Ítalir, fiskur og ostur

Við dóttursonurinn vorum á veitingahúsi í Róm á fimmtudagskvöldði. Indælis veður og við sátum úti, með útsýni yfir Via de Fori Imperiali. Við vorum að bíða eftir pastanu okkar. Borðin voru nokkuð þétt og við næsta borð sátu bandarisk hjón á miðjum aldri. Þau fengu matinn sinn á undan okkur og voru bæði með sjávarréttarisotto.

– Get ég fengið parmesanost? spurði konan þjóninn.

– Nei, svaraði hann.

Það kom á konuna en hún endurtók spurninguna.

– Ertu viss? spurði þjónninn á móti.

– Já, svaraði konan ákveðin.

Þjónninn gekk í burtu og kom svo aftur með parmesanskál. Setti hana á borðið og sagði við konuna:

– Þú ert með fyrir framan þig einn dýrasta og besta réttinn okkar. Bragðið af sjávarréttunum er fínlegt og viðkvæmt og það væri synd að eyðileggja það með parmesanostinum því hann er svo yfirþyrmandi.

Svo gekk hann í burtu. Konan sat steinhissa og horfði á eftir honum. Svo byrjaði hún að borða risottoið. En snerti ekki parmesanostinn. Þegar hún var að klára af diskinum kom þjónninn með pastað okkar, carbonara fyrir Úlf, amatriciana fyrir mig. Hann tók parmesanskálina, setti hana við hliðina á diskinum mínum og sagði:

– Hér passar hann aftur á móti.

(Sem var alveg rétt hjá honum.)

Ítalir taka matinn sinn alvarlega og hafa ákveðnar óskrifaðar reglur í heiðri og ein þeirra er þessi: aldrei ostur með sjávarréttum. Fyrir því eru ýmsar ástæður, bragðlegar og sögulegar. Ég held ég sé svolítið ítölsk í mér því ég nota mjög sjaldan ost í sjávarrétti, með undantekningum þó. Og hér kemur reyndar ein af þeim. Þegar dósatúnfiskur er annars vegar þarf maður ekkert að vera hræddur um að eyðileggja fínlegt bragð … og íslenskur fetaostur er nú heldur ekki það bragðmikill.

_MG_5051

Þetta er réttur af því tagi sem er upplagt fyrir einbúa að henda í þegar maður kemur seint heim eða bara þegar maður nennir ekki að elda. Tekur eiginlega bara þann tíma sem þarf til að sjóða egg … Eggið er einmitt ekki á myndinni því það var komið í pottinn, ég sauð það í 7 1/2 mínútu því ég vildi ekki hafa það alveg harðsoði. Svo notaði ég eina dós af túnfiski (í olíu, mér finnst hann betri, en það má auðvitað líka nota túnfisk í vatni), bita af fetaosti – svona 40 g kannski – einn vel þroskaðan tómat (þessi var svartur en það má vera venjulegur), hálft rautt chili, eina blóðappelsínu (mætti vera mandarína en þá er gott að bæta við svolitlum sítrónusafa), klettasalat og steinselju. Og svo ögn af ólífuolíu, pipar og salt.

_MG_5055

Ég skar börkinn af blóðappelsínunni með hníf og kreisti safann úr því aldinkjöti sem eftir sat í berkinum í skál og skar svo blóðappelsínuna í bita (ég hefði átt að skera hana á diski til að geta notað safann sem rann úr henni en gleymdi því svo að ég bætti við aðeins meiri safa úr annarri blóðappelsínu), bætti við svona 1 msk af ólífuolíu og ögn af pipar og salti og hrærði saman.

_MG_5057

Svo hellti ég olíunni vel af túnfiskinum, losaði hann í sundur í bita og setti í skálina ásamt klettasalati og steinselju og blandaði þessu saman. Svo skar ég tómatinn í fremur þunna báta og fræhreinsaði chili-ið og skar það í þunnar sneiðar. Blandaði þessu saman við túnfisksalatið ásamt blóðappelsínubitunum.

_MG_5078

Eggið var einmitt orðið hæfilega soðið og ég kældi það í rennandi vatni, skurnfletti það og skar í báta. Setti salatið á disk og dreifði eggjabátunum yfir og muldi svo fetaostinn yfir. Hann passar sko alveg ágætlega þarna.

_MG_5088

Svo er bara að bera þetta fram með góðu brauði.

*

Túnfisksalat með fetaosti og blóðappelsínu

1 dós túnfiskur

1 egg

1 vel þroskaður tómatur

1 blóðappelsína

lófafylli af klettasalati

hálfur lófi af flatblaðssteinselju (má sleppa)

1/2 chilialdin

1 msk ólífuolía

pipar

salt

40 g fetaostur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s