Það er nú mánuður í sumardaginn fyrsta …

Nei, veturinn er nú líklega ekki alveg búinn þótt hér sé hlýrra en víða í Evrópu þessa dagana. Það getur átt eftir að koma vorhret, jafnvel nokkur slík … Og þess vegna kemur hér uppskrift að vetrargrænmetisgratíni, því að rótargrænmeti tengist einhvernveginn vetrinum (og kannski haustinu) meira en öðrum árstímum þótt það geti verið alveg ljómandi gott og vel viðeigandi árið um kring.

Þetta girnilega rótargrænmetisgratín hentar vel sem aðalréttur með salati en er líka tilvalið meðlæti með steik eða kjúklingi. Og ef manni sýnist svo er tilvalið að blanda t.d. dálítilli skinku eða steiktu beikoni saman við áður en það fer í ofninn. Sé það ekki gert hentar þetta vel fyrir grænmetisætur (eins og aðra), en þó ekki þá sem eru vegan.

Rótargrænmeti er þétt í sér og þarf töluverðan tíma í ofninum til að verða meyrt, nema þá ef það er skorið mjög smátt, í litla bita eða þunnar sneiðar. En ég ákvað að flýta fyrir mér með því að forsjóða grænmetið.

Ég var með kartöflur, sellerírót, gulrætur og gulrófur, 400-600 g af hverju, mest af kartöflum. Flysjaði allt grænmetið og skar það í bita, 2–3 cm á kant. Setti það í pott ásamt vatni og salti og sauð það í 10–12 mínútur. Á meðan hitaði ég ofninn í 200°C.

IMG_7438

Svo hellti ég grænmetinu í sigti og láttu rjúka vel af því. – Þetta dökka, torkennilega þarna  eru gulrætur, ég var nefnilega með regnbogagulrætur í þremur litum, en það má vel hafa þær bara einlitar …

IMG_7439

En ég tók pottinn sem ég hafði soðið grænmetið í og setti í hann 150 ml af rjóma, 200 ml af mjólk (nú, eða 350 ml af matreiðslurjóma, það kemur nokkurn veginn út á eitt), 2-3 saxaða hvítlauksgeira, 1 msk af dijosinnepi, blöð af nokkrum timjangreinum og pipar. Hitaði þetta að suðu og lét malla í nokkrar mínútur.

IMG_7440

Þá reif ég niður pecorino-ost (eða parmesanost) og hrærði u.þ.b. 4 msk af honum saman við (en eins og sést reif ég hann reyndar beint í pottinn svo að magnið er bara gisk), smakkaði og bætti við salti eftir þörfum. Svo tók ég pottinn af hitanum og blandaði grænmetinu saman við.

IMG_7446

Ég skar svo 60 g bita af smjöri, smurði eldfast mót með hluta af því, hellti grænmetinu og sósunni í mótið, reif 2 msk af pecorino-osti til viðbótar og stráði yfir ásamt svolitlu timjani, setti afganginn af smjörinu ofan á í smáklípum …

IMG_7511

… og bakaði í 35–40 mínútur, eða þar til grænmetið var orðið meyrt og gratínið hafði tekið góðan lit.

*

Rótargrænmetisgratín með kryddjurtum og parmesan

600 g kartöflur

500 g sellerírót

400 g gulrætur

400 g gulrófur

salt

150 ml rjómi

200 ml mjólk

2–3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

1 msk dijonsinnep

blöð af nokkrum timjangreinum eða 1/2 tsk þurrkað timjan

6 msk nýrifinn pecorino- eða parmesanostur

60 g smjör

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s