Gamlar lummur …

Nú er líklega kominn tími á eitthvert sætmeti – en samt eiginlega ekki því að þessar ágætu lummur eru reyndar sykurlausar. Já, og reyndar glútenlausar líka. En það eru reyndar ber í þeim og þau innihalda vissulega einhvern ávaxasykur: Hvað sem því líður eru þetta alveg ágætis lummur – og þeir sem eru ekkert að reyna að sneiða hjá sykri geta auðvitað hrúgað sykri á þær eða hellt hlynsírópi eða hunangi yfir eða whatever.

Ég notaði brómber í lummurnar sjálfar en það mætti auðvitað nota önnur ber, til dæmis bláber eða hindber. Upplagt að nota frosin ber í deigið og bera svo fram fersk ber með lummunum. Það ættu að verða svona 10-12 lummur úr þessu.

Þetta eru gamlar lummur, þ.e. það er nokkuð langt síðan ég gerði þær og myndaði. Myndirnar af undirbúningnum hafa líklega glatast þegar harði diskurinn á tölvunni minni hrundi á sínum tíma, ég finn þær að minnsta kosti ekki fremur en flestar aðrar undirbúningsmyndir frá sama tíma. En það kemur líklega ekki að sök og hér eru myndir af tilbúnum lummum.

Brómberjalummur

Ég byrjaði á að hræra tvö egg og 100 ml af hreinni jógúrt saman í skál. Svo blandaði ég saman 75 g af möndlumjöli, 25 g af gulu maísmjöli, 1/2 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af matarsóda og 1/4 tsk af kanil í annarri skál og hrærði þessu svo saman við eggja-jógúrtblönduna. Svo bræddi ég 50 g af smjöri á pönnu og hrærðu því saman við – það má líka nota ámóta magn af olíu. Að lokum blandaði ég 100 g af brómberjum saman við.

Ég bræddi svo smjörklípu á pönnu og setti lummusoppuna á pönnuna – svona 3-4 msk í hverja lummu og reyndi að hafa svona tvö brómber í hverri. Síðan steikti ég lummurnar við meðalhita þar til loftbólur fóru að sjást á yfirborðinu. Sneri þeim þá við og steikti í smástund á hinni hliðinni.

Ég bar svo lummurnar fram með meiri brómberjum ásamt öðrum berjum og svo þeyttum rjóma, en það má líka sleppa honum eða hafa sýrðan rjóma eða mascarponeost með. Og kannski síróp eða hunang fyrir þá sem vilja. Eða bara sykur …

*

Brómberjalummur

2 egg

100 ml hrein jógúrt

75 g möndlumjöl

25 g maísmjöl (gult)

½ tsk lyftiduft

¼ tsk matarsódi

¼ tsk kanell

50 g smjör eða olía (og meira til steikingar)

100 g brómber

sýrður rjómi, þeyttur rjómi eða mascarponeostur

ber til að hafa með

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s