Það er svolítið vor í lofti – hvort sem verður nú eitthvað úr því eða ekki – og mér datt í hug salat sem ég gerði upphaflega til að taka með sem nesti, t.d. í sumarbústaðinn; það er upplagt að útbúa það heima, það þolir ágætlega að geymast til næsta dags og gott ef það batnar ekki bara.
Þetta er kartöflusalat sem getur sem best verið máltíð í sjálfu sér en líka meðlæti með ýmsum réttum. Sleppa má chorizopylsunni til að gera salatið vegan og krydda þá salatið meira í staðinn. Í staðinn fyrir edamamebaunir má nota t.d. strengjabaunir og þá er nóg að skera þær í bita í stað þess að taka baunirnar úr belgjunum.
Ég byrjaði á að láta baunirnar (200 g) þiðna og losaði þær svo úr belgjunum og setti í skál. Svo sauð ég 600-700 g af kartöflum þar til þær voru meyrar. Lét þær kólna í fáeinar mínútur og flysjaði þær svo og skar í stóra bita. Blandaði saman 3 msk af olíu, 1 1/2 msk af hvítvínsediki, 1 tsk af dijonsinnepi, pipar og salti saman í stórri skál og setti svo heitar kartöflurnar út í og velti þeim vel upp úr edikssósunni.
Svo tók ég 100 g af chorizopylsu, skar hananiður og saxaði líka 2-3 vorlauka. Setti pylsuna á pönnu og hitaði þar til fitan fór að bráðna úr henni.
Þá bætti ég vorlauknum og edamamebaununum á pönnuna og steikti í 3-4 mínútur; hrærði oft á meðan.
Ég hellti svo pylsunum, lauknum og baununum yfir kartöflurnar, setti 100 g af blönduðum salatblöðum út í og blandaði öllu vel saman.
*
Kartöflusalat með chorizo og baunum
200 g edamamebaunir
600-700 g kartöflur
3 msk olía
1 1/2 msk hvítvínsedik
1 tsk dijonsinnep
pipar og salt
100 g chorizopylsa eða önnur kryddpylsa
2-3 vorlaukar
100 g blönduð salatblöð