Í sumar-gluggaskapi

Kannski er það vegna þess að það var svo fallegt gluggaveður í dag (ætli hugtakið gluggaveður sé annars til á einhverju öðru máli en íslensku) – já, og ég var reyndar meira og minna með opið út á svalir þótt ég sæti þar nú ekki – en ég ákvað að setja hér inn dálítið sumarlega uppskrift. Eða þetta er allavega eitthvað sem ég var að útbúa og mynda í fyrrasumar, líklega í júlíbyrjun. Og myndaði úti á svölum. Ég tók nokkrar matarmyndir í dag en ekki út á svölum, það hefði nú verið fullbjartsýnt (og svo var allt of mikil sól þar).

Vonandi fáum við nú gott sumar með mörgum tækifærum til að elda og borða (og taka myndir) á svölunum en það er víst allt of snemmt að hugsa um það – en hér er allavega uppskriftin.

Þetta er semsagt kjúklinga-satay-salat og hér blandaði ég saman fersku grænmeti og kryddaðri hnetu-chilisósu ættaðri úr Asíu, ásamt kjúklingabitum – en þeim má líka sleppa og hafa þetta hreint grænmetissalat, það er ágætt líka. Uppskriftin er miðuð við fjóra; ég var með þrjár kjúklingabringur en þessar voru reyndar í stærri kantinum svo að tvær hefðu líklega alveg dugað …

_MG_9915

Þar sem þetta var salat en ekki heitur réttur byrjaði ég á kjúklingnum og það með góðum fyrirvara svo að bringurnar hefðu tíma til að kólna. Ég kryddaði þær með hálfri teskeið af þurrkuðu timjani, ásamt pipar og salti. Svo hitaði ég 2 msk af olíu á pönnu og steikti bringurnar við meðalhita í um 10 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær voru rétt steiktar í gegn – ívið skemur ef þær eru litlar. Einnig má baka þær í ofni við 200°C. Ég lét þær kólna og skar þær svo í hæfilega munnbita.

En á meðan gerði ég hnetusósuna, sem er án viðbætts sykurs. Í staðinn notaði ég eitt vel þroskað mangó – þaðan kemur sætan – flysjaði það og steinhreinsaði, skar það í bita og setti í matvinnsluvél/hakkara/blandara ásamt 125 ml af hnetusmjör, 4 msk af matarolíu, 2 msk af hrísgrjónaediki (eplaedik sleppur alveg), 1 msk af sojasósu, safa úr 1 límónu, 1 tsk af sriracha-sósu eða annarri chilisósu (eða eftir smekk), 2 söxuðum hvítlauksgeirum, söxuðum svona 3 cm bita af engiferrót, pipar og svolitlu salti.

_MG_9934

Svo maukaði ég þetta allt vel saman. Ef sósan er mjög þykk má þynna hana með svolitlu köldu vatni. En mér finnst betra að hafa hana þykka.

Síðan tók ég þrjár meðalstórar gulrætur og reif þær á grófu rifjárni (núna myndi ég auðvitað nota nýju fínu matvinnsluvélina mína en hana átti ég ekki í fyrra og það var vesen að rífa gulrætur í þeirri gömlu svo að ef magnið vara ekki mikið notaði ég nú bara rifjárn).

Svo skar ég stönglana úr nokkrum grænkálsblöðunum og saxaði þau síðan gróft og skar hálfa gúrku í litla teninga.

_MG_9936

Ég setti allt grænmetið í skál, setti hnetusósuna út í og blandaði vel. Að lokum setti ég kjúklingabitana út í og blandaði öllu vel saman.

_MG_9981

 

Ég setti svo salatið á fat og stráði dálitlu kóríanderlaufi yfir (en því má alveg sleppa). Hafði svo gott brauð með. Og hvítvínsglas, en það var nú sumar og þetta var á svölunum …

*

Kjúklinga-satay-salat með grænkáli og gúrkum

2–3 kjúklingabringur

1/2 tsk timjan, þurrkað

pipar og salt

2 msk olía

3 gulrætur, meðalstórar

4–5 grænkálsblöð

1/2 gúrka

e.t.v. kóríanderlauf

*

Hnetu-chilisósa

1 mangó, vel þroskað

125 ml hnetusmjör

4 msk matarolía

2 msk hrísgrjónaedik

1 msk sojasósa

safi úr 1 límónu

1 tsk sriracha-sósa eða önnur chilisósa

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

3 cm biti af engiferrót, saxaður

pipar og salt

One comment

  1. Sæl, Nanna.
    Ég hef vetursetu í Kaupmannahöfn og velti orðinu ‘gluggaveður’ fyrir mér í gluggaveðri um daginn. Aðspurðir Danir könnuðust ekki við að sambærilegt orð væri til hérlendis. Í norrænu veforðabókinni Íslex er ‘gluggaveður’ umorðað, t.d. svona á dönsku: ‘vejr som er smukt at se på fra vinduet, men som er koldt og blæsende’. Íslex gefur þó til kynna að ‘gluggaveður’ sé til í færeysku, stafsett eins og hjá okkur, og það er trúlegt að Færeyingar hafi fengið orðið að láni úr íslensku.
    Bestu kveðjur,
    Guðrún

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s