Það má segja margt og misjafnt um kínóa. Flestir eru þó sammála um að það sé býsna hollt, hvort sem það er einhvers konar „ofurfæða“ eða ekki. En það er prótein- og trefjaríkt og inniheldur ýmis hollefni og bætiefni, glútenlaust ef maður er í þeim pakkanum og svo er það tiltölulega auðeldað. Og getur verið alveg ljómandi gott. Það sem helst hafa verið gerðar athugasemdir við er að vinsældir þess á Vesturlöndum á síðustu árum hafa meðal annars orðið til þess að verðið á heimamarkaði hefur hækkað svo mikið að fátæka fólkið í Perú sem áður lifði meira og minna á kínóa hefur ekki lengur efni á að kaupa það.
Kínóa er harðgerð jurt sem vex aðallega uppi í Andesfjöllum, þar sem ekkert korn þrífst (kínóa er ekki eiginleg korntegund þótt það sé nýtt sem slíkt) og það er orðið ansi langt síðan menn létu sér fyrst detta í hug að það mætti kannski rækta það hérlendis. Fyrst var þetta nefnt í blaði árið 1868:
Ekkert varð þó af ræktun á 19. öld en árið 1931 komst Ólafur Friðriksson ritstjóri yfir dálítið af korni:
Einhverjir fengu fræ hjá Ólafi og reyndu ræktun, sem bar þó ekki mikinn árangur. Einhverjar tilraunir hafa þó verið gerðar síðan og svo var tilraunaræktun á Hvanneyri í fyrra; ég veit ekki hvernig hún gekk en kannski kemur einhvern tíma íslenskt kínóa. Það sem ég notaði í þessari uppskrift var þó innflutt. Þetta er salat sem er náttúrlega beinhörð hollusta og stútfullt af ofurfæðu:
Ég byrjaði á að setja 175 g af kínóakorni í fínt sigti og skolaði það vel undir köldu, rennandi vatni. Setti það svo í pott ásamt 350 ml af vatni og sauð það í um 15 mínútur, eða þar til kínóað var meyrt og vatnið gufað upp að mestu. Ég hrærði upp í því með gaffli, kryddaði með pipar og salti og lét gufuna rjúka úr því.
Á meðan ristaði ég 50 g af möndlum á þurri pönnu í nokkrar mínútur, þar til þær voru farnar að taka lit. Þá hellti ég þeim á disk, lét þær kólna og saxaði þær svo gróft.
Ég saxaði 4-5 vorlauka og 1-2 sellerístöngla. Flysjaði svo eitt epli og eina peru, skar ávextina í bita og velti þeim upp úr safa sem ég kreisti úr hálfri sítrónu. Svo hitaði ég 2 msk af ólífuolíu á pönnu og lét vorlauk og sellerí krauma í nokkrar mínútur. Setti svo epli, peru og trönuber á pönnuna og lét krauma áfram við vægan hita í nokkrar mínútur. Lét þetta svo hálfkólna.
Svo blandaði ég möndlunum og 40 g af þurrkuðum trönuberjum saman við og blandaði þessu síðan saman við volgt kínóakornið í stórri skál. Að lokum blandaði ég 50 g af klettasalati saman við.
Og endaði svo á að blanda vænni lófafylli af bláberjum saman við – en það má alveg sleppa því. Salatið er ágætt þótt þau vanti en verður bara enn betra …
Salatið má bera fram volgt eða kalt.
*
Kínóasalat með eplum og berjum
175 g kínóa
350 ml vatn
pipar og salt
50 g möndlur, heilar en án hýðis
4-5 vorlaukar
1-2 sellerístönglar
1 epli
1 pera
safi úr 1/2-1 sítrónu
2 msk ólífuolía
40 g þurrkuð trönuber
50 g klettasalat
lófafylli af bláberjum (má sleppa)