Hún á afmæli í dag …

Þegar maður á afmæli er afmælisterta. Og ég á afmæli í dag – er reyndar búin að eiga afskaplega góðan afmælisdag – svo að það er terta. Þótt ég borði hana ekki sjálf, því að það er sykur í henni – en mér var sagt að hún væri mjög góð. Nei, hún var reyndar ekki á boðstólum í dag, ég fékk osta og afmælissöng í vinnunni og svo fékk ég nokkur gömul bekkjarsystkini (ég meina, þau eru nú ekkert svooo gömul en þau voru bekkjarsystkini mín fyrir óralöngu) í kvöldmat og það var einstaklega skemmtilegt og ljúft. En ég gaf þeim enga tertu, þessi var á boðstólum í haust. Þannig að í dag er þetta svona sýndarveruleikaafmælisterta.

Í henni eru fjórir botnar og það er langbest að baka þá hvern fyrir sig; auðvitað má baka tvo þykka botna og kljúfa þá en hætt er við að þeir molni of mikið. Deigið þolir ekki að bíða mjög lengi og mér finnst best að gera það í tveimur skömmtum og baka tvo botna í einu. En bökunartíminn er þó svo stuttur að ef maður á ekki tvö jafnstór form ætti að vera í lagi að gera hálfan skammt af deiginu, baka í tvennu lagi og endurtaka þetta svo. Svolítil fyrirhöfn en borgar sig alveg.

IMG_2865

Ég byrjaði á að hita ofninn í 160°C. Svo smurði ég tvö jafnstór smelluform og klæddi botninn með bökunarpappír. Þar sem ég á tvö slík form gerði ég allt deigið í einu; setti 300 g af hveiti, 400 g af sykri (nei, þetta er ekki fyrir mig, sko), 80 g af kakódufti, 2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk af salti, 2 egg, 230 g af matarolíu, 250 ml af súrmjólk og 2 tsk af vanilludropum í skál og hrærði saman – ekki of mikið, bara eins og þarf til að þetta blandaðist.

Svo hitaði ég 200 ml af vatni næstum að suðu, hrærði því saman við deigið, hellti helmingnum af því í formin tvö (en geymdi hitt) og bakaði botnana á neðstu rim í 15–18 mínútur, eða þar til þeir voru svampkenndir. Ég tók svo botnana út, hvolfdi þeim á grind, setti nýjan bökunarpappír í formin og bakaði hina botnana á sama hátt.

IMG_2928

Þá var komið að kreminu. Ég hrærði saman 400 g af Nutella, 250 g af linu smjöri, 300 g af flórsykri og 1 tsk af vanilludropum og tók svolítið af kreminu frá til að skreyta.

Þegar botnarnir voru orðnir kaldir setti ég einn þeirra á grind, smurði fjórðungi af kreminu á hann, lagði annan botn ofan á og þannig áfram. Ég smurði líka kremi yfir efsta botninn.IMG_2934

 

Svo braut ég 150 g af suðusúkkulaði í bita, setti það í skál ásamt 4 msk af rjóma og bræddi það í vatnsbaði. Hrærði stöðugt á meðan og tók þetta af hitanum um leið og súkkulaðið var bráðið.

IMG_2958

Ég lét súkkulaðið kólna ögn og hellti því svo yfir kökuna – fyrst yfir barmana svo að bráðin lak dálítið niður eftir hliðunum. Skreytti með Nutellakreminu sem ég hafði tekið frá og kældi kökuna.

nutella-súkkulaðikaka

*

 

Nutella-súkkulaðikaka

Botnar – tölurnar í svigunum eru fyrir þá sem gera deigið í tvennu lagi:

300 g (150+150) hveiti

400 g (200+200) sykur

80 g (40+40) kakóduft

2 tsk (1+1) matarsódi

1/2 tsk (1/4+1/4) salt

2 (1+1) egg

230 ml (115+115) matarolía

250 ml (125+125) súrmjólk

2 tsk (1+1) vanilludropar

200 ml 1(100+100) sjóðheitt vatn

*

Nutella-krem:

400 g Nutella

250 g lint smjör

300 g flórsykur

1 tsk vanilludropar

Ofan á:

150 g suðusúkkulaði

4 msk rjómi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s