Og nú eru það pönnukökur. Ég held – en ætla nú kannski ekki að slá því alveg föstu – að þetta séu frekar hollar pönnukökur, svona af pönnukökum að vera … En nei, þetta eru heldur engar rjómapönnukökur sko. Spínat, heilhveiti, ólífuolía, og það má nota möndlumjólk ef maður er þannig stemmdur. Ég er það ekki en ég prófaði það og það virkaði alveg.
Ég gerði þær upphaflega fyrir pönnuköku-, vöfflu- og lummuþátt sem ég var með í MAN í fyrra og var svo ánægð með þær (og fannst þær taka sig svo vel út á mynd) að ég gerði þær aftur fyrir bókina mína, Pottur, panna og Nanna, enda steikti ég þær á steypujárnspönnu (en það má alveg nota venjulega pönnukökupönnu). Myndirnar hér á eftir eru blanda af báðum útgáfunum; pönnukökuuppskriftin var sú sama þótt svolítill munur væri á textanum og fyllingin reyndar líka, nema hvað ég var með fetaost í annarri útgáfunni.
Myndirnar af undirbúningnum eru í portrettformati af því að þær voru teknar fyrir bókina og ég minnkaði þær þess vegna verulega svo að þær yrðu ekki risastórar.
Ég byrjaði á að setja 3 egg, 3 msk af ólífuolíu, ¼ tsk af pipar og ½ tsk af salti í matvinnsluvél (eða blandara) og þeyta saman. Svo setti ég 100 g af spínati út í og maukaði vel saman.
Síðan þeytti ég hálfum lítra af mjólk (eða möndlumjólk) saman við og þegar blandan var orðin alveg slétt bætti ég við 200 g af heilhveiti og ½ tsk af lyftidufti. Ég bar svo örlitla ólífuolíu á pönnu (t.d. með eldhúsrúllublaði) og steikti eina pönnuköku til prufu. Það má bæta við svolítilli mjólk eða vatni ef soppan er of þykk, meira heilhveiti ef hún er of þunn.
Ég steikti svo frekar þunnar pönnukökur úr soppunni eins og hún entist til og strauk pönnuna með örlítilli olíu á milli. Ég sneri pönnukökunum ekki við, heldur steikti þær aðeins á annarri hliðinni, þar til yfirborðið var orðið þurrt, og notaði spaða til að renna þeim yfir á vinnuborð.
Berðu pönnukökurnar t.d. fram með salatblöðum, maís, grænum baunum eða sykurbaunum, grófsaxaðri steinselju og sítrónubátum.
Svo má líka mylja fetaost yfir. Eða nota einhverja allt aðra fyllingu …
*
Spínatpönnukökur
100 g spínat
3 egg
3 msk ólífuolía, og meira til steikingar
½ tsk salt
¼ tsk pipar
½ l mjólk (eða möndlumjólk)
200 g heilhveiti
½ tsk lyftiduft
*
salatblanda
grænar baunir eða sykurbaunir
maískorn
steinselja
sítrónubátar
e.t.v. fetaostur
[…] ég gerði fyrir MAN – ég hef áður birt uppskriftir úr þessum þætti, hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér – ég held að þetta sé sú seinasta en er ekki alveg […]