Rautt og grænt (samt meira grænt)

Það er nú varla hægt að segja að það sé neitt farið að vora enn þótt rabarabarinn sem ég rækta í potti á svölunum sé farinn að gægjast upp úr moldinni og stöku runni sem ég sá á heimleiðinni sé að búa sig undir að laufgast í einhverju bjartsýniskasti.

En hvað sem því líður ætla ég að koma hér með uppskrift að salati sem mér finnst dálítið vorlegt. Kannski eru það bara litirnir. Ég hef alltaf tengt radísur við vorið og það gildir enn um þær sem ég kaupi – eins og þessar hér – en eftir að ég fór að rækta marglitar radísur í fyrra á svölunum eru þær orðnar eitt af því sem ég hlakka til að borða í sumar, eiginlega beint upp úr moldinni, eins og þessar hér:

_MG_1891.jpg

Þær voru alveg ótrúlega góðar, nýuppteknar með smjöri og salti. En  núna verð ég að láta radísur úr búðinni duga.

Salatið getur alveg verið létt máltíð með góðu brauði en ég hugsaði það samt frekar sem meðlæti, til dæmis með fiski eða kjúklingi.

Ég var með 100 g af radísum sem ég skar í þunnar sneiðar. Svo tók ég 100 g af spergilkáli og skipti því í litla kvisti. Hitaði saltvatn í potti, setti spergilkálið út í og sauð það í um 3 mínútur.

Þá setti ég 250 g af frosnum grænum baunum út í, lét suðuna koma upp aftur og sauð þetta í tvær mínútur í viðbót. Hellti svo öllu úr pottinum í sigt og lét kalt vatn buna á grænmetið til að stöðva suðuna. Lét renna af því í sigti og hvolfdi því svo í skál.

_MG_9171

Svo hristi ég (eða þeytti) saman 3 msk af ólífuolíu, 2 msk af sítrónusafa, 1/2 tsk af dijonsinnepi, pipar og salt í nokkuð stórri skál. Tók svo lófafylli af basilíku og litla lófafylli af mintulaufi (má sleppa), grófsaxaði þetta og blandaði saman við.

_MG_9173

Ég blandaði svo radísum, baunum og spergikáli saman við salatsósuna í skálinni. Tók svo 100 g af spínati (eða grænum salatblöðum), grófsaxaði og blandaði saman við.

Radísu- og baunasalat (4)

Og þá er þetta frísklega og ágæta salat bara tilbúið.

Radísu- og baunasalat (5)

 

Radísu- og baunasalat

100 g radísur

100 g spergilkál

salt

250 g grænar baunir, frosnar

100 g spínat (einnig má nota salatblöð)

*

Salatsósa:

3 msk ólífuolía

2 msk sítrónusafi

1/2 tsk dijonsinnep

pipar

lófafylli af basilíku

lítil lófafylli af mintulaufi (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s