Suðuramerísk súpa

Enginn fiskur á næstunni, sagði ég og stend við það. Hér er aftur á móti súpa sem inniheldur hvorki fisk né kjöt, heldur ekki mjólkurafurðir eða neitt þess háttar, þetta er nefnilega vegan-útgáfa af ajiaco, kólumbískri maís- og grænmetissúpu, sem er til í ótal útgáfum en inniheldur gjarna kjúkling. Þessi hér gerir það hins vegar ekki.

Súpan þekkist í Kólumbíu, Perú og á Kúbu, þar sem hún er reyndar að ég held fremur kássa en súpa. Reyndar er sagt að hún sé upprunnin á Kúbu og hafi þekkst þar allt frá 16. öld. En kólumbíska útgáfan er þekktust. – Mér skilst að í Bogotá séu yfirleitt notaðar þrjár mismunandi tegundir af kartöflum í súpuna en ég notaði nú bara eina. Svo er líka notuð kryddjurt sem fæst ekki hér og kannski óvíða utan Kólumbíu. Og auðvitað kjúklingurinn. Þannig að Kólumbíubúar myndu líklega ekkert kannast við þessa útgáfu og sverja hana af sér – en hún er nú ágæt samt.

IMG_5054.jpg

Ég byrjaði á að saxa einn lauk. Svo tók ég um 500 g af bökunarkartöflum og tvær vænar gulrætur, flysjaði þær og skar í bita. Ég var með tvo maískólfa og skar kornið af öðrum þeirra. Hitaði 2 msk af olíu í potti og lét laukinn krauma við meðalhita í nokkrar mínútur. Þá setti ég kartöflur, gulrætur og afskorna maískornið út í.

Svo bætti ég við 150 g af frosnum (en þiðnuðum), grænum baunum (en skildi eftir 100 g til viðbótar, þær fara út í seinna).

IMG_5057

Svo hellti ég 1 l af vatni í pottinn, bætti við 1 msk af grænmetiskrafti, pipar og salti, hitaði að suðu og lét sjóða í 25-30 mínútur.

Svo tók ég grænmetisstappara og stappaði grænmetið gróft. Það má líka nota töfrasprota, en súpan á þó alls ekki að vera slétt.

IMG_5063

Ég skar svo maískólfinn sem eftir var í 1 cm sneiðar og setti út í ásamt afganginum af grænu baununum.

Ég lét svo súpuna sjóða í 10 mínútur í viðbót. Þá smakkaði ég hana, bragðbætti með pipar og salti eftir smekk og stráði kóríanderlaufi yfir.

Kólumbísk grænmetissúpa (12)

Kólumbísk maís- og grænmetissúpa

1 laukur

um 500 g bökunarkartöflur

2-3 gulrætur

2 maískólfar

2 msk olía

250 g frosnar grænar baunir

1 l vatn

1 msk grænmetiskraftur

salt og pipar

kóríanderlauf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s