Hér kemur uppskrift að bragðgóðri grænmetissúpu, reyndar er hún vegan; þetta er sannkölluð hollustusúpa sem hentar öllum – og túrmerik er jú sagt vera býsna heilsusamlegt, reyndar eru sumar fullyrðingar um hollustu þess svo afdráttarlausar að maður undrast mest að Indverjar skuli ekki allir ná að minnsta kosti hundrað ára aldri.
Súpan sjálf er bragðmild en svo getur hver kryddað eftir sínum smekk með því að strá kryddristuðum kjúklingabaunum yfir. Baunirnar má reyndar líka nota sem snakk.
Ég byrjaði á að kryddrista kjúklingabaunir (ég tók örugglega mynd en finn hana ekki; þessi mynd er af öðrum skammti af ristuðum kjúklingabaunum sem voru gerðar á sama hátt en kannski aðeins öðruvísi kryddaðar). Ég hitaði ofninn í 200°C. Opnaði svo eina dós af kjúklingabaunum og hellti leginum af þeim. Blandaði saman í skál 2 msk af ólífuolíu, 1 1/2 tsk af paprikudufti, 1 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti og dálitlum pipar og salti. Svo velti ég baununum upp úr blöndunni, helltu öllu saman á pappírsklædda bökunarplötu og ristaðu baunirnar í 30–40 mínútur, eða þar til þær voru hálfþurrar og stökkar. Hrærði í þeim einu sinni eða tvisvar.
Á meðan baunirnar voru í ofninum gerði ég súpuna. Byrjaði á að taka einn blómkálshaus, um 600 g, skar burt stilkinn og skipti blómkálinu í kvisti. Flysjaði 200 g af gulrótum og skar þær í bita. Saxaði líka tvo sellerístöngla og einn lauk. Svo hitaði ég 2 msk af olíu í potti og lét lauk, gulrætur og sellerí krauma við fremur vægan hita í nokkrar mínútur.
Þá bætti ég blómkálinu og 100 g af kasjúhnetum út í og síðan kryddinu; 2 tsk af túrmeriki, 1 tsk af karrídufti og salti eftir smekk. Hrærði, lét krauma í 2–3 mínútur og hellti svo 1 l af sjóðandi vatni í pottinn.
Bætti við 2 msk af grænmetiskrafti og láttu malla í 20–25 mínútur í opnum potti, eða þar til allt grænmetið var orðið vel meyrt.
Þá maukaði ég súpuna vel í matvinnsluvél eða með töfrasprota, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum. Það má bæta við meira vatni ef þarf en súpan á að vera þykk. Ég dreifði svo nokkrum baunum yfir og bar afganginn af baununum fram með.
Túrmerik-blómkálssúpa með ristuðum kjúklingabaunum
600 g blómkál
200 g gulrætur
2 sellerístönglar
1 laukur
2 msk olía
100 g kasjúhnetur
2 tsk túrmerik
1 tsk karríduft
salt
1 l vatn, og meira eftir þörfum
1 msk grænmetiskraftur
*
Kryddristaðar kjúklingabaunir
1 dós kjúklingabaunir
2 msk ólífuolía
1 1/2 tsk paprikuduft
1 tsk kummin
1 tsk kóríanderduft
pipar og salt