Ekki alveg ráðherrakaka kannski …

Ég hef ekkert sett hér inn að undanförnu því að ég var í Róm í nokkra daga; fór þangað með dóttursyni mínum en ferðin var fermingargjöfin hans frá mér. Ég hef ekki komið til Rómar síðan ég var stödd þar í bankahruninu sællar minningar, það var sérkennileg upplifun, en núna hrundi ekki neitt. Við skemmtum okkur konunglega og höfðum það afskaplega gott, borðuðum auðvitað góðan mat og ég fékk ýmsar hugmyndir og sá eitt og annað sem ég ætla kannski að prófa – en ég ætla samt ekki að koma með ítalska uppskrift í þetta skipti, það bíður betri tíma.

En á meðan ég var úti kom nýja bókin mín út, Sætmeti án sykurs og sætuefna, og mér heyrist að hún hafi bara fengið fínar viðtökur.

sætmeti

Þetta er semsagt bók með uppskriftum að kökum, lummum, brauði, snúðum, smákökum, tertum, eftirréttum, ís, sælgæti og öðru sætmeti – allt án sykurs, hrásykurs, síróps, hunangs, sykurlíkis og annarra sætuefna, en með ávöxtum (nei, ekki eintómum döðlum og banönum, þótt hvorttveggja komi nokkuð við sögu). Sjálf er ég hætt að borða sykur eins og oft hefur komið fram og í uppskriftunum er ég að reyna að sýna að  það sé bara vel hægt að útbúa ýmiss konar góðgæti til að gæða sér og öðrum á án þess að sykur komi við sögu.

Uppskriftin sem hér kemur er einmitt að sykurlauskri köku en hún er reyndar ekki í bókinni; er samt dæmigerð fyrir sumar kökurnar þar (og já, það eru vissulega bæði döðlur og bananar í henni – og perur líka). En þegar ég kom heim í gærkvöldi voru allir að tala um kökuát. Perutertuát nánar til tekið. Og ég sagði eitthvað á þá leið á Facebook að ég þyrfti nú bara að baka perusúkkulaðiköku við fyrsta tækifæri – það var of seint að byrja á því í gærkvöldi. Það yrði mitt framlag til stjórnmálaumræðunnar.

Svo að ég ákvað að baka köku þegar ég kom heim úr vinnunni. Upphaflega átti þetta nú bara að vera nokkuð hefðbundin peruterta – án sykurs – en þegar ég ætlaði að fara að byrja fann ég ekki dós með  perum í perusafa, sem mig minnti að ég ætti til. Ég átti hins vegar nokkrar litlar og snotar perur svo að ég ákvað að nota þær bara og baka töluvert öðruvísi köku.

_MG_6003

Þessar perur voru litlar og kubbslegar en það má alveg nota dálítið stærri perur. Þær voru svolítið mjúkar en ekki linar.

_MG_6005

Ég kveikti á ofninum og stillti hann á 175°C. Svo flysjaði ég perurnar (þær voru fimm) og notaði svo melónujárn (kúlujárn) til að kjarnstinga þær.

_MG_6011

Upphaflega ætlaði ég reyndar að hafa þær heilar og láta þær standa upp á endann í kökunni og þess vegna stakk ég kjarnann úr þeim neðan frá.

_MG_6000

Svo var það deigið: Ég tók tvo vel þroskaða banana (þeir voru heldur af stærri gerðinni) og setti þá í matvinnsluvélina. Steinhreinsaði svo döðlur og setti 150 g í vélina með banönunum og maukaði allt vel saman. Bætti svo við 125 ml af matarolíu og 1 1/2 tsk af vanilluessens og hrærði saman við.

_MG_6016

Svo vigtaði ég 150 g af heilhveiti (það má líka nota hvítt hveiti), blandaði saman við það 1 1/2 tsk af lyftidufti, 2 kúfuðum matskeiðum af kakódufti og svolitlu salti og hrærði saman við deigið ásamt þremur eggjum.

_MG_6018

Smurði svo meðalstórt smelluform og klæddi botninn á því með pappír. Hellti deiginu í það og sléttaði úr því. Ég hafði ætlað að láta perurnar standa uppréttar í kökunni en svo rann upp fyrir mér að deigið var ekki nógu mikið til að það hefði komið vel út svo að ég skar fjórar af þeim í tvennt og raðaði helmingunum í hring. Skar þá fimmtu sundur þvert yfir og setti efri helminginn í miðjuna en át neðri helminginn. (Það er samt ekki nauðsynlegt.)

_MG_6066

Ég bakaði svo kökuna neðst í ofni í um 30 mínútur, eða þar til hún hafði lyft sér vel, var svampkennd og aðeins farin að losna frá börmunum. Lét hana hálfkólna í forminu.

_MG_6069

Svo losaði ég hana úr forminu og lét hana kólna alveg á grind og setti hana svo á fat.

_MG_6095

Kakan er fín eins og hún er en það mætti alveg hafa þeyttan rjóma með henni líka ef maður er þannig stemmdur.

*

Súkkulaðiperukaka

5 litlar perur (eða 3 stórar og þá eru þær skornar í þriðjunga eða fjórðunga)

2 bananar

150 g steinlausar döðlur

1 1/2 tsk vanilluessens

125 ml matarolía

150 g heilhveiti

1 1/2 tsk lyftiduft

1/4 tsk salt

2 kúfaðar msk kakóduft

3 egg

*

175°C í um 30 mínútur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s