Hnúðfranskar

Hnúðkál er rótargrænmeti sem minnir á rófu en hýðið, sem er yfirleitt ljósgrænt eða fjólublátt, er þykkt og trefjakennt og skiptist eiginlega í tvö lög – ég nota flysjunarjárn og flysja fyrst allt ytra lagið af og svo það innra. Þar fyrir innan er grænmetið ljóst og áferðin og þéttleikinn minnir helst á spergilkálsstöngul eða jafnvel epli. Bragðið er milt.

IMG_7860

Hnúðkál er hægt að borða hrátt, e.t.v. þunnt sneitt eða rifið í salati, en líka matreiða það eins og gulrófur, sjóða eða gera úr því stöppu, en það má líka skera það í bita eða sneiðar og baka í ofni og nota það í pottrétti og súpur. Svo er líka hægt að gera nokkurs konar “franskar” úr því, annaðhvort ofnbakaðar eða pönnusteiktar eins og hér:

IMG_7874

Ég var með meðalstóran hnúðkálshaus (þetta er skammtur fyrir einn eða tvo), flysjaði hann og skar toppinn af. Svo skar ég hnúðkálið í stauta, um 1 cm á kant.

IMG_7898

Blandaði saman 2 msk af semólínamjöli (eða öðru mjöli ), 1/2 tsk af paprikudufti, 1/4 tsk af hvítlaufsdufti og smáklípu af cayennepipar, ásamt salti, á diski og velti stautunum upp úr blöndunni. Hitaði svo 3 msk af olíu á pönnu og setti stautana á hana. Steikti þá í um 3 mínútur við meðalhita. Þá sneri ég þeim með töng (eða tveimur göfflum) og steikti þá í um 3 mínútur í viðbót, eða þar til þeir voru meyrir í gegn en þó ekki linir.

IMG_7940

Ég lét renna aðeins af þeim á eldhúspappir og bar þá fram, eina sér með ídýfu eða sem meðlæti með ýmsum réttum.

Það er líka hægt að skera hnúðkálið í sneiðar og steikja á sama hátt eða raða sneiðum eða stautum sem velt hefur verið upp úr kryddi á pappírsklædda bökunarplötu, dreypa dálítilli olíu yfir og baka þar til hnúðkálið er nærri meyrt

*

Hnúðkálsfranskar

1 hnúðkálshaus, meðalstór

2 msk semólína, gróft maísmjöl eða möndlumjöl

krydd eftir smekk, t.d. paprikuduft, cayennepipar og hvítlauksduft

salt

3 msk olía, eða eftir þörfum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s