Maísvöplur

Ég held ég hafi sagt frá því um daginn að ég var að skipta um ísskáp. Ég er enn að venjast nýja skápnum – opna hann stundum og teygi mig í einhverja hillu þar sem ég á von á að hitta fyrir eitthvað sem alltaf var þar – en er núna komið á nýjan stað í skápnum. Kælirýmið í þeim nýja er nefnilega mun minna en í hinum, sem var eingögngu kæliskápur en nú er ég semsagt komin með skáp með frystihólfi og þarf ekki lengur niður í kjallara ef mig vantar eitthvað úr frysti. Það er vissulega mjög þægilegt. Reyndar hélt ég að ég ætti eftir að sakna plássins í gamla skápnum meira, en það rann upp fyrir mér að líklega þyrfti ég bara að skipuleggja það pláss sem ég hef betur. Og það gengur bara ágætlega – mun betur en flestir sem þekkja mig vel myndu líklega halda.

Ég er líka að reyna að skipuleggja uppskriftasafnið mitt betur og það er ekki síst þess vegna sem ég hef sett inn svona mikið af uppskriftum að undanförnu; sumar þeirra eru orðnar nokkurra ára gamlar og mér fannst rétt að birta þær á meðan mér tækist enn að muna hvaða myndir eiga við hverja þeirra … Þessi uppskrift hér er reyndar bara ársgömul, hún er úr pönnuköku-, lummu- og vöpluþætti sem ég var með í MAN.

Þessar krydduðu vöfflur eru gerðar úr blöndu af heilhveiti og maísmjöli. Áleggið hér er með frísklegum, svolítið mexíkóskum blæ en raunar má setja alls konar álegg á þær.

_MG_5579

Ég byrjaði á að blanda 150 g af heilhveiti, 150 g af maísmjöli, 2 tsk af lyftiduti, 1/2 tsk af matarsóda, 1/4 tsk af pipar, 1/8 tsk af cayennepipar (eða eftir smekk) saman í skál. Aðskildi líka 3 egg og hrærði rauðunum saman við, ásamt 100 ml af matarolíu (reyndar setti ég allt saman bara í matvinnsluvél og þeytti það saman). Svo hrærði ég 350 ml af ab-mjólk (má líka vera súrmjólk) saman við deigið.

_MG_5580

Ég stífþeytti svo eggjahvíturnar og blandaði þeim gætilega saman við með sleikju. Svo hitaði ég vöfflujárn (ég notaði belgískt járn en það má líka vera venjulegt) og steikti vöfflur við nokkuð góðan hita þar til þær voru gullinbrúnar.

Maísvöfflur 4

Ég hafði grænmeti og límónurjóma með: Reif börkinn af einni límónu og hrærði saman við eina dós af sýrðum rjóma (18%). Svo bragðbætti ég sýrða rjómann með límónusafa, pipar og salti. Bar hann fram með volgum vöfflunum, ásamt tómötum, smátt skorinni papriku og vorlauk, kóríanderlaufi og e.t.v. spírum.

Maísvöfflur2 (1)

Ég hef líka borið vöfflurnar fram með steiktum sveppum og steinselju.

*

Maísvöfflur

150 g heilhveiti

150 g gult maísmjöl

2 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

1/4 tsk pipar

1/8 tsk cayennepipar, eða eftir smekk

3 egg, aðskilin

100 ml olía

350 ml ab-mjólk eða súrmjólk

*

Ofan á:

1 límóna

1 dós sýrður rjómi, 18%

pipar og salt

kirsiberjatómatar

paprika

vorlaukur

kóríanderlauf

e.t.v. spírur

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s