Kúskús og kjúklingabaunir

Eurovisionkeppnin er eitt af mörgu sem allir nema ég (eða svo gott sem) horfa á og hafa skoðanir á. En ég hef nú bara verið að horfa á glæpaþætti í danska sjónvarpinu í kvöld. Já, og þar á undan Matador. Ég vissi satt að segja ekki einu sinni að íslensku úrslitin væru í kvöld fyrr en ég fór að sjá það á Facebook.

Ég er reyndar búin að vera á þönum að elda mat og taka myndir af honum í allan dag og þá er bara ágætt að slappa af yfir nokkrum morðum og svoleiðis, frekar en misgóðum lögum (eða ég geri ráð fyrir að þau séu misgóð en ég hef svosem ekki heyrt neitt af þeim, það getur auðvitað verið að þau séu öll frábær, hvað veit ég …)

Þetta er samt ekki einn af réttunum sem ég var að elda í dag. Þetta gerði ég fyrir janúarblað MAN. Þemað var veganmatur svo að þetta fellur í þann flokk. En ég hef reyndar líka haft þetta sem meðlæti, með kjúklingi minnir mig; það kom ágætlega út. En sem aðalréttur gæti þetta passað fyrir fjóra.

Ég hef verið dálítið hrifin af kryddristuðum kjúklingabaunum að undanförnu og notað þær í ýmsa rétti. Hér koma þær einmitt við sögu.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 210°C og klæða ofnskúffu með bökunarpappír. Svo opnaði ég tvær dósir af kjúklingabaunum, hellti þeim í sigti og lét renna vel af þeim. Síðan hrærði ég saman 2 msk af ólífuolíu, 2 msk af harissa (það mætti líka nota annað chilimauk) og salt í skál, settu baunirnar út í og blandaði vel.

IMG_4768

Ég dreifði baununum svo í ofnskúffuna og bakaði þær í 20-25 mínútur; hrærði í einu sinni eða tvisvar.

IMG_4770

Á meðan ristaði ég 40 g af heslihnetum á þurri pönnu þar til þær voru aðeins farnar að taka lit. Þá hellti ég þeim á hreint viskastykki  (þarf annars að taka það fram? myndu ekki allir nota hreint stykki? samt er það alltaf sagt í uppskriftum …) og nuddaði þær til að ná af þeim mestöllu hýðinu. Síðan grófsaxaði ég þær.

Ég var með einn stóran rauðlauk – það má líka nota tvo minni – og síðan í þunnar sneiðar. Hitaði 1 msk af ólífuolíu á pönnu og lét krauma við vægan hita í um 15 mínútur; hrærði öðru hverju.

Ég útbjó svo 250 g af kúskúsi samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, kryddaði það með pipar og salti og hellti 3 msk af ólífuolíu yfir.

IMG_4784

Baunirnar voru tilbúnar og ég blandaði þeim saman við, ásamt rauðlauknum.

IMG_4868

Ég dreifði svo blöndunni á fat og stráðu hnetunum og lófafylli af saxaðri steinselju yfir.

IMG_4895

Kúskús með kryddristuðum kjúklingabaunum

2 dósir kjúklingabaunir

6 msk góð ólífuolía

2 msk harissa eða annað chilimauk

salt

40 g heslihnetur, heilar

1 stór rauðlaukur eða 2 minni

250 g kúskús

sjóðandi vatn eftir þörfum

steinselja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s