Klaufabárðurinn

Sjáið þetta fyrir ykkur: Þéttvaxin kona á sjötugsaldri hefur prílað upp á stólkoll til að geta tekið mynd beint niður á matardisk sem hefur verið settur á borðdúk sem breiddur er á stofugólfið, út við glugga til að ná birtunni. Konan tekur nokkrar myndir og ákveður svo að skipta um bakgrunn og setja stóran bakka undir diskinn í staðinn fyrir dúkinn. Stígur aftur á bak út af kollinum og með hælinn beint á téðan bakka, sem liggur á gólfinu. Konan missir jafnvægið, grípur ósjálfrátt í þrífótinn sem myndavélin er á og dettur aftur fyrir sig með þrífót og myndavél, beint á lítið borð sem brotnar. Roskna þéttvaxna konan liggur afvelta í brakinu með þrífót og myndavél í fanginu. Fullvissar sig um að bæði hún og myndavélin hafi sloppið óbrotnar og fær að því búnu nærri óstöðvandi hláturskast. Bröltir samt á fætur og klárar myndatökuna af því að maturinn má ekki kólna svo mikið að það sjáist á myndunum.

Það eru kostir og ókostir við að vinna alltaf ein og taka myndirnar sínar sjálf. Einn af ókostunum er að það er enginn til að hlæja með manni þegar eitthvað svona gerist. (Og jújú, auðvitað enginn til að koma til bjargar ef ég hefði nú rotast eða fótbrotnað eða eitthvað.)

En það eina sem gerðist í þessu óhappi var að ég missti borðið, sem ég hef notað afskaplega mikið við myndatökur árum saman og sést reyndar á mörgum myndum hér á blogginu og í bókunum mínum (en reyndar missti ég það nú ekki alveg því borðplatan er heil og ég get notað hana áfram sem bakgrunn). Myndirnar hér á eftir eru til dæmis teknar á því þótt það sjáist alls ekki (það er dúkur á borðinu) en hæðin og stærðin var bara svo hentug … Ætli ég verði ekki að fara að leita mér að nýju borði bráðlega.

En jæja, hér er uppskrift. Þetta eru kjúklingavængir með kókos, gómsætir vængir sem lítið mál er að útbúa. Það er ídýfa með þeim og þeir eru fínir fyrir partí eða kósíkvöld en það má líka hafa þá í kvöldmatinn.

Ég byrjaði á að taka 12 kjúklingavængi og höggva þá sundur á liðamótum. Ef vængendarnir fylgja með eru þeir ekki notaðir en það má frysta þá og nota seinna til að gera kjúklingasoð. Ég setti svo 200 ml af kókosmjólk, safa úr 1 límónu, litla lófafylli af söxuðu kóríanderlaufi og dálítið salt í skál og hrærði saman, setti vængina út í, blandaði vel og lét standa í a.m.k. 1 klst. (má líka vera yfir nótt).

Svo hitaði ég ofninn í 210°C. Blandaði saman 100 g af kókosmjöli (best að það sé fremur gróft), 60 g af gulu maísmjöli (það má líka nota hveiti en ef notað er maísmjöl er þetta glútenlaust, ef það skiptir máli), 2 tsk af chilidufti, 1 1/2 tsk af paprikudufti (gjarna reyktu en ekki skilyrði), cayennepipar á hnífsoddi og dálitlu salti saman á diski.

IMG_3801Svo tók ég vængina úr kókosmjólkinni, velti þeim vel upp úr blöndunni …

IMG_3802

… og raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu. Bakaði þá í miðjum ofni í um 15 mínútur.

IMG_3840

Þá tók ég plötuna út, sneri vængjunum við og bakaði þá í um 15 mínútur í viðbót. Á meðan bjó ég til ananas-chili-jógúrtsósu: Ég setti 200 ml af grískri jógúrt, 50-100 ml af sterkri tómat-chilisósu, 100 ml ananas-chilisósu úr flösku (í staðinn fyrir hana mætti t.d. nota kurlaðan ananas úr dós og meiri tómat-chilisósu), lófafylli af söxuðu kóríanderlaufi, pipar og salt í skál, hrærði vel saman, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.

IMG_3927

Svo er bara að bera vængina fram volga eða við stofuhita, með ananas-chili-jógúrtsósu.

*

Kókos-kjúklingavængir

12 kjúklingavængir

200 ml kókosmjólk

safi úr 1 límónu

lítil lófafylli af kóríanderlaufi

svolítið salt

100 g kókosmjöl, helst fremur gróft

60 g maísmjöl (gult) eða hveiti

2 tsk chiliduft (ekki chilipipar)

1 1/2 tsk paprikuduft, gjarna reykt

cayennepipar á hnífsoddi (eða eftir smekk)

*

Ananas-chili-jógúrtsósa

200 ml grísk jógúrt

100 ml ananas-chilisósa úr flösku

50-10 ml sterkt tómat-chilisósa

lófafylli af kóríanderlaufi

pipar og salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s