lét sjóða rösklega í 2 mínútur. Lét svo baunirnar kólna svolítið.

_MG_1665

Á meðan skar ég kjötið í þunnar sneiðar. Dreifði svo lófafylli af salatblöðunum á disk, stráðu tómatbitum á þau og helltu svo baununum og því soði sem eftir kann að vera á pönnunni yfir. Lagði svo kjötsneiðarnar ofan á.

_MG_1737

Svo muldi ég dálítinn bita af fetaosti yfir, stráði nokkrum berjum á salatið (af því að ég átti þau til) og skreytti með steinselju.

_MG_1749

Fljótlegt einbúasalat

85-100 g sneið af meyru nautakjöti (t.d. mínútusteik)

nýmalaður pipar

salt

nálar af 1 rósmaríngrein (má sleppa)

1 msk olía

50-75 g sykurbaunir, ferskar eða frosnar

4-5 msk vatn

1 tómatur, vel þroskaður

lófafylli af salatblöðum

smábiti af fetaosti

nokkur bláber eða önnur ber

e.t.v. steinselja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s