Tex-Mex í London á heimleið frá Kýpur

Æ, það er nú líklega kominn tími á kjötrétt eftir allan þennan fisk og grænmeti (en ég tók reyndar góða skorpu í lambakjöti í haust svo að ég er hreint ekki hætt með rautt kjöt. Neinei. Bara búin að minnka það töluvert …

Þegar ég var í London milli jóla og nýárs, á heimleið frá Kýpur, þá fór ég meðal annars í bókabúð og fletti nokkrum matarblöðum eins og ég geri reyndar yfirleitt þegar ég er einhvers staðar erlendis – líka þegar ég skil ekki orð í tungumálinu þar sem ég er. Reyndar gerði ég þetta ekki á Kýpur en það var nú bara af því að engin bókabúð varð þar á vegi mínum, hvorki í Norður- né Suður-Nikósíu né heldur í Famagusta, þar sem ég eyddi aðfangadegi og jólanótt. Þær eru þar örugglega en ég var svosem ekki að leita sérstaklega að þeim. En ég rakst þó á matreiðslubókaborð á markaði í Norður-Nikósíu (tyrkneska hlutanum); bækurnar voru flestar á tyrknesku en ég keypti bók á ensku með norður-kýpverskum réttum. Ef þið flettið nýjasta tölublaði MAN getið þið séð mínar útfærslur á nokkrum réttum úr þeirri bók því að þemað hjá mér þar er norður-kýpversk matargerð, einkum meze-réttir.

En þetta var útúrdúr. Í London greip ég meðal annars blað sem ég man ekki í svipinn hvað heitir en fæst ekki hér, af því að forsíðurétturinn vakti athygli mína. Ég las uppskriftina og lagði ýmislegt á minnið en keypti ekki blaðið (var með of mikinn farangur og átti eftir að kaupa eitt og annað matarkyns til að taka með heim). En þegar ég var nýkomin heim og byrjaði að undirbúa febrúarblað MAN, þar sem ég ákvað að vera með þemað vetrarmatur (pottréttir og súpur), þá mundi ég eftir þessum chili con carne-rétti og fannst hann eiga vel við á vetrardegi. Svo að ég ákvað að gera hann eftir minni og eigin smekk. Það kom alveg ljómandi vel út.

Ég notaði 750 g af nautahakki sem ég keypti í kjötborði. Flestir pakkar eru líklega 600 g og maður sleppur alveg með það fyrir fjóra. Hitt ætti að duga fyrir fimm.

Ég byrjaði á að saxa 2 lauka og 4-5 hvítlauksgeira. Svo hitaði ég 2 msk af olíu á stórri, þykkbotna pönnu sem má fara í ofn (steypujárnspönnu náttúrlega; annars má líka hella chili-inu í eldfast mót áður en það fer í ofninn) og lét lauk og hvítlauk krauma í nokkrar mínútur. Þá bætti ég  hakkinu  á pönnuna ásamt 2 tsk af paprikudufti, 1 1/2 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1 tsk af chilikryddblöndu, 1 tsk af þurrkuðu timjan og 1/4 tsk af cayennepipar (eða eftir smekk) og lét krauma áfram þar til hakkið hafði allt tekið lit; hrærði oft í á meðan.

IMG_6816

Svo opnaði ég tvær dósir af baunum (ég var með blandaðar baunir, það mætti líka nota t.d. rauðar nýrnabaunir) og tvær dósir af söxuðum tómötum og bætti þessu á pönnuna, ásamt 400 ml af vatni, kryddaði með pipar og salti og lét malla rólega í 25–30 mínútur. Hrærði öðru hverju og bættu við svolitlu vatni ef þarf. Á meðan þetta mallaði hitaði ég ofninn í 220°C.

IMG_6818

En þá voru það maísbrauðbollurnar: Ég blandaði saman 250 g af hveiti,  80 g af maísmjöli (gulu), 2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti. Svo reif ég 100 g af cheddarosti og blandaði honum saman við.

Svo braut ég eitt egg út í og hrærði það saman við og síðan mjólk eftir þörfum (u.þ.b. 150 ml), þar til hægt var að hnoða deigið.

IMG_6821

Ég mótaði úr því litlar bollur, um 20 stykki. (Á myndunum hér á eftir eru þær aðeins stærri og færri en ég gerði réttinn tvisvar til að fínpússa uppskriftina og komst að þeirri niðurstöðu að það væri betra að hafa þær aðeins fleiri og minni.)

IMG_6824

En ég tók semsagt pönnuna af hitanum, raðaði bollunum ofan á kássuna og setti pönnuna í ofninn í 12–15 mínútur (við 220°C) …

Chili með maísbollum

… eða þar til bollurnar voru bakaðar og höfðu tekið góðan lit. Skreytt með kóríanderlaufi eða öðrum kryddjurtum (t.d. timjani) og bar fram á pönnunni.

Chili með maísbollum (9)

 

 

*

Chili con carne með maísbrauðbollum

750 g nautahakk

2 laukar

4–5 hvítlauksgeirar

2 msk olía

2 tsk paprikuduft

1 1/2 tsk kummin

1 tsk kóríanderduft

1 tsk chilikrydd (ekki chilipipar)

1 tsk timjan, þurrkað

1/4 tsk cayennepipar, eða eftir smekk

2 dósir blandaðar baunir eða nýrnabaunir

2 dósir saxaðir tómatar

400 ml vatn (meira ef þarf)

pipar og salt

*

Maísbrauðbollur

250 g hveiti

80 g maísmjöl (gult)

2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

100 g cheddarostur

1 egg

150 ml mjólk, eða eftir þörfum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s