Jæja, hér er þá tuttugasta og áttunda fiskmetisuppskriftin í röð – og sú síðasta í bili, ég lofa einhverju allt öðru næst. Ég taldi nú upp um miðjan mánuðinn hvaða tegundir ég hafði þá notað í uppskriftirnar en síðan það var hef ég notað lax – reyndar þrisvar, hér, hér og hér, þorsk, blöndu af steinbít og rækjum, saltfisk, meiri rækjur (tvo rétti í einu), ferskan túnfisk, rauðsprettu og löngu. Og nú er það reykt ýsa.
Ég held upp á reykta ýsu en eins og ég hef sagt frá áður var hún lengi vel eiginlega eini maturinn sem ég gat ekki borðað, þótt mér þætti hún góð. En svo sigraðist ég á því og það var nú ágætt. Svo að nú er hún nokkuð oft í matinn, allavega oftar en ný ýsa (það hefur líka komið fram að ég er ekkert sérlega mikið fyrir nýja ýsu, eða tek aðra fiska fram yfir hana). Þessi uppskrift er úr bókinni Létt og litríkt og var hálfpartinn sköpuð til að gefa mér tækifæri til að nýta þessa krúttlegu litlu leirpotta, sem ég rakst á í Boswell í Oxford. Ég fer alltaf í þá búð þegar ég er í Oxford og kem sjaldan tómhent út – ekki heldur þegar ég er í raun með fulla tösku og er á leið í eitthvert Evrópuflakk eftir ráðstefnuna og hef í rauninni alls ekki pláss fyrir dót. Síst af öllu leirpotta og svoleiðis (en ég hef þó hingað til staðist freistinguna að kaupa steypujárn í Boswell og drösla því með mér).
En ég geri nú ráð fyrir að þið eigið ekkert endilega svona leirpotta eða eitthvað sambærilegt svo að ég ætla bara að segja það strax að það má líka gera þetta í einu eldföstu formi, ekki stóru.
Þar sem ég á bara þrjá svona potta – það er að segja, þessa týpu, ég á aðrar sortir en það hefði ekki komið eins vel út á mynd að blanda þeim saman – þá gerði ég skammt sem passar fyrir þrjá. Jafnvel bara tvo, þetta eru ekki stórir pottar. Svo að ég keypti bara 300 g af reyktri ýsu. Byrjaði á að roðfletta hana og skera í frekar litla bita. Svo kveikti ég á ofninum og stillti hann á 200°C.
Ég tók svo 4 vorlauka (má líka vera 1 lítill blaðlaukur) og saxaði þá. Saxaði líka 75 g af beikoni fremur smátt. Hitaði 1 msk af olíu í potti og lét þetta krauma í nokkrar mínútur, ásamt 1/2 tsk af timjani og einu lárviðarlaufi. Hrærði oft á meðan.
Ég tók svo 350 g af kartöflum (ekki mjög stórum), flysjaði þær, skar þær í þunnar sneiðar og setti út í pottinn ásamt pipar og e.t.v. svolitlu salti (það þarf að hafa í huga að beikonið er salt). Hellti 200 ml af mjólk yfir og hitaði að suðu.
Ég lét þetta malla undir loki í um 10 mínútur, eða þar til kartöflurnar voru orðnar nærri meyrar. Hrærði að lokum 150 g af frosnu maískori saman við, veiddi lárviðarlaufið upp úr og henti því.
Ég smurði svo pottana (eða þá eitt eldfast form) með svolitlu smjöri. Setti helminginn af kartöflublöndunni á botninn, raðaðu ýsubitum ofan á, setti afganginn af kartöflunum yfir og hellti því sem eftir var af mjólkinni yfir allt saman.
Svo stráði ég parmesanosti yfir og bakaði þetta í miðjum ofni í um 20 mínútur, þar til osturinn var gullinbrúnn.
Svo bar ég þetta fram í pottunum – það er tilvalið að hafa gott grænt salat með þessu.
Gratíneruð reykt ýsa með maís
300 g reykt ýsa
4 vorlaukar eða 1 lítill blaðlaukur
75 g magurt beikon
1 msk olia
½ tsk timjan
1 lárviðarlauf
350 g kartöflur
pipar
e.t.v. salt
200 ml mjólk
150 g maískorn
smjör til að smyrja formin
25 g nýrifinn parmesanostur