It ain’t easy being green … Grænt er uppáhaldsliturinn minn og hefur verið frá því að ég man fyrst eftir mér. Ég þarf alltaf að hafa taumhald á mér þegar ég rek augun í fallega græna flík í fatabúð því annars væru kannski næstum eintóm græn föt í fataskápnum mínum. Eins gott líka að það er ekkert voðalega mikið úrval af fagurgrænum fötum í mínu númer – allavega ekki hér á Íslandi, Landi hinna svartklæddu kvenna. En ég á nú nóg af litríkum fötum fyrir því – einu svörtu flíkurnar sem ég á til í eigu minni eru leggings.
En ég er líka mikið fyrir liti í mat, það sést held ég víða og ekki bara í bókinni minni, Létt og litríkt. Og það gildir reyndar ekki bara um matinn, stundum sést það í umhverfi hans á myndunum líka. Reyndar ekki svo mjög í diskunum, þeir eru oftast hvítir eða hlutlausir, það er langeinfaldast (munið þið tímabilið kringum 1990 þegar næstum allur matur var myndaður á skræpóttum eða sterkmynstruðum diskum svo að stundum var maður ekki viss hvar maturinn endaði og diskurinn tók við. En ég nota stundum litsterka bakgrunna. Til dæmis hér; þetta eru myndir sem eru teknar að vorlagi og ég vildi sýna það rækilega …
Myndirnar sem sýna undirbúning og eldun virðast hafa farið forgörðum þegar harði diskurinn minn hrundi svo að myndir af tilbúnum réttinum verða að duga.
Uppskriftin er ættuð frá Perú. Eða sósan er það allavega.
Hér er notaður heill kjúklingur, um 1,6 kg, og hann þarf að marínera í nokkra klukkutíma eða allt að sólarhring. Ég reif börkinn af tveimur límónum í skál og kreisti safann úr þeim yfir. Pressaði svo 3-4 hvítlauksgeira og setti út í, ásamt 4 msk af ólífuolíu, 2 tsk af paprikudufti (ég var með reykta papriku og það er betra en ekki nauðsynlegt), 2 tsk af kummini og 1 tsk af þurrkuðu óreganói, ásamt salti og pipar, og hrærði þetta vel saman.
Svo losaði ég haminn frá kjúklingnum á bringunni og út á lærin, án þess að rífa hann, með því að stinga hendinni inn undir haminn. Setti u.þ.b. helminginn af kryddleginum undir haminn og setti svo kjúklinginn í eldfast mót og dreifði afganginum af maríneringunni yfir. Breiddi plastfilmu yfir og setti kjúklinginn í kæli.
Daginn eftir hitaði ég svo ofninn í 230°C og steikti kjúklinginn í um hálftíma. Lækkaði svo hitann í 180°C og steikti kjúklinginn áfram í um 40 mínútur. Einnig má grilla kjúklinginn og þá er byrjað á að hita grillið vel og hafa það lokað á meðan. Svo er slökkt á einum/öðrum brennaranum, kjúklingurinn settur þar sem enginn eldur er undir, grillinu lokað og kjúklingurinn grillaður við meðalhita í u.þ.b. 1 klst. og 15 mínútur, eða þar til hann er steiktur í gegn. Tíminn getur verið nokkuð misjafn eftir aðstæðum en best er að opna grillið sem minnst.
Á meðan kjúklingurinn mallaði gerði ég sósuna, sem er nokkuð krassandi. Tók 2-3 chilialdin, helst jalapeno – ég lét fræin vera í þeim en ef maður vill mildari sósu má fræhreinsa þau. Setti þau í blandara eða matvinnsluvél ásamt einu og hálfu knippi af kóríanderlaufi og 2-3 hvítlauksgeirum og maukaði þau. Bætti við 100 g af majónesi (ég var með heimagert en það má alveg nota Gunnars), 4 msk af sýrðum rjóma, safa úr 1 límónu, pipar og salti og lét vélina ganga þar til komin var slétt sósa. Þeytti að lokum 2 msk af ólífuolíu saman við.
Jú, þetta er nokkuð grænt.
*
Grillaður Perú-kjúklingur með grænni sósu
1 kjúklingur, um 1,6 kg
2 límónur
3-4 hvítlauksgeirar
4 msk ólífuolía
2 tsk paprikuduft, gjarna reykt
2 tsk kummin
1 tsk óreganó, þurrkað
salt og pipar
*
Græn Perúsósa
2-3 chilialdin, helst jalapeno
1 1/2 knippi kóríanderlauf
2-3 hvítlauksgeirar
100 g majónes
4 msk sýrður rjómi
safi úr 1 límónu
salt og pipar
2 msk ólífuolía