Allt í einu komst ég í skap fyrir eitthvað indverskt. Það verður samt að bíða því ég er búin að borða kvöldmat, sem var allt annað en indverskur. En hér er samt uppskrift svona upp á seinni tíma. Til dæmis í rigningunni sem spáð er næstu dagana.
Þetta er matarmikil og krassandi súpa sem hentar vel fyrir grænkera – það er að segja, ef maður setur ekki sýrðan rjóma eða jógúrt út í hana þegar hún er borin fram, eins og ég gerði reyndar. En það má alltsvo alveg sleppa því.
Nota má ýmsar tegundir af baunum, ég var með eina dós af blönduðum baunum og eina af svörtum – og svo er auðvitað líka hægt að sjóða þurrkaðar baunir. En súpan er einföld og fljótlöguð, séu notaðar dósabaunir.
Ég byrjaði á að hita 2 msk af olíu í potti. Saxaði einn lauk og saxaði 3-4 hvítlauksgeira, 3 cm bita af engifer og eitt (eða tvö) fræhreinsuð rauð chilialdin smátt, setti þetta í pottinn og lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur án þess að brúnast.
Þá stráði ég 1 tsk af kóríanderdufti, 1 tsk af kummini, 1/2 tsk af túrmerkiki, 1/2 tsk af kanel, nýmöluðum svörtum pipar og dálitlu salti yfir, hrærði og lét krauma í 2–3 mínútur, þar til allt var farið að ilma.
Þá hellti ég einni dós af söxuðum tómötum út í og hrærði vel. Opnaði tvær dósir af niðursoðnum baunum (ég var semsagt með blandaðar baunir og svartar baunir) í sigti, lét renna af þeim og setti þær út í pottinn, ásamt hálfum lítra af vatni. Hitaði að suðu og lét malla rólega í 10–15 mínútur.
Þá smakkaði ég súpuna og bragðbætti hana eftir þörfum. Bar hana svo fram með söxuðum vorlauk til að strá yfir – mætti líka vera t.d. kóríanderlauf – og svo hafði ég sýrðan rjóma, en það má sleppa því. Og svo bara gott brauð með.
Indversk tómat-baunasúpa með chili
2 msk olía
1 laukur, saxaður
3–4 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
3 cm biti af engifer, saxaður smátt
1–2 rauð chilialdin, fræhreinsuð og söxuð
1 tsk kóríanderduft
1 tsk kummin (cumin)
1/2 tsk túrmerik
1/2 tsk kanill
nýmalaður svartur pipar
salt
1 dós saxaðir tómatar
2 dósir niðursoðnar baunir, t.d. rauðar eða svartar nýrnabaunir, eða blandaðar
1/2 l vatn, eða eftir þörfum
vorlaukur (grænu blöðin) eða kóríanderlauf
e.t.v. sýrður rjómi eða hrein jógúrt